2670 - Frjálslyndi o.fl.

Ég sagði það víst í síðustu færslu að ríkisstjórnin færi vel af stað. Það staðfestist í skoðanakönnun sem ég var að enda við að lesa um, þar sem ríkisstjórnin fær að mig minnir 78% stuðning. Mest er það að sjálfsögðu útá loforð og þessháttar vitleysu. Er ekki verulega bjartsýnn á að þessi ríkisstjórn verði hagstæðari mér og mínum líkum en vant er. Það að hækka frítekjumarkið í hundrað þúsund í stað fimmtíu kemur mér ekki að neinu gagni. Áfram mun Tryggingastofnunin stela af mér fjármunum sem fyrr og ríkisstjórnin segist ætla að athuga málið. Kannski verður það gert, en ég á ekki von á að neitt komi útúr því. Ríkinu kemur það ekki hundaskít við í rauninni þó mér hafi tekist á langri ævi að öngla saman svolitlum peningum í lífeyrissjóð. Lífeyrissjóðirnir eru uppspretta alls ills eins og allir vita.

Hvað nær frjálslyndi okkar langt? Að mínu viti hefur ekki að ráði reynt á það ennþá. Mega t.d. systur giftast, en bræður, og kannski systkini líka? Ef karlar mega giftast er þá nokkur ástæða til að amast við bræðrabrúðkaupum. Einu sinni var talað um blóðskömm, en er nokkur ástæða til þess lengur. Mega systkini ekki eigast, eða hvað? Og má þá ekki alveg eins giftast hundinum sínum ef út í það er farið? Og gæti hundurinn ekki giftst kettinum? Er nokkur ástæða til takmarkana? Er ekki giftingin sjálf mannanna verk og þessvegna engum takmörkunum háð? Ég er bara að spögúlera.

Öðruvísi saga er heillandi. Sjálfur er ég hugsa um að skrifa sögu um það hvernig farið hefði ef Ísland hefði ekki fundist fyrr en á tuttugustu öldinni. Fyrst við hlupum yfir aldirnar frá 1400 til 1900, munar okkur þá nokkuð um að hlaupa yfir fáeinar í viðbót? Rolluskjáturnar sem hefðu komið með Gullfossi til landsins hefðu kannski verið alla tuttugustu öldina að éta okkur útá gaddinn. Og hvernig hefði minnka- og laxavitleysan farið með okkur. Svo ekki sé nú talað um sjálft Hrunið. Möguleikarnir eru ótæmandi. Ætli sé ekki best að fara strax að undirbúa þetta?

Kannast hlustendur við orðin: Ylríki, Spiljaðar, Fuglanes, Svanalæk, Luxustanga, Selgufur, Bognabrest og Úlpuberg? Nei, ég bjóst svosem ekki við því. Hérna er ráðningin: Varmaland, Ásbrún, Haukatunga, Álfavatn, Munaðarnes, Kópareykir, Svignaskarð og Stakkhamar. Mér skilst að þetta séu allt saman bæir á Vesturlandi. Lítið er ungs manns gaman mætti kannski segja. Að öðru leyti en því að ég er alsekkert ungur lengur. Samt uni ég mér við svonalagað. Það er að segja þegar ég verð andvaka. Eins og núna. Glaðvaknaði áðan, næstum því með andfælum og þó var klukkan ekki einu sinni orðin tvö. Eins og alltaf fór ég að sofa um ellefuleytið, en það dugð semsagt ekki til.

IMG 0364Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband