2663 - Um dauðann o.m.fl.

Einhver læknir var að skrifa í Fréttablaðið um daginn um ótímabær dauðsföll. Held að hann hafi verið að tala um bráðkveddu, hjartaslag og þessháttar. Ekki er ég að gagnrýna hann, en þetta orðalag hlýtur að þýða að sum dauðsföll séu tímabær. Sjálfur er ég efalaust að nálgast þau tímamót að dauðsfall mitt sé tímabært. Svolítið er það samt óhugnanlegt.

Skelfingar viðkvæmni er þetta, kynni einhver að hugsa og jafnvel segja. Dauðinn og allt sem honum tilheyrir er algjört tabú hér á Íslandi. Ekki held ég að svo sé allsstaðar. Einhvern staðar las ég að u.þ.b. 200 þúsund manns deyji á hverjum degi í heiminum og ekki sé mikið þó 50 milljónir manna láti lífið í einni smáheimsstyrjöld.

„Skelfing deyr af fólkinu eftir að útvarpið kom“, var haft eftir einhverjum sem ekki fylgdist vel með. Kannski það hafi verið sá sami og sagði um lætin í síðari heimsstyrjaldarinni þegar sífellt var talað um það í útvarpinu og annars staðar að svo og svo margir hefðu fallið. „Það veit ég, að þetta endar með því að þeir drepa einhvern“.  

Hér er lítið dæmi um hve miklu smávægilegur misskilningur getur valdið. Í Passíusálmunum er mér fortalið að standi einhversstaðar:

Sálin má ei fyrir utan kross,
öðlast á himnum dýrðarhnoss.

Ekki er ætlun mín að véfengja þetta, en sagt er að sveitarlimur einn hafi orðið óður og uppvægur þegar ráðgert var að flytja hann á annan bæ sem var víst utar í sveitinni en bærinn Kross. Utanbókar kunni hann mestalla Passíusálmana.

Í Bandaríkjunum, og kannski víðar, er til myndefni af mörgum fjöldamorðum sem tekin eru upp af öryggismyndavélum. Hart er nú deilt um hvort gera skuli myndbönd þessi aðgengileg almenningi og eru sjónarmiðin mörg. Sumir vilja t.d. eyða þeim með öllu, ef ekki þarf á þeim að halda núna. Ekki síst á þetta við um fjöldamorðin sem framin voru í kirkju í smábæ í Texas nýlega. Sá atburður í heild sinni er til á myndbandi. Til stendur jafnvel að rífa kirkjuna þar sem þetta átti sér stað og reisa í staðinn minnismerki um þá sem létu líf sitt þennan örlagaríka dag.

Fremur dapurlegt er þetta innlegg mitt að verða og biðst ég afsökunar á því. Við því er þó ekkert að gera. Svona hugsa ég bara.

Deila má um hvort fólk sé kattafólk eða hunda. Sjálfur er ég hallari að köttum. Kettirnir hugsa fyrst og fremst um eigin hag, held ég. Hundarnir virðast aftur á móti hugsa mjög um hag yfirhundsins, hvort sem það er manneskja eða ekki. Einnig hugsa þeir oft vel um þá sem minni máttar eru. Vel má líka hugsa sér að vilja hafa báðar tegundirnar í kringum sig eða hvoruga. Hávaði og hreinlæti getur skipt miklu í því sambandi.

IMG 0594Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég sá í sumar rætt um það í blaðagrein að til væru tölur um "ótæmabær dauðsföll" og væri miðað við 75 ára aldur.  

Sem aftur þýðir það að ef maður hrekkur skyndilega upp af við að skrifa þessa athugasemd er það skilgreint sem tímabært dauðsfall. 

Sem aftur undirstrikar djúpa speki, sem ég áttaði mig ekki á fyrr en eftir sjötugt, að því lengur sem maður lifir, því meiri líkur eru á að maður drepist. 

Ómar Ragnarsson, 10.11.2017 kl. 11:03

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þakka góðan pistil, eins og þín er von og vísa. Velti reyndar fyrir mér, þessu með orðið "bráðkveddu". Kannast vel við bráðgreddu. Gott ef hún gagntók mig ekki í að minnsta kosti tvígang, á mínum yngri árum. Er ekki alveg viss. Það gerðist svo snöggt. En þetta með bráðkveddu. "Bráðkveddu nú frænda þinn og haskaðu þér af stað drengur" var eitt sinn sagt við mig, sem ungan dreng. Ég kvaddi hið bráðasta og enginn dó. 

 Orðatiltækið "ótímabær dauðsföll" er nokkuð skondið, en umhugsunarvert að auki. Sérstaklega í ljósi þess, sem Ómar segir, að það sé bannað eftir 75 ára aldur. Allt þaðan af eldra er tímabært að hrökkvi uppaf. 

 Svo má einnig segja sem svo, að því lengur sem maður lifir, því minni líkur eru á því, að maður lifi mikið lengur. Það er dulítið hófstilltara, en að segja að því meiri líkur séu á því að maður drepist. Það gætu nefnilega verið börn að hlusta, eða lesa.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 10.11.2017 kl. 18:33

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ómar. Þetta með ótímabær dauðsföll er eins og Halldór gefur í skyn sennilega oftast sagt að mestu hugsunarlaust. Samt er þetta svolítið undarlegt orðalag. Verst er að það sem maður skrifar er kannski misskilið. Var í dag í jarðarför hjá einum sem var snimmhendis hrifsaður burt þegar hann varð 75 ára. Sennilega erum við bara á lánstíma og allir sem eru meira en 75 ára.

Sæmundur Bjarnason, 10.11.2017 kl. 20:28

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Halldór þetta með bráðkvedduna er hjá mér hugsað sem dregið af því að verða bráðkvaddur. Ekki þýðir það alltaf að vera kvaddur í snatri.

Augljóslega styttist það sem maður á eftir ólifað því lengur sem maður lifir. Þessvegna er það sem barnamorð eru fyrirlitlegri en önnur.

Þetta með tímabær og ótímabær dauðsföll er dálítið harkalegt.

Sæmundur Bjarnason, 10.11.2017 kl. 20:35

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Bráðkvedda held ég að sé þegar fólk drepst af sjálfu sér, þ.e. án þess að það sé veikt svo vitað sé, lendi í slysi eða annar komi því fyrir kattarnef.

Í heiðni mátti stúta bæði ungbörnum og gamalmennum. Líklega skipti það heiðingjana ekki svo miklu máli hvort fólk átti mikið eða lítið ólifað. Þá var líka eftirsóknarverðast að láta sarga af sér hausinn með bitlausri exi. Þá fóru þeir í Valhöll og lifðu við glaum og gleði eftirleiðis. Jarðlífið var því kannski ekki svo mikilvægt, og reyndar ríkti sú hugsun áfram lengi vel í kristni, en munurinn var að þá komust ekki bara bardagakappar í merginn og feitina hinum megin heldur öll alþýða manna, meira að segja kvenfólk.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.11.2017 kl. 00:53

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Þorsteinn minn, alveg er ég sammála þessu. Á þjóðveldisöld voru ungbörn víst borin út og gamalt fólk rekið fyrir björg, að sagt er.

Varðandi himnaríkisvistina er það að segja að nútildags eru jihadistar einmitt ásakaðir fyrir að trúa einhverju slíku, af þeim sem þykjast vita betur. Af hverju skyldu þeir vita það? Veit nokkur með vissu hvað tekur við að hérvistinni lokinni?

Sæmundur Bjarnason, 11.11.2017 kl. 08:53

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Tekur nokkuð annað við, að jarðvist manna lokinni, en það sama og hjá öðru sem deyr og visnar? Við endum öll sem jarðvegur. Jafnvel gróðurmold, ef grafið er nógu djúpt.  Lífið er dýrt og dauðinn þess borgun, drekkum í dag og iðrumst á morgun. Það er ekkert til sem heitir himnaríki, eða eftirlíf, að mínu mati, en sitt sýnist hverjum og er það vel.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 11.11.2017 kl. 09:27

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þakka þér Halldór Egill fyrir hrósið í fyrri athugasemd þinni.

Gleymdi því víst áðan.

Þetta með gróðurmoldina er athyglisvert. Er þá allt líf jafnmikils virði? Mér hefur stundum orðið starsýnt á ánamaðkana á gangstígunum og reyni að forðast að stíga á þá. Geng samt ekki svo langt að reyna að bjarga þeim.

Sæmundur Bjarnason, 11.11.2017 kl. 10:29

9 identicon

Sæll Sæmundur

Eins og ég skil þetta, þá er það besta við dauðann andartakið rétt fyrir andlát. á þeim tímapunkti átta margir sig á því að sjálfið (egóið) kemur þeim ekki að frekari notum við að ná framgangi í lífinu. Þarna deyr egóið rétt á undan líkamanum. Niðurstaðan, ef rétt er að gáð, er sú viðkomandi áttar sig á tilgangi alls lífs þegar að egóið hindrar ekki sýn lengur. Það getur að sjálfsöðu margt truflað þetta, eins og að trú þessu ekki eða trú bara einhverju öðru.

Hvað varðar dauðann sjálfann, þá er samkvæmt vísindum ekki hægt að eyða okkar smæstu einingum þ.e. atómunum. Þannig að í einhverjum skilningi lifum við að eilífu.

Sigþór Hrafnsson 11.11.2017 kl. 13:30

10 identicon

Við þetta má bæta að menn geta valið um að verða að moldu eða fara út í geim þ.e. atomin fara upp í andrúmsloftið og síðar út í geim, ef viðkomandi er brenndur.

Sigþór Hrafnsson 11.11.2017 kl. 13:35

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir þetta, Sigþór. Eitthvað af atómum hlýtur samt að verða eftir í öskunni, eða hvað?

Sæmundur Bjarnason, 11.11.2017 kl. 20:28

12 identicon

Jú Sæmundur, það mun verða einhvað eftir og svo er sumt sem brennur illa, tennir kannski. Þannig að maður getur fá valið um mold eða jörð og geim. Það finnst mér ansi góður valkostir :)

Sigþór Hrafnsson 13.11.2017 kl. 11:26

13 identicon

Tennur átti það að vera.

Sigþór Hrafnsson 13.11.2017 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband