2647 - Númer eitthvað

Einhvern vegin hef ég ruglast í talningunni á bloggunum mínum. Undanfarið hef ég dregið (alveg óvart) 100 frá þegar ég hef skrifað töluna. Sennilega er öllum skítsama um þetta, nema þá helst mér.

Samkvæmt einhverjum hávísindalegum rannsóknum hefur það komið í ljós að mun meiri líkur á að maður fái Nóbelsverðlaun ef maður étur nógu mikið af súkkulaði. Vísindi af þessu tagi heilla mig ekki. Fjölmiðlamenn eru samt veikir fyrir rannsóknum hverskonar og umhverfast alveg ef þeir frétta af skoðanakönnunum. Sama hvað vitlausar þær eru. Eiginlega er hægt að sanna hvað sem er með rannsóknum. Bara ef þær eru rétt valdar. Eins og allir vita er hægt að ljúga með tölum, enda gera það margir alveg svikalaust. Ekki síst stjórnmálamenn þegar þeir þykjast vera að sanna einhvern andskotann. Stundum nota þeir jafnvel línurit eða eitthvað þessháttar og þá þarf að vara sig á þeim.

Sennilega ætti ég að fara að leggja sjórnmálaskrif fyrir mig. Það er ekki laust við að einhver smáeftirspurn sé eftir skoðunum mínum á stjórnmálum. Þessa ályktun dreg ég af því að umferð um bloggið mitt hefur aukist töluvert eftir að stjórnin féll. Einhvern vegin er það samt svo að mér fellur best að skrifa um hitt og þetta í blogginu mínu. Ef lesendum fjölgar eitthvað er það bara gott mál. Leiðinlegt er að skrifa bara fyrir skrifborðsskúffuna, þó sumir geri það reyndar. Þessi bloggskrif mín eru samt það umfangsmikil að þau mundu flæða um alla íbúðina ef ég eyddi þeim ekki jafnóðum. Verð bara að vona að Morgunblaðið geymi þessi ósköp.

Hvað er það besta við fésbókina?
- Þessu er auðsvarað. Það besta við hana er að hún er alltaf „up to date“. Það er að segja maður veit að síðasta innlegg sem maður gjarnan vill svara, er ekki hundgamalt. Ég er nefnilega búinn að vera að kíkja á gömul „bookmörk“ undanfarið og sum (jafnvel mörg) þeirra eru búin að vera steindauð lengi.
- Hver er þá helsti gallinn við hana?
- Veit það ekki. En helsti gallinn við gömlu „bookmörkin“ er að víða er engar dagsetningar að finna.
- Af hverju er þér svona illa við fésbókina.
- Það er vegna þess að mér hefur aldrei tekist að læra almennilega á hana.

Æ hættum núna að tala um fésbókina. Ég er búinn að fá leið á henni. Aftur á móti líkar mér ágætlega við Moggabloggið. Sennilega er það vegna inngróinnar íhaldssemi. Hún gæti hvort sem er verið hjá mér eða blogginu.

Sumum bloggurum finnst greinilega að þeir þurfi að birta myndir í einhverju samræmi við efnið. Alveg hef ég gefist upp við það. Birti bara einhverjar myndir. Af hverju í andskotanum ætli ég sé að því? Sennilega er það bara til skrauts. Mætti sennilega alveg eins sleppa því. Hef samt gert það svo lengi að ég get ekki hætt. A.m.k. ekki meðan svona margar eru til. Fyrir löngu tók ég uppá því að endurnýta myndir. Held að ég haldi því bara áfram.

IMG 0970Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband