2643 - Hvor er meiri kjúklingur?

Eiginlega eiga þeir Kim Jong un og Donald Trump ekki að fá að fara í þennan leik. Sá sem fyrr lítur undan er taparinn. Leikir af þessu tagi hafa tíðkast lengi. Að færa hann á þennan hátt á persónulegan grundvöll er alveg óskiljanlegt. Auðvitað lítur þetta þannig út í augum flestra. Að sjálfsögðu getur Donald ekki beitt kjarnorkuvopnum og það veit Kim ósköp vel. Allir virðast uppteknir af því hvort Kim muni fyrr líta undan. Kannski beitir hann kjarorkuvopnum og kannski ekki. Ef Donald beitir öllum hernaðarmætti USA nema kjarnorkuvopnum að Norður-Kóreu gæti hann verið á leið inní nýtt Viet-Nam stríð og allsekki er séð fyrir endann á því.

Heilmikið er um það rætt hvort leyfilegt eigi að vera að kýla nasista. Held að umræða um þetta eigi sér stað á pírataspjallinu. Yfirleitt nenni ég ekki að lesa það sem þar er skrifað. Vel getur verið að það sé samt merkilegra en flest annað. Maður getur ekki náð því að lesa hvað sem er. Sumir lesa þetta hér blogg mun fremur en flest annað þó það sé undarlegt. Þetta með nasista og barsmíðar finnst mér dálítið umhendis að vera að ræða á pírataspjallinu. Ég veit svosem ekki hvernig umræður fara þar yfirleitt fram. Eitthvað er samt vitnað í umræður þar. Kannski ég ætti að setja það á mitt sálarprik að lesa það oftar. Annars kemst ég aldrei yfir að lesa nærri allt sem haldið er að mér á fésbókinni og annarsstaðar. Ofbeldi finnst mér að aldrei eigi rétt á sér. Því sé hvorki rétt að slá nasista eða aðra. Þetta með málfrelsið er þó margslungið vandamál. Ef nasistar halda einhverri vitleysu fram finnst mér nær að reyna að leiða þeim villu síns vegar fyrir sjónir en að lemja þá.

Hugsanlegt er að sumir þeirra sem sagðir eru með ólæknandi krabbamein og eigi stutt eftir ólifað geri fullmikið úr hlutunum. Ekki ætla ég að halda því fram að svo sé, en sá grunur læðist samt stundum að manni að svo gæti verið. Með þessu er mögulegt að þeir vonist eftir því að verða gagnrýndir minna þó þeir haldi fram umdeildum sjónarmiðum. Kannski er þessi grunur ferlega ósanngjarn, en ég get bara ekki að mér gert. Þó ég væri með krabbamein er ekki víst að ég mundi útbásúna það, enda er ég sem betur fer ekki minnstu vitund frægur. Ég er bara venjulegur bloggari sem nokkrir tugir og í besta falli fáein hundruð legga sig niður við að lesa, þegar ég læt svo lítið að skrifa. Aðallega eru það ættingjar og vinir eða kunningjar sem ég á þónokkra þó ég sé introvert hinn mesti eða fýldur leiðindapúki eins og flestir mundu segja.

Ýmsum skoðunum hef ég haldið fram hér á þessu bloggi sem ég hef haldið úti ansi lengi. Þó hef ég reynt að gera mér far um að meiða enga að ósekju. Þar með hefur bloggið orðið litlausara en það gæti verið. Þó get ég alls ekki ætlast til þess að nokkur maður sé sammála mér um öll þau málefni sem ég hef minnst á. Ég hef gaman af að skrifa, en sumir sem þó skrifa mjög mikið á félagslegu miðlana láta eins og skrifin séu þeim þvert um geð. Mér finnst það illa farið með sæmileg skrif að nenna ekki að lesa þau yfir. Í flestum tilfellum mundu þau batna mikið við það. Meirihluti þess sem skrifað er á fésbókina er heldur illa skrifað. Flestum kann að finnast það í góðu lagi. Leiðinlegt er að skrifa mjög vitlaust og ef ekki er lesið yfir er mikil hætta á misskilningi allskonar og fáránlegum vitleysum.

Eitthvað hefur dregist hjá mér að senda þetta út í eterinn. Í gær var þingsetning og fjárlagafrumvarpið lagt fram. Með því er reynt að drepa sem flestu á dreif með því að hafa tölurnar nógu margar til að rugla fólk í ríminu því flestir hafa um nóg annað að hugsa. Tvær tölur voru það sem festust í huga mér og að mörgu leyti er það fjandans nóg. Sagt er að hver og einn íslendingur borgi 333 þúsund fyrir heilbrigðiskerfið. Auðvitað munar þá sem hafa nokkrar eða fjölmargar milljónir í laun á mánuði ekki mjög mikið um þessar 333 þúsundir. Þeir fátækustu eiga eflaust í vandræðum með þetta. Þeir borga þó a.m.k. virðisaukaskatt sem er sagður vera 29 prósent af tekjum ríkissjóðs. Ég þarf ekki fleiri tölur en þessar tvær til þess að sjá óréttlætið í þessu. Efast má svo sannarlega um að þeir hálaunuðu séu eitthvað verðmætari þjóðfélagsþegnar en hinir.

IMG 0989Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband