2638 - Trump-blæti

Sennilega er ég með einskonar Trump-blæti. Jafnvel er ég ekki einn um það. Að einu leyti er ég hugsanlega líkur honum. Hann er eins og kunnugt er Twitter-óður. Lætur allt flakka í Twitter-færslum sínum og leitast við að koma hugsun sinni á framfæri í sem fæstum orðum. Aftur á móti er ég sennilega Moggabloggs-óður og vil gjarnan líka koma hugsun minni á framfæri í sem fæstum orðum. Það hef ég lært af Jónasi Kristjánssyni og Páli Vilhjálmssyni. Sennilega er Trump líka á aldur við mig, en það finnst mér ekki skipta máli. Tölur og dagsetningar hafa aldrei verið mín sterka hlið. Minnið er líka ákaflega „selektíft“.

Ekki fer hjá því að margir hafi tekið eftir því að Trump hefur ánægju af því að reka eða segja fólki og samtökum upp. Stórblaðið Washington Post hefur stungið uppá því að hann segi Repúblikanaflokknum bara upp og bjóði sig fram utanflokka árið 2020. Með því mundi hann áreiðanlega lama eða ganga frá Repúblikanaflokknum. Og það sem kannski er verra frá hans sjónarmiði a.m.k.; hann mundi með því næstum tryggja Demókrötum sigur. Annars er Trump mesta ólíkindatól og erfitt að spá svona langt fram í tímann.

Þó McGregor hafi staðið sig betur en sumir áttu von á í bardaganum við Mayweather og hann gæti jafnvel átt talsverða framtíð fyrir sér í hnefaleikageiranum er ekki víst að hann eigi eftir að berjast aftur. A.m.k. er ekki líklegt að hann fari hefðbundnar leiðir í vali sínu á mótherjum. Þó hann hafi með tapi sínu komið svolitlu óorði á MMA-íþróttina, ef íþrótt skyldi kalla, virðist hún vera á góðri leið með að verða vinsælli en hnefaleikarnir. Mest held ég að það sé vegna þess að öll stjórnun þar virðist vera betur heppnuð og áhorfendur betur með á nótunum. Auk þess er hún blóðugri og átakameiri en boxið. Hnefaleikarnir hafa liðið fyrir það að þar eru alltof mörg sambönd og margir meistarar. Meiðslahættuna skulum við svo ekkert tala um. Sjálfshól og hávaði McGregors hefur sannarlega ekki hjálpað MMA eða UFC.

Á sínum tíma var ég Guðslifandi feginn þegar setan var afnumin. Ég átti nefnilega bágt með að tileinka mér z-reglurnar. Og í stafsetningarprófum var leitast við að leggja sjaldgæfar gildrur fyrir próftaka. Aftur á móti átti ég í litlum vandræðum með að skilja vel og tileinka mér y-reglur. Mín vegna mætti þó alveg afnema ypsilonið, en skelfing held ég að mér mundi þykja vel rituð íslenska ankannaleg ef svo væri gert. Greinarmerki, litla og stóra stafi, eitt eða tvö orð og ýmislegt þessháttar hef ég stundum átt í erfiðleikum með. Oftast er þó auðvelt að komast framhjá þess háttar hlutum. Sumir vilja láta framburð alveg ráða stafsetningu en það finnst mér of langt gengið.

Sennilega hef ég ekkert skrifað um uppreisn æru í lagalegum skilningi. Og heldur ekki um alþingismenn sem nenna ekki að sitja þar. Hvað æruna snertir finnst mér vel koma til greina að afnema öll ákvæði í lögum varðandi slíkt. Leyndarhjúpur sá sem umlukið hefur þessi mál er óásættanlegur. Þetta með að alþingismenn geti prófað í stuttan tíma hvernig það er að vera á þingi finnst mér líka óásættanlegt. Þá eru það líklega bara flóðin í Texas og hryðjuverkastarfsemi sem ég á eftir að skrifa um af því sem efst er á baugi núna.

IMG 1117Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband