2628 - Og nú er múkkinn farinn

Ýmislegt held ég að megi um forseta Filipseyja segja. Nýjasta afrek hans skilst mér að sé að hann hafi látið drepa borgarstjóra einn. Ekki er hann par hrifinn af Bandaríkjunum. Trump reyndi að bjóða honum í heimsókn í Hvíta húsið en hann vildi það ekki. Sagði: I've seen America, and it's lousy,”

„Þú er vitlaus og þér líður vel,“ sögðum við krakkarnir oft í gamla daga. Ekki veit ég hvaðan við höfðum það en sjáanlega má líka snúa þessu við. Þú ert óvitlaus (gáfaður) og líður illa. Þetta hefur nánast sömu merkingu og kannski höfum við meint eitthvað þess háttar. Samt held ég að yfirleitt hafi ekki mikil hugsun fylgt þessu.

Já, það er þetta með hann Skaramúkkí (öðru nafni betlarann) sem var kallaður yfirmaður Hvíta hússins hvað snerti öll samskipti við aðra í fáeina daga. Ég ákvað fljólega að leggja nafn hans á minnið, því ég hélt eiginlega að hann yrði ekki svona skammlífur í starfi einsog reyndin varð. Flestir þekkja aðferðina við að muna hluti, sem er fólgin í því að breyta einu nafni í tvö t.d. og ímynda sér mynd (t.d. hreyfimynd) af einhverjum hlut sem er nógu fráleitur sér til minnis. Skari og múkki voru orðin sem ég hugsaði mér. Mér er engin launung á því að Björgvin Óskar var Skari sá sem ég hugsaði mér. Og múkki var bara múkki. En nú er hann semsagt farinn í glatkistuna gaflalausu útaf Tromparanum

Þór og Kiddý komu hingað í dag og sáu m.a. kvikindin okkar, sem eru hundur og köttur, en haga sér samt ekki yfirleitt þannig. Þau (það er að segja Þór og Kiddý en ekki hundurinn og kötturinn) stoppuðu svolitla stund og fengu m.a. rjómapönnukökur. Veðrið var líka alveg ágætt í allan dag.

Eftir að hafa tapað nýlega svotil öllum bréfskákunum mínum á tíma (veit ekki hversvegna – kannski gleymdi ég mér bara) er ég aðeins að ná mér á strik aftur. Eiginlega er miklu betra að vera vanmetinn en ofmetinn á þessu sviði sem öðrum. Alltaf lendi ég í því öðru hvoru að tapa á tíma fjölmörgum skákum. Ekki nenni ég að skipta um taktík að þessu leyti því þá mundi eflaust fara alltof mikill tími í þetta.

Eitt kjötfjallið enn. Nú eru (skv. Fréttablaðinu) þúsundir tonna af rolluketi óseldar. Ekki dettur þessum snillingum hjá svonefndu markaðsráði landbúnaðarins í hug að Íslendingar vilja ekki sjá þessa hækla, sinar og hálsæðar sem verið er halda að þeim á okurprís. Hvenær skyldi verða almennileg útsala á eldgömlu rolluketi? Stutta svarið er greinilega „aldrei“, því þessu fólki dettur ekki neitt svoleiðis í hug.

IMG 1382Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband