2626 - Hvíldu þig, því að hvíld er góð

Steinbakað súrdeigsbrauð. Sólbakaðir sumartómatar. Niðurrigndir og maðkaðir kálhausar, sem þú veist ekkert hvaðan koma. Hávaðaprófað og vítamínbætt morgunkorn. Smash-style íslandsnaut á epalverði. Kolruglaðir kindaskrokkar. Útúrfullir apakettir með 50 til 70 prósent afslætti. Möguleikarnir eru endalausir og þú veist ekkert hvaðan á þig stendur veðrið. Allir lofa öllu. Mikilvægt er þó að sjá Bónus fyrir Costco. Annars átti þetta ekki að vera áróður. Svona er þetta bara. Öllum fjandanum er lofað. Mikilvægt er að finna áhrifamikil orð. Hver vill t.d. Öfgafullt áfengi. Bragðlausan bjór. Ropandi ræpubaunir eða eitthvað þvíumlíkt?

Þetta setti ég á fésbókina því mér þótti það ekki mega bíða:

Eftirfarandi klausa er úr Fréttablaði dagsins (forystugrein) og ég vil bara vekja frekari athygli á þessu. Þetta er hvorki íslenska né enska og höfundurinn má svo sannarlega skammast sín fyrir að láta annað eins frá sér fara.

„Helstu hagræðingarmöguleikarnir eru: hagstæðari innkaup hjá Olís og Lyfju, sameining búða, lækkun kostnaðar á headoffice og hugsanleg fækkun starfsfólks. Augljósustu hagræðingarmöguleikarnir eru í overhead, sem er þó frekar lean hjá Högum. Slíkur sparnaður er þó ekki make-it break-it á value-added í dílnum.“

Einhverja athygli vakti það þar. Sumir héldu líklega að ég væri að gagnrýna Fréttablaðið en svo var ekki. Held að þarna hafi verið vitnað í skýrslu sem samin var fyrir Landsbankann.

Kannski er versti gallinn við að hafa Tromparann fyrir forseta Bandaríkjanna sá að hann eykur svo sannarlega á hatrið milli hópa í landinu. Eða réttara sagt löndunum. Því vitanlega eru Bandaríkin mörg ríki. Þau hafa samt komið sér saman um að hafa ýmislegt, svosem forsetann, sameiginlegt og auka með því slagkraftinn. Helsti munurinn á ESB og USA sem ég sé er sá að þó svo ESB þróist í átt til eins ríkis þá má áfram gera ráð fyrir að lönd geti slitið sig frá sambandinu. (Brexit).

Líðan fólks er að mestu undir því sjálfu komin. Það er alltaf hægt að finna eitthvað til að vera óánægður með og það er líka alltaf hægt að finna eitthvað til að vera ánægður með. Galdurinn er að hafa sæmilegt jafnvægi þarna á milli. Eiginlega er ekkert gott eða vont í sjálfu sér. Allt fer eftir því hvernig á það er litið.

Þegar manni verður hugsað til þess hvað foreldrar manns hafa þurft að leggja á sig til að koma manni til manns, fallast manni hendur. Þegar maður sér síðan hvað börnin manns leggja á sig til þess að koma sínum börnum til manns falla hendurnar alveg af manni. Býst við að þegar maður sér þessa sömu sjón oftar verði maður alveg handalaus.

Ég sé núna að ekki hefur orðið úr því að ég skrifaði neitt í samræmi við fyrirsögnina. Það verður bara að hafa það. Kannski geri ég það seinna. Nú er þetta orðið svo langt og klukkan svo margt að ekki er neinu við þetta að bæta.

Einhver mynd. (Ekki frá í gær samt)IMG 1484


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband