2606 - Trump og skák

Er nýkominn heim eftir vikudvöl í sumarhúsi við Flúðir. Enginn vírus og ekki neitt í tölvunni. Því hafði ég samt alveg eins búist við eins og fréttirnar eru búnar að vera. Allt við það sama semsagt. Auðvitað hef ég ekki skrifað eða bloggað neitt á þessu tímabili. Er að fylgjast með sólsetrinu núna. Sólin sest næstum (eða alveg) í norðri og kemur svo upp nokkru seinna þegar hún er farin að nálgast austrið. Annars var ég hálfruglaður í áttunum í sumarhúsinu. Vildi helst láta stofugluggann snúa í suður en hann sneri víst nokkurnvegin í norður. Venjulega á ég eða átti auðvelt með að rata í útlendum borgum. Nú er sú gáfa víst að yfirgefa mig eins og svo margt annað.

Trump greyið er í mestu vandræðum. Kannski getur hann samt klórað sig frammúr þessu. Þetta sem hann hélt fram um Obama og símahleranirnar gæti hafa verið misskilningur. Óútskýrt er þó af hverju hann beið svona lengi með að reka Flynn. Brottrekstur hans á Comey gæti átt eftir að koma honum í koll. Pressan (svotil öll) er á móti honum og virðist bíða eftir því að hann geri sem mestar bommertur í þeirri ferð sem hann var að leggja af stað í. Á flestan hátt er Trump með öllu óhefðbundinn forseti og það vill Pressan ekki sjá. Forsetar eiga að vera sem fyrirsjáanlegastir. Þá er nefnilega svo auðvelt að spá í framtíðina og þykjast vera voða gáfaður.

Á Flúðum er garðyrkjustöð sem Melar heitir. Þar er hægt að fá gúrkur, tómata og ýmislegt fleira án þess að þar sé nokkur við afgreiðslu. Menn treysta einfaldlega á það að langflestir séu nógu heiðarlegir til að setja rétta upphæð í baukinn sem þar er til taks. Svo er eflaust, en þeir sem reka staðinn ættu þá að vera nógu heiðarlegir sjálfir til að gæta þess að setja ekki gamalt og skemmt grænmeti saman við það nýlega. Svo er þó ekki. Einn tómatur sem ég keypti þar á fullu verði var farinn að mygla og því býst maður ekki við á svona stað.

Venjulega hef ég svona 10 til 12 bréfskákir í gangi hverju sinni. Sinni þeim meðfram öðru Internetbrölti eins og hverjum öðrum hraðskákum en þegar ég fer í frí tapa ég þeim auðvitað öllum. Gæti samt sennilega beðið um einskonar sumarfrí þar en nenni því ekki. Þessvegna eru ELÓ-stigin ekki sérstaklega mörg hjá mér. Já, já. Auðvitað er þetta einskonar afsökun hjá mér vegna þess að á Chess.com eru líklega margir skákmenn og sumir þeirra kannast kannski við mig og finnst ég með óeðlilega fá ELÓ-stig. Þetta er semsagt skýringin. Ég þykist með öðrum orðum vera betri en þetta.

IMG 1635Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband