2601 - Vísindin og tæknin

Allt í einu eru menn farnir að rífast um bensínsölu. Ekki seinna vænna. Sú sala er nefnilega að verða úrelt. Það skyldi þó ekki vera að hægt sé að græða á slíkri sölu. Kannski fáum við alvöru samkeppni þar. Einhverjir hóta því að keyra frekar bensínlausir en skipta við Haga/Olís. Þetta er gamall brandari, sem einu sinni var heimfærður uppá Essó eða Skeljung meðan pólitíkin skipti meira máli en bensínverðið. Svo komu menn sér saman um að féfletta bara pöpulinn í staðinn.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins hugsa stundum. Ég er þó ekki þeirra á meðal. Þarna sneri ég á þá sem alltaf vilja snúa útúr öllu. Mér leiðist flokkapólitík. Liðaskiptingin á alþingi er stærsti gallinn á þeirri stofnun. Alþingismenn hafa samt áhrif. Baráttan um ræðustólinn er þó stundum svolítið hlægileg. Málþófið líka. Margt væri hægt að laga í starfsemi alþingis.

Vísindin og tæknin
hafa til þess fundið ráð
að taka upp ræður þingmanna
á fínan segulþráð.

Var einu sinni ort. Þetta minnir mig að hafi verið birt í Speglinum sáluga sem kallaður var samviska þjóðarinnar (með setu þó).

Enginn vafi er á því að sú tækni sem dembt hefur verið yfir íbúa hins vestræna heims hefur á margan hátt auðgað líf almennings og bætt lífskjör hans. Hinar suðrænu þjóðir hafa sumar farið á mis við þessa tækni að meira eða minna leyti. Hver og einn vill halda sínu. Þessvegna er það sem þjóðernishyggja hverskonar hefur víða grafið um sig. Á þann hátt má segja að tæknin hafi pólitísk áhrif.

Með tækninni hafa margar iðngreinar orðið óþarfar og dáið út. Ekki þarf að tíunda það hér. Eins hefur tæknin breytt mörgu. Drónarnir sem æða um loftin blá hafa gjörbreytt allri ljósmyndun og kvikmyndatækni og gert hana að almenningseign í ríkari mæli en áður hefur þekkst. Geimrusl hverskonar fer líka mjög vaxandi og sífellt verður ódýrara og ódýrara að setja allskonar tæki á braut um jörðu. Einhvertíma kann það að torvelda geimferðir.

Ef maður fylgist svolítið með fjölmiðlum og fésbókarskrifum fer ekki hjá því að manni detti í hug að bakteríuhræðsla og flóttamannagæði séu að eyðileggja líf sumra. Hvað bakteríuhræðsluna snertir er greinilegt að flestallir verða að treysta á ansi marga í því efni ef komast á með öllu hjá bakteríum og vírusum. Flóttamannagæðin geta líka gengið útí öfgar þó sjálfselskan og græðgin séu að sjálfsögðu ekkert betri.

Klukkan var að verða hálfátta þegar ég kom mér af stað í morgungönguna. Það var að sjálfsögðu fremur seint og ekki bætti úr skák að hér á Akranesi var þá bæði rok og rigning. Veðrið er eitthvað skárra núna en vorið lætur samt bíða svolítið eftir sér þó ég sé búinn að láta setja sumardekkin undir bílinn.

IMG 1680Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband