2599 - Fyrsti fésbókar forseti Bandaríkjanna

Skil ekki almennilega hvaða læti eru í fólki útaf Tromparanum. Það er fátt óvenjulegt við hann. Bandaríkjamenn eru bara svolítið skrýtnir. A.m.k. miðað við okkur „venjulegu“ Evrópubúana. En erum við annars nokkuð venjulegri en aðrir? Ekki held ég það. Þegar sami forsetinn hefur setið í 8 ár í Bandarríkjunum er það bara til siðs að hinn flokkurinn taki við. Auðvitað er Donald Trump ekkert venjulegur, en það óvenjulega við hann finnst mér aðallega hafa verið „anti-establishment“ áherslur hans sem fjölmiðlar létu hann komast upp með og höfðu gaman af. Með því afneitaði hann hefðbundnum Repúblikana-gildum og fékk talsvert fylgi. Lygin og ómerkilegheitin eru svo bara það sem tíðkast í stjórnmálum.

Einhver bankinn auglýsti (talsvert stórt – minnir mig) um daginn: „Ekki gefast upp. Það er hægt.“ Auðvitað er hægt að gefast upp. Flestir hafa að ég held gefist upp á bönkunum. Annars virðist það orðin lenska í auglýsingum hér á landi að það eigi að vera hægt (jafnvel auðvelt) að snúa útúr þeim. Einni vandaðri (og eflaust dýrri) auglýsingu úr sjónvarpi man ég samt eftir að hafi einfaldlega verið kippt í burtu í snarhasti vegna meinlegrar málvillu. Þar var talað og skrifað um „að hnykla augabrýrnar“, sem ljóslega er tóm vitleysa. „Hnykla augabrýnnar“ heitir það. Munur er á augabrú og augabrýn. Það fyrrnefnda er bókstaflega ekki til. Augabrún er svo allt annað orð.

Til stóð að allstórt smástirni mundi jafnvel hitta Jörðina. Ekki varð úr því en litlu munaði víst. 500 ár eða svo skilst mér að séu þangað til það kemur næst. Annars er það sem gerist eða gerist ekki í himingeimnum stórum merkilegra en það sem við mannaumingjarir fáumst við. Reynum samt eftir megni að telja okkur trú um annað. Jafnvel að daglegar fréttaútsendingar séu það. Og hugsanlega fésbókin.

Auglýsingar á bloggi. Veitingastaðir, tískuverslanir og þeir sem almennt stunda fjárplógsstarfsemi gera mikið af því er mér sagt að kaupa bloggara, allskyns miðla og aðra gúrúa til fylgilags við sig. Enginn hefur þó boðið mér svomikið sem eyrisvirði, enda er ég sennilega bæði of gamall og lítið vinsæll til slíks. Annars er það nokkuð einkennilegt hve mörgum er ósýnt um að gera ráð fyrir að allskyns jákvæð umfjöllun á netinu sé einfaldlega dulbúnar auglýsingar.  

Ekki er ég hissa á því að Eiríkur Jónsson sé vinsæll bloggari. Bæði er hann með fréttanef, ágætis kjaftasöguheimild og þar að auki með góð sambönd. Myndirnar sem hann birtir eru oft prýðilegar. Ættfræðin hjá honum er líka oftast í lagi. Ekkert hef ég þó séð hann skrifa um Vísindagönguna á Grænlandi eða hin sí-ó-vinsælu hótelherðatré. Hef ekki heyrt fyrr að nauðsynlegt sé að hafa þau svona til þess að þeim sé ekki stolið. Einhvern tíma var stundað að safna merktum hótelhandklæðum. Ekki er ég samt að hugsa um að fara að stela hótelherðatrjám.

IMG 1707Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband