2584 - Guðni forseti

Einu sinni þurfti ég að keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur í náttmyrkri og rigningu. Mætti á leiðinni miklum fjölda flutningabíla og verð að segja að annarri eins lífsreynslu hef ég aldrei lent í. Þó átti svo að heita að vegurinn alla leiðina væri með bundnu slitlagi. En að sumarlagi í þurru veðri og með hæfilegum stoppum er þetta ekki mikið mál. Eða var ekki. Kannski er umferðin orðin svo gríðarmikil núna að þetta sé ekkert gaman lengur.

Mér sýnist að Trump bandaríkjaforseti ætli að dansa á þeirri línu að andstæðingum hans sýnist jafnan jaðra við að hægt sé að ákæra hann. (e-impeach). Annars er ég um það bil að fá leið á Trump. Hann er á flestan hátt svo fjarlægur okkur í hugsun sem mest getur verið. Finnst að ríkisstjórninni hérlendis (Bjarna-bófunum) væri nær að taka skandinavísku ríkin sér til fyrirmyndar en Bandaríkin. Norræna velferðin er mun skárri en sú bandaríska.

Mér finnst Guðni forseti þurfi svolítið að vara sig á að gera ekki embættið of pólitískt. Auðvitað var það bara brandari, frekar ómerkilegur þó, að hann vildi láta banna að hafa ananas ofan á pizzum. Hinsvegar er það varla brandari hjá honum að vilja að Íslendingar almennt eða a.m.k. ríkisstjórnin og jafnvel alþingi eigi að biðja Geir Haarde afsökunar á að hann skuli hafa verið dreginn fyrir landsdóm og dæmdur. Auðvitað var það spurning hvort rétt hafi verið að dæma hann einan sekan en ekki aðra þá sem draga átti fyrir landsdóm. Einnig voru þau ákvæði sem hann var dæmdur eftir hugsanlega úrelt orðin og vafasamt að dæma hann eftir þeim. Nei, mér finnst að Guðni eigi að láta það ógert að skipa sér í pólitíska sveit. Ananasbann hans var kannski brandari en ekki gátu allir útlendingar vitað það.

Held að sá landsdómur sem nú er talað um sé allt annars eðlis en sá sem Geir var dæmdur eftir. Líklega þarf þó að kalla hann eitthvað annað eða fella ákvæðin um hann niður. Minnir að þau séu í stjórnarskránni og þá er talsvert verk að koma þeim í burtu.

Ekki er ég þeirrar skoðunar að ekki megi hrófla við samningi milli ríkisins og kirkjunnar. Held að hann fjalli um það að ríkið skuli áfram greiða prestum laun og fá í staðinn kirkjujarðir þær sem kirkjan telur sig hafa fengið til eignar við siðaskiptin. Þær voru margar fengnar með misjöfnum hætti. Held að Sr. Sigurður Árni Þórðarson hafi nýlega verið að skrifa um það mál og notað tækifærið til að hnýta í Pírata eins og mörgum finnst sjálfsagt. Ég hef kosið Píratana í tveimur undanfarandi kosningum og hef talsverðan skilning á afstöðu þeirra til ýmissa mála. Hnútukast Sigurðar hefur þar engin áhrif. Enginn vafi er á því í mínum huga að lög landsins geta í vissum tilvikum verið samningum æðri. Í samningum við kirkjuna verður auðvitað að gæta þess að taka ekki með annarri hendinni það sem afhent hefur verið með hinni. Þó er það svo að samninga má oft endurskoða í ljósi breyttra aðstæðna.

Allir eru dálítið eigingjarnir inn við beinið. Fara samt mismunandi vel með það. Enginn er með öllu laus við eigingirnina, en varast ber að láta hana stjórna lífi sínu of mikið. Gagnrýni fólks byggist oft, að hluta til a.m.k., á eigingirni. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við hana. Oft kemur hún manni til bjargar og á dauðastundinni er maðurinn alltaf einn.

IMG 1878Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar danski kóngurinn sölsaði undir sig eignir kirkjunnar eins og aðrir norður-evrópskir kollegar hans á sextándu öld, leiddi það af sér mikla þjóðfélagsbyltingu, sem lagðist á eitt með veðurfari og eldgosum að gera þessari vesölu þjóð, ef þjóð skyldi kalla, lífið eins leitt og sagan kennir okkur. Kaþólska kirkjan hafði auðvitað verið sannur harðstjóri, heimt af fólki tíund tekna þeirra og beitti kúgunum til að ná undir sig eignum þess við ævilok. En samt sem áður var eitt og annað sem kirkjan gerði í samfélagsmálum, sem ekki má vanmeta. Til dæmis var að sjá þeim farborða sem enga möguleika höfðu til þess að öðrum kosti, svo sem fötluðum og öldruðum. Þegar kirkjan hafði verið svipt tekjum sínum og eignum, gat hún auðvitað ekki lengur haldið uppi þessari þjónustu. Kóngurinn hafði reyndar endurskilgreint hlutverk hreppanna þannig að þeir fengu heimild til að innheimta skatt af íbúunum og áttu í staðinn meðal annars að sinna framfærslu þeirra sem þess þurftu. Hrepparnir reyndu að sjálfsögðu að komast jafn ódýrt frá því og mögulegt var til að halda skattheimtu í skefjum, annað hefði verið illa liðið af bændum. Nóg þótti þeim samt um skattinn sem greiða þurfti kónginum í Kaupmannahöfn. Sagnfræðingar telja einsýnt að af þessu hafi leitt aukið harðræði og vesöld þeirra, sem vanbúnir voru til þátttöku í þrældómssamfélagi þess tíma.
Mér sýnist á öllu að núverandi ríkisstjórn horfi á þessa tíma sem fyrirmynd og vilji skipa samfélaginu á þann veg að framfærsluskylda hins opinbera verði skert verulega og líklega helst af öllu afnumin.

Ellismellur 13.3.2017 kl. 10:41

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það verður að DRAGA VERULEGA úr umferð vöruflutningabifreiða um vegi landsins.  Besta leiðin til þess er að taka upp strandsiglingar aftur.  Til að byrja með væri hægt að vera með áætlunarsiglingar á Ísafjörð, Akureyri, Neskaupsstað og Höfn í Hornafirði.  Frá þessum stöðum mætti svo skipuleggja vöruflutninga á landi til nágrannabyggðanna.  Auðvitað er ekki hægt að útrýma alveg vöruflutningunum á þjóðvegunum en það má minnka þá mikið og ef rétt er að einn vöruflutningabíll slíti vegunum á við 10.000 fólksbíla, þá er til nokkurs að vinna..

Jóhann Elíasson, 13.3.2017 kl. 14:47

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef kaþólska kirkjan var harðstjóri fyrir að taka 10% af tekjum fólks, hvað eru þá veraldleg stjórnvöld 21. aldar, sem hirða 30-40%, auk neysluskatta og allskyns gjalda, oft í formi dulinnar skattheimtu, eflaust 55-65%, ef allt er tekið til?

Theódór Norðkvist, 13.3.2017 kl. 21:43

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Að mestu leyti er ég sammála þér Ellismellur. Þó held ég að í hugum fólks sé Dönum kennt um of mikið. Náttúran var hörð hér og erfitt að lifa. Ekki er hægt að svipta kirkjuna öllum rétti umsvifalaust. Annars er okkur Íslendingum of tamt að líta til sögunnar í stað þess að hugsa aðallega um nútíðina og framtíðina.

Sæmundur Bjarnason, 13.3.2017 kl. 22:38

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þegar ákveðið var að leggja Skipaútgerð ríkisins niður held ég að ekki hafi verið hugað nægilega að því hvað það þýddi fyrir vegakerfið. Einkaaðilar vilja ekki og geta ekki stundað skipaúgerð hér. Það hefur verið reynt. Auðvitað ættu þungaflutningar að mestu að fara fram með skipum.

Sæmundur Bjarnason, 13.3.2017 kl. 22:43

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Tíundin var eignaskattur en ekki tekjuskattur. Þar að auki er ekki hægt að bera þetta saman því lífskjörin eru allt önnur. Mér finnst núverandi stjórnvöld stefna of mikið á Bandaríkin þegar greinilega er miklu nær að stefna að Norræna módelinu.

Sæmundur Bjarnason, 13.3.2017 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband