2582 - Njósnir og þessháttar

Enginn vafi er á að njósnaþjónustur stórveldanna nýta sér í síauknum mæli tölvutækni ýmiss konar. Frægt varð á sínum tíma að Bandaríkjamenn hleruðu síma Angelu Merkel. Hún fór auðvitað í fýlu, en jafnaði sig fljótlega. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að þessum stofnunum hafi farið aftur síðan Snowden flýði undan þeim. Sagt er að þær geti farið létt með að breyta sjónvörpum í upptökutæki og afrita tölvur og diska í sjónhendingu einni saman. Sennilega er samt meirihluti þess sem safnað er með þessum hætti gagnslaus með öllu. Öflugar tölvur geta þó fundið það sem leitað er að.

Frægir popplistamenn á ferðalögum eiga það til að heimta furðulegustu hluti af skipuleggjendum. Einn heimtar t.d. alltaf sköllótta og tannlausa vændiskonu og setur tónleikahaldara með því í talsverðan vanda. Sumir halda því fram að þetta sé einhverskonar misheppnaður brandari hjá honum og kannski er svo. Annar heimtar að allir hurðarhúnar sem hann þarf að snerta séu sótthreinsaðir á tveggja tíma fresti. O.s.frv.

Sá texti sem við gamlingjarnir í dag ólumst upp við var að mestu leyti dauðhreinsaður. Texti dagblaðanna og bókanna var yfirfarinn og prófarkalesinn af kunnáttufólki sem útrýmdi miskunnarlaust hvers kyns hugsanlegum ambögum, réttritunarvillum og þessháttar í máli blaðamanna og rithöfunda. Eftir að sjónvarpið kom til sögunnar var allur texti þar meira og minna yfirlesinn og lagfærður ef þurfa þótti. Svona er þetta ekki í dag. Útbreiddir og vinsælir fjölmiðlar virðast ekki síður en aðrir hafa hætt öllum yfirlestri. Jafnvel blaðamennirnir sjálfir virðast ekki hafa tíma til að lesa yfir sinn eigin texta. Þar að auki geta allir nú á öld internetsins skrifað texta sem hugsanlega kemur fyrir augu alls heimsins. Sífelldar leiðréttingar og aðfinnslur eru samt afar leiðinlegar til lengdar og sennilega alls ekki lesnar af þeim sem mest þyrftu á þeim að halda. Áhyggjur fólks af framtíð íslenskunnar eru því öðruvísi en verið hefur. Samt kannski þýðingarlausar. Góður texti stendur alltaf fyrir sínu.  

Twitterinn hefur ekki áhrif á mig. Þar er bara hægt að skrifa örstuttar athugasemdir. Ég er svo gamaldags að mér finnst bloggið best. Fésbókin er of flókin fyrir mig. Mín hilla er bloggið. Best er samt líklega að blogga lítið og oft. Jafnvel væri hægt að nota fésbókina þannig. Kannski enda ég þar. Þó vil ég ekki láta ráðskast of mikið með mig. Sennilega eru Moggabloggsguðirnir hættir að nenna öllu eftirliti. Bráðum fer ég að hætta að nenna að setja myndir með þessu bloggi mínu. Það er of mikil fyrirhöfn. Áfram mun ég þó skrifa.

IMG 2003Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband