2569 - Menntamál o.fl.

Til stendur, að ég held, að stytta menntaskólana um eitt ár. Láta þessa menntun sem áður fyrr var talin til forréttinda nú í té á þremur árum í stað fjögurra. Ekki minnist ég þess að önnur rök hafi verið höfð fyrir þessari styttingu en fjárhagsleg. Auðvitað er sparnaður fólginn í því að kenna bara í þrjú ár í staðinn fyrir fjögur. Jú, eitthvað var minnst á að sumsstaðar í útlöndum væri menntaskólanám bara þrjú ár.

Fyrir utan að mjög vafasamt er að bera saman menntakerfi í ólíkum löndum er ég fjandi leiður á hinum sífellda söng um að við þurfum að samsama okkur sem mest löndunum í kringum okkur. Mér finnst nefnilega frábært að vera öðruvísi en aðrir. Sumir (kannski flestir) vilja þó umfram allt líkjast sem mest þeim sem hafa það ívið skárra en við sjálf.

Ekki ætla ég mér þá dul að segja sprenglærðum menntafrömuðum til syndanna að þessu leyti. Geri fastlega ráð fyrir að þeir hafi svör og gagnrök á reiðum höndum. Samt sem áður finnst mér íhaldsrökin meira sannfærandi að þessu sinni. Ávallt skal leitast við að halda í það gamla ef ekki er með sannfærandi rökum hægt að sýna frammá að hið nýja sé betra. Þar að auki veit ég ekki betur en hverjum sem er sé velkomið að láta skoðun sína í ljós.

Því minnist ég á þetta að mér finnst að menntamál hafi orðið útundan í hrunumræðunni á undanförnum árum. Börn eru mjög næm á líðan foreldra sinna og víst er að sum börn eiga um sárt að binda sakir hins svokallaða hruns.

Kommúnisminn í Sovétríkjunum stal u.þ.b. sjótíu árum af lífi flestra sovétborgara á síðustu öld. Þeir sem stóðu fyrir hruninu hér á Íslandi stálu u.þ.b. áratug af lífi flestra íslenskra barna. Vonandi eru þeir ekki stoltir af því.

Sé að þegar ég skrifa eitthvað á bloggið mitt þá koma alltaf einhverjir, oft margir, sama hvaða vitleysu ég læt frá mér fara. Ef ég aftur á móti skrifa ekki neitt þá koma sárafáir. Þetta sýnir mér tvennt. Annarsvegar að einhverjir hafa það fyrir reglu að gá hvort ég hafi bloggað eða ekki. Hinsvegar sýnir það mér einnig að þónokkrir séu búnir að stilla tölvuna sína á það að láta sig vita ef ég læt eitthvað frá mér fara. Þannig er þetta bara og ég hef ekki í hyggju að reyna að breyta því. Heldur ekki hef ég í hyggju að komast að því hverjir það eru sem láta svo lítið að lesa bloggið mitt eða hvaðan þeir koma.

Einhvern vegin er það þannig að þessa dagana hugsa ég mest um Trump bandaríkjaforseta og gang himintungla. Birtutíminn hér á norðurslóðum er mér einstaklega hugleikinn. Nú þykist ég t.d. vera búinn að reikna það út að einmitt núna fyrstu dagana í febrúar séum við nokkurn vegin hálfnuð á vegferð okkar frá vetrarsólstöðum til jafndægra á vori. Látum páskana liggja á milli hluta. Held að tímasetning þeirra sé reiknuð útfrá áætluðum tunglkviknunum o.s.frv. 

IMG 2246Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband