2558 - When hell freezes over

Þessi sífelldi gamalmennasöngur í mér hljómar eflaust hálfleiðinlega í eyrum þeirra sem ekki eru gamalmenni sjálfir. Áhrif hefur þetta eflaust ekki nein. Samt á ég í erfiðleikum með að koma mér uppúr þessum gír. Þegar drullan er svona mikil er heldur ekki víst að skiftingin komi að gagni og auki hraðann. Honum reyni ég að halda upp með því að vaða úr einu í annað.

„When hell freezes over“ er vinsælt að segja á ensku og vel mætti snúa því á íslensku þannig: Þegar allt frýs í helvíti. Gallinn er bara sá að það er víst bær í Noregi sem heitir Hell og líklega er stundum frost þar. Sá staður sem við Íslendingar kennum öðrum fremur við hita hér á jörðinni er Sahara eyðimörkin. Auðvitað er Sahara fyrst og fremst eyðimörk vegna úrkomuleysis. Þó snjóaði þar víst um daginn og elstu menn muna varla eftir öðru eins. Samt er sagt að snjóað hafi þar um slóðir árið 1979 og hver veit nema elstu menn hafi þá verið fæddir. Þar að auki er aldrei hægt að segja að veðurfar sé venjulegt og ekki er þetta til marks um að heimshlýnun af mannavöldum sé tóm ímyndun. Kannski gengur hún ekki alveg eins hratt fyrir sig og æstustu fylgismenn þeirrar kenningar halda fram, en að afneita henni með öllu er hrein fáviska. Einnig er eflaust stundum gert of mikið úr afleiðingum heimshlýnunar og mengunar. En ræðum ekki meira um þetta. Það er of neikvætt. Við eigum einmitt að vera dálítið jákvæð og nú eru það Jólin sem eiga að gera okkur sem jákvæðust.

Sennilega koma þau hvort sem okkur líkar betur eða verr. Já, ég á við Jólin. Sjálfsagt er að gera sér glaðan dag um þetta leyti, en fyrir marga er þessi tími beinlínis varhugaverður. Víst er að sumir ganga alltof langt í eyðslu um þetta leyti, en við því er ekkert að gera, eða a.m.k. lítið. Að sumu leyti hafa Jólin ekkert með trúarbrögð að gera. Skynsamlegt er fyrir okkur sem norðrið byggjum að hafa þau um þetta leyti, en fyrir aðra er það varla gáfulegt. Tímatal okkar byggist að flestu leyti á skynsemi og þó sumar trúarlegar hátíðir flakki svolítið um á það ekki við um jólin. Það flakk er eingöngu trúarbragðanna vegna, en ekki vegna skynsemisskorts.

Einu sinni rugluðust norðanmenn í ríminu og vissu ekki hvenær páskar voru eða áttu að vera. Að endingu varð það úr að sent var þvert yfir landið að Skálholti til þess að fá að vita þetta. Þaðan er orðtakið að ruglast í ríminu komið, en rím getur eins og kunnugt er einnig þýtt tímatal.

Bandaríki Norður Ameríku eru augljóslega forysturíki hins vestræna skipulags. Hið vestræna skipulag hefur sýnt sig að vera efnahagslega vel heppnað. En er víst að það taki öðrum fram á öllum sviðum? Auðvitað er efnahagsleg afkoma grundvöllur margs annars, en tæpast alls. Er ekki hugsanlegt að annað skipulag henti sumum betur. Auðlegð Vesturlanda og arðræning annarra skipulagsheilda er það sem er að fara með heiminn til fjandans. Ekki síður en hnatthlýnunin og mengunin. Lífið er aðallega samsett úr gráum tónum. Ósköp væri allt miklu auðveldara er allt væri svart eða hvítt og allir menn annaðhvort góðir eða illir.

IMG 2468Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband