2552 - Bergur Ebbi

Eiginlega er varla hægt að komast hjá því að minnast á afrek Ólafíu Þórunnar. Golfari er ég samt enginn. Kom á óvart að hún þurfti að borga milli 6 og 700 þúsund dollara í þátttökugjöld til að komast þetta langt. Eiginlega veitti henni alls ekki af því að fá hálfa milljón í verðlaun.

Ríkisstjórnarlaus verðum við sennilega um þessi jól og það ætti að vera í lagi. Betra er samt að þingmenn geti komið sér saman um eitthvað. Vissulega eru Framsóknarmenn í tapstöðu en samt kann að vera svo að ekki verði mynduð stjórn án þeirra afskipta. Auðvelt ætti að vera að draga Sigmund Davíð frá þingstyrk þeirra, en kannski eru menn hræddir við að áhrif hans virki á fleiri en Gunnar Braga.

Langbesti penninn í Fréttablaðinu er Bergur Ebbi. Ég les hann alltaf (held ég) og hann bregst aldrei. Heimspeki hans er heimspeki mín. Hann hittir bókstaflega alltaf naglann á höfuðið. Prófið bara að lesa hann. Þið verðið sko ekki svikin. Að sumu leyti er þetta auðvelt. Vera bara á móti viðteknum skoðunum og rökstyðja það vel. Annars skiptir rökstuðingurinn öllu máli. Án hans væri þetta einskisvert. Og svo er að finna það sem ekki er of erfitt að rökstyðja. Þar að auki skrifar hann ekki daglega í Fréttablaðið. Eða það held ég ekki. Nægilega oft samt fyrir mig.

Flýði núna áðan frá sjónvarpinu því þar var einhver lesbískur erótískur mandarínuþáttur (mér er alvara - þetta var kynnt svona.) Ég er nefnilega ekki í stuði fyrir svoleiðis þætti. Samt þykir mér mandarínur nokkuð góðar eða voru það annars klementínur. Heyrði í sjónvarpinu áðan að Birgitta telur svona 90 % líkur á að sér takist að mynda ríkisstjórn. Efast um að allir séu svona bjartsýnir.

Auðvitað vill Jón Steinar að Markús hæstaréttarforseti segi af sér. Upplýsingarnar gætu sem best verið frá honum ættaðar. Annars er ég eiginlega alveg sammála Jóni Steinari þarna. Það er alls ekki nóg að framámenn í þjóðfélaginu grípi jafnan í það hálmstrá að það sem þeir hafi gert sé ekki brot á lögum. Jafnvel heimskustu undirmálsmenn vita að lög eru ófullkomin. Þó dómarar og pólitíkusar sveigi sínar aðgerðir með hundakúnstum undir lagabálka sem þeir hafa sjálfir samið eða starfsmenn þeirra fundið eftir langa leit verða þjófnaðir þeirra og svik ekkert afsakanlegri við það. Við vitum mætavel um afbrot þeirra og sérgæsku samt sem áður.

Reyndar skammast maður sín oft fyrir að vera karlmaður. Kvikmyndin „Síðast tangó í París“ er ekkert lélegri en margar aðrar sem fá lofið aðeins vegna fyrri frægðar leikstjóra og aðalleikara. Mér finnst ekki skipta öllu máli hvort um raunverulega nauðgun hafi þarna verið að ræða eða ekki. Þó hallast ég að því að þetta hafi verið samantekin ráð saurlífisseggjanna sem öllu réðu. Kannski er þetta fyrsta eða síðasta raunverulega nauðgunin á hvíta tjaldinu. Samt sem áður þykir mér matur bestur sé hann steiktur upp úr smjöri.

IMG 2600Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband