6.12.2016 | 10:52
2550 - Stjórnarmyndun II og III
Af hverju er fjallað meira um það í fjölmiðlum ef Trump bjargar eitt þúsund störfum en ef Obama útvegar 16 milljónum ný störf. Að þessu spyrja stuðningsmenn Obama og skilja þetta ekki. Sannleikurinn er einfaldlega sá að Trump kann bara á fjölmiðla en Obama ekki. Þó hann sé á margan hátt frábær ræðumaður. Fjölmiðlar geta haft eins marga Jakobi Bjarnar Grétarssyni í sinni þjónustu og þá lystir til að neita því að þeir hafi nokkur áhrif, en það breytir engu og er bara ekki svo. Mér finnst eðlilegt að kenna fjölmiðlum um allt sem miður fer. Hvort sem það er hérna á Íslandi eða einhversstaðar annars staðar í heiminum. Auðvitað væru áhrif þeirra ekki svona augljós ef þeir skrifuð eingöngu fyrir sér gáfaðra fólk. Það gæti þá myndað sér skoðun án þeirra hjálpar. Svo er samt alls ekki. Mér finnst áhrif þeirra vera svo augljós. T.d. má benda á brúneggin sem hæst ber um þessar mundir. Meðan þónokkuð margir vissu af þessu m.a. vegna vinnu sinnar gerðist ekki neitt. En um leið og þetta komst í hámæli hjá fjömiðlinum Kastljósi var fjandinn laus og ég er viss um að þetta fyrirtæki á sér ekki viðreisnar von. Og hænurnar ekki heldur.
Annars nenni ég ekki að fjölyrða um þetta brúneggjamál, mér finnst það of ómerkilegt til þess. Frekar vil ég tala um veðurfarið sem er alveg einstakt. Eða jafnvel stjórnarmyndunina sem fáir þreytast á að fjölyrða um. Kannski Birgittu takist það sem engum hefur tekist hingað til. En það er að fá Benedikt og Ótarr til að dansa á sitt hvorri línunni. Útkoman úr þessu ástarsambandi þeirra er óþrjótandi neikvæðni. Þeir eru bara á móti öllu. Ef annar hvor þeirra er á móti einhverju þá finnst hinum að hann verði að vera það líka. Þannig skapast neikvæðnin hjá þeim og þegar hún bætist við neikvæðni þriggja annarra flokka er ekki von á góðu. Annars ætla ég ekki að fjölyrða mikið um stjórnarmyndun. Hún virðist ekki vera á döfinni. Gott ef þetta endar ekki með ósköpum. Ég meina það. Ætla þessir blessuðu þingmenn ekki að halda uppá jólin, eða hvað.
Er ég introvert? Kannski. Eiginlega ættu introvertar að vera ennþá betri skrifarar en extrovertar. Þeir þykjast a.m.k. geta gert allt sjálfir. En er að marka það? Eru þeir ekki bara að kalla á hjálp? Mér finnst að allir ættu að vera annaðhvort introvertar eða extrovertar. Bara mismunandi mikið sem þeir sækja í aðra hvora áttina. Allir sem ekki er introvertar ættu samkvæmt því að vera extrovertar. Kannski er þetta tóm vitleysa hjá mér.
Nú eru allir uppfullir af hlutabréfunum Magnúsar. Eiginlega er það afar illa gert að eyðileggja traust manns á hæstarétti. Það hefur hingað til verið síðasta haldreipið, hvað sem Jón Steinar hefur sagt. Ef allt er rétt sem áðan var sagt í Kastljósi er svo sannarlega kominn tími til að hugsa sinn gang.
Get ekki að því gert að mér þykir of langt gengið þegar fólk er að séra minningar sem fésbókarfávitinn heldur að fólki. Sjálfur reyni ég að forðast slíkt.
Sá á gönguferðinni áðan eina 4 vita. Bæði var nefnilega léttskýjað og ég á ferðinni einmitt í dögun. Fjallasýn í austri var ágæt. Fer bæði hægar yfir og styttri vegalengd en í fyrra en samt munar alveg um þetta og ég held svolítið í þetta með klukkutímann.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.