2548 - Stjórnarmyndun

 2548 – Stjórnarmyndun

Svo virðist vera að hænsnagreinin mín setji næstum því met. Síðast þegar ég vissi voru 509 búnir að fara inná síðuna, sem er mjög gott miðað við það sem ég er vanur. Um daginn bilaði kerfið hjá Moggablogginu og ég var einn daginn með næstum 9 þúsund heimsóknir á einum og sama deginum. Ég vissi svosem að þetta var einhver villa og hún var líka fljótlega leiðrétt.

Svona er þetta bara. Sumir verða vinsælir bloggarar undireins. Sumir ströggla árum saman, eins og ég. Annars finnst mér alveg ástæðulaust að kvarta. Það er mesta furða hvernig mér gengur að finna efni til að skrifa um. Og eflaust eru það ekki allir sem geta gengið að því sem vísu að einhverjir lesi það sem þeir láta frá sér fara. Þar að auki er ég svo einrænn að eðlisfari að mér líkar alls ekki kjaftæðið á fésbókinni. Mér finnst alltaf eins og þar sé ætlast til þess að ég geri hitt og þetta. En það er alveg þveröfugt við það sem helst vil. Geri yfirleitt bara það sem mér dettur í hug og annað ekki og helst ekki neitt. Stundum hefur það komið sér ákaflega illa fyrir mig að vera ekki betur að mér en raun ber vitni í mannlegum samskiptum, en það verður bara að hafa það.

Metnaður minn í blogginu snýst einkum að því að vera ekki eingöngu með hálf- eða almisheppnaðar athugasemdir um fréttir dagsins. Það virðist samt vera ágæt leið til vinsælda. Víst hef ég áhuga á fréttum en geri samt ekki ráð fyrir að ég hafi neinu við þær að bæta. Blaðamenn vita sínu viti. A.m.k. sumir þeirra. Eiginlega er ég ekki sérfræðingur í neinu. Og samt sérfræðingur í öllu.

Merkilegt hvað það eru fáir sem eru það sem kalla mætti „household names“ hér á Íslandi. Þá á ég við þá sem fjölmiðlamönnum finnst eðlilegast að snúa sér til ef þeir vita ekki betur en sagt er í einhverri upploginni fréttatilkynningu. Einu sinni man ég eftir að leitað hafi verið til mín eftir umsögn um frumvarp eða eitthvað þessháttar. Það var þegar videoæðið stóð sem hæst og ég sá um videokerfið í Borgarnesi sem þá var eitt það frægasta á landinu.

Stjórnarmyndunin er við það að komast í hnút. Mestur áhuginn hjá fjölmiðlum virðist vera hvort hér sé stjórnarkreppa eða ekki. Mér finnst það bara ekki skipta nokkru máli. Annars á ég von á því að forsetinn setji formönnum flokkanna ákveðin tímamörk (á morgun föstudag eða í síðasta lagi á mánudaginn kemur) um það að ef ekki verði aukin alvara í þessu hjá þeim fyrir þann tíma þá skipi hann utanþingsstjórn og hennar hlutverk verði aðallega að efna til nýrra kosninga.

Er ég það sem ég hugsa? Þetta er dálítið sérkennilega spurning, en kannski ekki svo vitlaus. Einhverntíma var sagt að menn væru það sem þeir borða. Kannski er það bara vitleysa. Hugsanlega eru menn það sem þeir gera. Gera, hugsa eða éta. Mér finnst við þurfa á öllu þessu að halda. Án þess að éta verða hin markmiðin marklaus. Er þá ekki nauðsylegast að éta. Kannski drepast þeir fljótt sem aldrei hugsa neitt eða gera. En er það að éta eða réttara sagt að borða ekki að gera eitthvað? Svona væri hægt að halda næstum endalaust áfram eins og maðurinn sem át endalaust franskbrauð. Hann byrjaði nefnilega á því að fjarlægja endana.

IMG 2704Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband