2544 - Bloggskrif o.þ.h.

Er bloggið þerapía? Já, a.m.k. fyrir mig. Kannski er mitt blogg líka þerapía fyrir einhverja aðra. Manni hættir svolítið til að álíta sjálfan sig einstakan. Það getur vel verið að einhverjir hugsi svipað og ég. Fyrir þá gæti mitt blogg verið eins og einhvers konar þerapía. Að minnsta kosti lesa það ótrúlega margir eftir því sem tölvan segir mér. Hún getur að vísu allsekki sagt mér hverjir lesa bloggið mitt. (Kannski gæti ég samt fengið IP-tölurnar einhvers staðar og sömuleiðis tímann og dregið mínar ályktanir af því.) En ég fæ alltaf upplýsingar þegar ég vil um hve margir hafi heimsótt mitt blogg.

Kannski verður þetta blogg mitt meira um blogg en flest önnur. Ath. Þetta er viðvörun. Alls ekki er rétt að skrifa um hvað sem er á netið eða bloggið. T.d. finnst mér að margir skrifi sögur af krökkunum sínum án þess að velta fyrir sér hvernig þeim líkar við þær frásagnir að svo og svo mörgum árum liðnum. Það sem manni finnst sjálfum vera krúttlegt og skemmtilegt kann þeim að finnast að fáum árum liðnum vera leiðinlegt og mannskemmandi. Netið gleymir nefnilega engu. Kannski er fésbókin svona líka. Um þessar mundir er hún í því að reka framan í mann eitthvað sem maður hefur skrifað fyrir mörgum árum síðan. Sumt af því getur manni alveg fundist fyndið, en ekki er víst að öðrum finnist það.

Mörgun finnst að það sem þeir skrifa á tölvuna sé bara fyrir einhverja útvalda. Svo er þó ekki. Alltaf verður að gera ráð fyrir að þeir sem síst skyldi rekist á þetta einhverntíma í framtíðinni. Þessvegna er best að venja sig á að skrifa ekki annað á bloggið eða í fésbókina en það sem allir mega vita. Já, já ég veit að þetta getur verið erfitt og þessvegna er best að reyna að venja sig á það sem fyrst. Sumir skrifa aldrei neitt og það er kannski varlegast og vænlegast. En svo eru aðrir líkir mér sem eru sískrifandi og stundum eru þeir kannski skammaðir af sínum nánustu fyrir að segja of margt. Þarna er vandratað meðalhófið og kannski er bara best að skrifa sem minnst.

Bloggið er betra en fésbókin. Þetta hef ég margsagt. En af hverju ætli það sé. Kannski týnist með tímanum allt sem maður skrifar á fésbókina, en þó er það ekki víst. Kannski skrifar maður líka fyrir einhverja tilviljun eitthvað meiriháttar merkilegt án þess að vita af því fyrr en löngu seinna. Ef þá nokkurntíma. Hugsanlega er þessvegna betra að blogga en láta allt flakka á blessaðri bókinni.

Assskoti er tafsamt að fletta í gegnum öll þessi fjárans blöð sem maður þarf endilega að gera. Laugardagsfréttablaðið en t.d. hnausþykkt og eftir því þungt. Ég er ekki einu sinni hálfnaður með að fletta í gegnum það. Sem betur fer er það mestmegnis auglýsingar sem maður getur verið fljótur með. Svo þegar það er búið þá á ég eftir að fletta í gegnum Jólablað Skessuhorns. Þar er hugsanlegt að eitthvað tefji mann. Ég á við að þar gæti verið eitthvað sem maður þarf endilega að lesa. Sem betur fer fækkar ört þeim greinum sem ég þarf endilega að lesa. Eða er ég bara farinn að að eldast svona mikið? Hef bara áhuga á færri greinum semsagt.

IMG 2822Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband