2536 - Íslandi allt

Ísland er gott land og gjöfult. Ég er sannfærður um að mjög óvíða eru lífskjör öll jafngóð og hér. Túristastraumurinn mun jafna sig þegar frá líður og á flestan hátt eru þau kynni sem útlendingar hafa af landinu til góðs. Sú sífellda neikvæði sem allsstaðar blasir við, einkum þó á fésbókinni og öðrum félagslegum miðlum, lætur mörgum líða illa. Flestir virðast halda að allir aðrir hafi það miklu betra en þeir sjálfir. Ótrúlegt er að svo sé. Auðvitað líður sumum illa, sumum hálfilla og sumum vel. Svoleiðis er það bara og heldur áfram að vera, nema upp sé tekinn hreinn kommúnismi þar sem enginn á neitt og allir fá það sem þeir þurfa. Þá verða vonandi allir jafnfátækir eða jafnríkir. Allt eftir því hvernig á málin er litið.

Öll þessi gæði eru þó hugsanlega dálítið hverful. Ýmsar þær hættur sem steðja að heiminum gætu svosem hvenær sem er heimsótt okkur. Við erum samt ekki svartsýn þjóð nema þá helst í pólitískri orðræðu. Við undirbúum okkur ekki undir það að allt fari til fjandans. Erum illa undir það búin að hverskyns óáran hitti okkur fyrir.

Sú óáran kæmi líka áreiðanlega að utan. Hingað til hefur sú hugmyndafræði að við ættum að búa sem mest að okkar eigin og einangra okkur sem mest frá umheiminum ekki átt upp á pallborðið hér á Íslandi. Samskipti okkar við umheiminn hafa að mestu falist í meðfæddu flökkueðli okkar. Nú er það samt svo að mesta kynningin sem Ísland fær stafar áreiðanlega af ferðalöngum sem hingað koma.

Veggurinn milli Mexíkó og Bandaríkjanna er alltaf að minnka hjá Trump. Áreiðanlega ákærir hann heldur ekki Hillary Clinton um neitt þó hann hafi haft hátt um það í kosningabaráttunni. Sú barátta snerist, fyrir utan beinu lygarnar, meira um persónulega hluti en áður. Hillary Clinton féll í þá gryfju einnig með því t.d. að halda því fram að Trump væri óhæfur til að gegna embætti Bandaríkjaforseta. Sama gerði Obama forseti og margir fleiri af stuðningsmönnum Hillary. Stefnumálin skiptu sáralitlu máli.

Þó öll umræða sé yfirleitt til góðs má satt oft kyrrt liggja. Ömurlegum fréttum sem eru endalausar mætti beina annað en að sem allra flestum. Jákvæðar fréttir eru samt oftast hundleiðinlegar og ekkert við því að gera. Fjölmiðlum er vorkunn. Lesendur vilja helst neikvæðar fréttir og sem ýtarlegastar fréttir af hörmungum hverskonar. Einhversstaðar sá ég því haldið fram að sá maður sem gæti stundað iðjuleysi án þess að valda sjálfum sér skaða væri sannarlega öfundsverður því sá hæfileiki væri til marks um sanna menningu.

Nú er semsagt verið að reyna að sjóða saman nýja ríkisstjórn. Mér finnst óþarfi að saka menn um óheilindi þó forgangsröðunin sé önnur en hjá manni sjálfum. Líka finnst mér óþarfi að ganga útfrá því að Viðreisn sé verulega frábrugðin Sjálfstæðisflokknum. Þangað langar þá flesta aftur sem hana styðja þó þeir séu óánægðir með sumt í stefnu flokksins. Það er alveg sama hvað sagt er. Verkin sýna merkin. Skil ekkert í Bjarti framtíð að sjá þetta ekki. Evrópa er skárri en Ameríka.

Fíflagangur á flugvöllum. Ein ástæða þess að ég vil helst ekki í flugvélar fara er sú að ég stressast allur upp á flugvöllum. Ýmist þarf maður að vera heillengi í óralöngum biðröðum, heimtað er að maður fari úr skónum og jafnvel ýmsu öðru eða maður verður að fara í gegnum einhver sípípandi öryggishlið o.s.frv. Þar að auki eru sætin í flugvélum oftast svo þétt að þar er engin leið að sitja lengi án þess að fá verki í fæturna og eflaust mætti tína fleira til. Væri hægt að fara bílandi eða siglandi frá landinu og til, án þess að eyða í það vikum, mundi ég þúsund sinnum heldur vilja það.

IMG 2936Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband