2532 - Fésbókarminningar, data mining o.fl.

Eftirfarandi klausu eða klásúlu hef ég víst sett á fésbókina fyrir tveimur árum. Altsvo í nóvemberbyrjun árið 2014. Eiginlega hef ég átt það til að vera talsvert fyndinn þá. Ég fór a.m.k. að hlægja þegar ég sá þetta:

Einkenni Íslenskra efnahagsmála er einstakur stöðugleiki, segir Bjarni Benediktsson. Og hann ætti nú að vita það. Sjálfur fjáransráðherrann. Já, ég hef orðið var við þetta. Hér dettur ekki nokkur maður. Það er sama hve hvasst er, enginn dettur. Menn halla sér kannski svolítið upp í veðrið, en það dettur enginn. Nú... Ha... Hvað segirðu? Átti hann ekki við svoleiðis stöðugleika? Nú, er það þannig? Já, ég hef líka orðið var við það. Einkum ef tímabilin eru stutt. Það varð til dæmis engin kollsteypa í fjármálum í gær svo ég muni eftir. Það er jafnvel hugsanlegt að það verði engin á morgun heldur.

Kannski er mér að fara aftur með svonalagað. Samt held ég áfram að skrifa eins og vitlaus maður. Jafnvel þó ég sé fluttur hingað á Akranes. Annars eru mörg skáld og rithöfundar víst héðan frá Akranesi. Flest þeirra áttu það held ég sameiginlegt að vilja fyrir hvern mun komast sem fyrst í sollinn í Reykjavík. Kannski er umhverfið hér ekkert hagstætt frumlegri hugsun og Reykjavík ekki nein stórborg þó manni ógni svolítið umferðin þar og æðibunugangurinn.

Þegar ég setti síðasta blogg mitt upp gleymdi ég víst að stækka myndina og setja hana á miðjuna. Sennilega er það bættur skaðinn því ljósmyndari er ég enginn. Tek samt heilmikið af myndum. Hættur að nenna að setja eitthvað af slíku á moggabloggið mitt því það kostar. Skrif taka afar lítið pláss og þessvegna nota ég bara gamlar myndir með blogginu. Alltaf að reyna að spara.

Það nýjasta af kosningabaráttunni í Bandaríkjunum er að upplýst er að þeir sem stjórna kosningabaráttunni fyrir Trump eru sagðir skipta við breskt tölvufyrirtæki sem hefur aðgang að upplýsingum um 230 milljónir bandaríkjamanna og um það bil 4000 data bits um hvern þeirra. Þetta borga þeir Trumparar vel fyrir og geta í staðinn miðað rétt á væntanlega kjósendur. Eflaust gera Clintonsinnar eitthvað svipað, en hlálegt er samt að Trumparar skuli leita útfyrir landsteinana með þetta.

Annars sýnist mér tilgangslaust hjá mér að skrifa mikið um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum því svo margir skrifa um þær og sumir hverjir af mikilli þekkingu. Nú er Comey forstjóri FBI búinn að draga flest til baka varðandi Hillary Clinton, en samt eru margir reiðir honum fyrir að vera að skipta sér af þessu.

IMG 2991Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband