2523 - Túristavaðallinn

Þessar blessaðar ríkisstjórnarmyndir eru að verða dálítið þreyttar. Enn er setið við gömlu hurðina. Greinilegt er líka að karlrembur raða ráðherrunum niður. Ævinlega eru konurnar hafðar fremst á myndinni. Það er til þess að karlar geti horft á lappirnar á kvenfólkinu. Þær þurfa nefnilega að hugsa um klæðaburðinn auk annars, en karlpeningurinn er alltaf eins klæddur eða a.m.k. oftast.

Kannski verður það stærsta frétt ársins þegar frá líður að Bob Dylan skuli hafa fengið bókmenntaverðlaun Nobels. Einhverjir hneyksluðust þegar Winston Churchill fékk þau um árið og kannski hneykslast þeir eða einhverjir á páfastóli bókmenntanna enn meira yfir þessu. Dylan hefur hingað til ekki verið ákaflega hrifinn af snobbi og prjáli og vel mætti það minnka aðeins hjá Svíakóngi eins og annars staðar.

Úrslit komandi kosninga eru mörgum mjög ofarlega í huga þessa dagana. Er það mjög að vonum. Sú ríkisstjórn sem nú situr mun áreiðanlega falla. Ríkisstjórnarmyndun gæti orðið erfið. Ólíklegt er að hrein vinstri stjórn verði mynduð eins og áður var (2009 – 2013). Sjálfum finnst mér að vinda þurfi bráðan bug að því að koma ýmsum stjórnarskrárlagfæringum að. Nógu örðugt er að fást við ýmislegt annað, svo líklegt er að það dragist eins og venjulega.

Allir vilja meiri peninga og margt þarf að laga. Núverandi ríkisstjórn hefur gert sumt vel og auk þess verið fremur heppin. Búast má þó við að margt fari aflaga á næstunni og forgangsmál flokkanna eru mjög mismunandi. Líklegt og jafnframt vonandi er að komandi ríkisstjórn stefni fremur í átt til Evrópsks veruleika en þess Bandaríska eins og verið hefur. Ef þjóðaratkvæðagreiðsla verður um áframhald ESB-samninga er líklegt að slíkir samningar verði felldir. Ekkert liggur á um inngöngu, ef ESB verður sæmilega rólegt meðan við tökum almennilega til í fjármálalífi landsins. Aldrei verður þó gert svo öllum líki.

Var í gær staddur á Skólavörðustíg vegna sýningar Litku og fékk mér súpu, fyrst Súpudagurinn var haldinn einmitt á þessum degi. Allur sá mannfjöldi sem þar var samankominn kom mér svolítið á óvart. Lundabúðirnar einnig. Segja má að yfirbragð miðbæjarins sé gjörbreytt eftir að ferðamönum fjölgaði svona mikið. Ísland er greinilega „in“ eins og sagt er. Akranes er þó blessunarlega að mestu laust við túristavaðalinn, ennþá a.m.k.

DV ryðst jafnan inn á fésbókarsíðuna mína. Kannski stafar það af einhverskonar athugunarleysi eða meinleysi af minni hálfu. Oftast þykir mér þær fyrisagnir sem ég sé á þann hátt ekki sérlega merkilegar. Stundum kíki ég samt á greinarnar sem þeim fylgja. Ein fyrirsögn vakti þó sérstaka athygli mína. Hún var svona: „Hvert fer fitan þegar við léttumst?“ Þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvæg spurning. Oft hafa verið skrifaðar bækur um minna brennandi spurningar. Ég gat ekki annað en lesið þetta. 80% öndum við frá okkur og 20% breytast í vatn. Segir í þessu merka blaði. Hvort pissum við þessum 20 prósentum eða skyldu þau breytast í svita. Það er spurningin. Og er þetta virkilega svona einfalt.

IMG 3196Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband