30.7.2016 | 11:03
2498 - Jónas og fleiri
Aðalgallinn við Jónas besserwisser er að hann er alltaf svo neikvæður. Allt er að fara í hund og kött hjá honum. Svo eru þessar blogg-greinar hjá honum eingöngu framhald af hinni hundleiðinlegu pólitísku orðræðu sem ég ímynda mér að sé alla að drepa. Auðvitað er hann samt manna best til þess fallinn að kommenta á þessar fréttir. Ég veit bara að hann býr yfir svo mörgu öðru að mér finnst hann ætti að hætta þessari sífelldu neikvæðni. Að sjálfsögðu er heimurinn samt ekkert sérlega skemmtilegur en hann ætti að prófa að segja frá einhverju öðru í þessum stuttu greinum sínum.
Ómar Ragnarsson, sá fjölfróði skemmtikraftur, fjölmiðlamaður og altmuligmand bloggar manna mest og hefur frá mörgu að segja. Hann er samt sá óskeikuli besserwisser sem oft fælir aðra samskonar frá sér, en heillar marga uppúr skónum. Oft þarf hann að leiðrétta og bæta við fréttir hjá viðurkenndum fjölmiðlum.
Jens Guð er afburða bloggari og flækist víða um Internetið, safnar skrítnum og eftirminnilegum sögum. Semur þær jafnvel sjálfur ef svo ber undir.
Í þeim aldursflokki sem ég tilheyri eru ekki margir aðrir sem ég fylgist reglulega með. Sumt sem þessir úrvalsbloggarar skrifa fer samt framhjá mér, en ég reyni þó að heimsækja bloggin þeirra öðru hvoru.
Og sumir, t.d. ég, eru sífellt að flækjast á fésbókinni, án þess að hafa náð almennilegum tökum á henni. Eiginlega væri gamalmennum eins og mér heppilegast að halda sig við bloggið. Fésbókin er þó að verða skelfilega gamaldags. Er virkilega ekki neitt nýrra að taka við?
Stundum uppgötva ég skyndilega að ég hef ekki séð, eða brugðist við á eðlilegan hátt, sumum tilkynningum sem mér hafa borist á fésbókinni. Eiginlega er það miklum tilviljunum háð hvort og þá hvernig maður bregst við ýmsu því sem þar kemur fyrir. Ein tilkynning leiðir kannski til þess að maður fer að gera eitthvað annað og gleymir að þær voru fleiri. Litaskiptin á milli þeirra tilkynninga sem maður hefur lesið og skoðað og hinna eru nefnilega ekki nógu greinileg. Oft eru sjálfgefnu og upprunalegu stillingarnar þær bestu. Kannski er hægt að stilla þetta betur einhvers staðar, en ég forðast allt slíkt eins og heitan eldinn. Sennilega er þetta með viðbrögðin, sem ég sagði frá í upphafi þessarar málsgreinar, svipað hjá öðrum. Mér finnst þetta aftur á móti hálfleiðinlegt því ég er með þeim ósköpum gerður að vilja endilega hafa allt í röð og reglu. Sennilega er allsekki svo, frá öðrum séð, en ég vil geta séð systemið í öllu.
Munurinn á því sem kallað er lífeyristrygging og lífeyrissjóðirnir standa fyrir og því sem kallað hefur verið séreignarsparnaður er sá, að það sem lífeyrissjóðirnir eiga að tryggja okkur er fólgið í samtryggingu. Þannig að það er sama hve gömul við verðum, okkur er tryggður lífeyrir út lífið. Auðvitað getur hann í mörgum tilfellum verið lægri en séreignarsparnaðurinn sem aðeins er ákveðin upphæð, sem hækkar eða lækkar í samræmi við ástandið á markaðnum. Þegar sú upphæð er hinsvegar uppurin mega þeir sem aðeins hafa slíkar tekjur lifa á því sem úti frýs. Auðvitað er þetta bara minn skilningur á flóknu fyrirbæri og kannski ekki í samræmi við skilning annarra. Íslenskt þjóðfélag hefur samt vel efni á því að allir komist bærilega af.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.