8.7.2016 | 09:31
2492 - Ekkert (eða lítið) um fótbolta
Alveg er útilokað fyrir okkur ellilífeyrisþegana að láta okkur detta í hug að fara í Bláa Lónið. Það virðist ekki vera nema fyrir forríka ferðamenn að fara þangað. Sömuleiðis svíður okkur mjög að horfa á fulla ruslagáma af ágætis ávöxtum og allskyns matvöru. Aldrei förum við í bíó eða neitt þessháttar og af því við erum tvö, þurfum ekki á neinni læknishjálp að ráði að halda og eigum þar að auki sæmilega íbúðareign sem ekki kallar á brjálæðislegar afborganir af lánum skrimtum við á þeirri hungurlús sem lífeyrissjóðir, ríkissjóður og aðrir sjóðir henda í okkur mánaðarlega.
En ekkert má klikka. Utanlandsferðir til Parísar og annan lúxus þurfum við ekki að hugsa um. Að eiga fyrir útförinni var eitt sinn aðalmarkmið pöpulsins. Kannski er sá tími að koma aftur. Einu sinni var mikið talað um svindl og svínarí í sambandi útfarir. Kannski er það svo enn.
Svo spilum við ekki fótbolta og höfum jafnvel ekki mikinn áhuga á honum. En börnum okkar barnabörnunum og afkomendum þeirra höfum við áhuga á og kannski spila þau fótbolta. Þá er eins gott fyrir okkur að hafa smá áhuga á honum eins og aðrir Íslendingar.
Sjálfsmorðsprengingar virðast vera að komast í tísku sem einskonar baráttuaðferð í stríði. Ímynduðu eða raunverulegu. Yndi hverskyns hryðjuverkamanna virðist vera að sprengja sig í loft upp en helst að komast í einhvern mannfjölda fyrst. Þessar sprengingar koma oft meira á óvart en loftárásir á almenna borgara. Líkjast þeim samt að mörgu leyti. Einu sinni voru flugrán í tísku, en nú dugir ekkert minna en að granda flugvélum. Helst þurfa þær náttúrulega að vera smekkfullar. Eru þær það kannski oftast nær? Aðgerðir af þessu tagi ættu að vera fremur auðveldar, en sem betur fer virðist svo ekki vera.
Af hverju kjósa svona margir íhaldið? Skil það ekki. Augljóst er fyrir mér að sérgæskan er hvergi meiri. Eiginlega held ég að allir hljóti að sjá það, sem á annað borð hugsa um stjórnmál. En af hverju skyldi þetta vera? Trúa þessir aumingjar ennþá á brauðmolakenninguna? Kannski halda þeir að þeir tilheyri fína fólkinu. Kannski halda þeir og trúa innst inni að þeir mundu sjálfir fela auðæfi sín á Tortóla ef þeir ættu einhver. Er þetta þá bara einskonar æfing í hráskinnaleik? Eru þeir í alvöru mestir sem tekst að traðka á sem flestum? Vitanlega er ekkert skrítið við það að þeir sem álíta sig fremri öðrum rotti sig saman á þennan hátt. En er einhver dulinn kostur við að eiga peninga umfram þarfir?
Allmargir stjórnarþingmenn virðast ætla að hætta á þingi og er það vel. Hefði þó viljað sjá Gulla Þórðar hætta líka svo og Steingrím Jóhann. Að vísu er hann úr Vinstri grænum en hann er eiginlega búinn að vera alltof lengi á þingi.
Í Bandaríkjunum trúa fáir að lögregluofbeldi sé til staðar, nema það sé sent út beint eða að minnsta kosti til góðar myndir af því. Myndir þær sem lögreglan tekur duga ekki, því þær verstu eru aldrei sýndar. Svipað virðist vera uppá teningnum hér á landi. Ef myndir birtast af lögregluofbeldi verður allt vitlaust, en bara í takmarkaðan tíma. Svo snúa menn sér að öðru. Fjölmiðlar hafa vissulega áhrif á þetta. Ýmist gera þeir hlut lögreglunnar betri eða verri en efni standa til. Hlutlaus frásögn fyrirfinnst varla hér á landi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.