2487 - Er hægt að ræða um annað en forsetakosningarnar?

Af gömlum vana skipti ég stjórnmálum oftast í hægri og vinstri. Mér er fullljóst að sú skipting hefur marga galla en ég nota hana samt a.m.k. í huganum. Að mestu leyti er sú skipting hefðbundin. Þannig lít ég t.d. á að netmiðlarnir Kjarninn og Stundin séu vinstri sinnaðir, en DV hafi orðið hægri öflunum að bráð. Um Morgunblaðið og mbl.is þarf svo varla að fjölyrða. Mér finnst þau ansi hægri sinnuð.

Önnur skipting sem ég legg talsvert uppúr er hvort miðlarnir eru ókeypis eða ekki á netinu. Mér er engin launung á því að ég les helst ekki neitt sem ég þarf að borga fyrir. Meðfædd níska er að mér finnst ekki aðalástæðan fyrir þessu. Heldur sú stefna sem grasserað hefur hér á landi nokkuð lengi að eðlilegt og sjálfsagt sé að níðast sem mest á þeim sem minnst hafa. Kannski erum við Íslendingar ekki þjóða verstir í þessu tilliti, en heldur allsekki þjóða bestir. Núverandi ríkisstjórn finnst mér að hafi ekki stefnt að auknu jafnræði meðal landsins barna. Mér finnst ég vera eðalkrati. Sumir nota það orð samt í óhófi og það getur haft ýmsar merkingar.

Sjálfur þykist ég vera fremur vinstri sinnaður, þó ég bloggi eingöngu á Moggablogginu. Og þessvegna þykir mér það mjög miður að geta ekki annað en kvartað undan Stundinni og ritstjóra Herðubreiðar að gefa engan kost á ókeypis lesefni. Lesefni sem ég ímynda mér að sé oft og einatt vel þess virði að lesa. Í orð sem þar falla er oft vitnað, en þeir sem aldrei sjá slík ósköp vita ekkert hvað verið er að tala um.

Á margan hátt er greinilegt að komandi forsetakosningum er ætlað af víðlesnum fjölmiðlum að falla nokkuð í skuggann af Evrópukeppninni í fótbolta. Að flestu leyti eru kosningarnar lítt áberandi í fjölmiðlum og er það vel.

Ef endilega þarf að setja forsetaframbjóðendur í stjórnmálaflokka þá býst ég við að ég mundi segja að Guðni væri krati, Andri Snær vinstri grænn, Davíð sjálfstæðismaður af gamla skólanum og Halla sjálfstæðismaður af þeim nýrri. Um aðra hirði ég minna. Auðvitað er lítið að marka þessa skiptingu og undarleg er sú viðleitni sumra að reyna að hræða vinstri sinnað fylgi frá Guðna. Sennilega er þetta vegna gamalla viðhorfa.

1952 man ég eftir að pólitíkin hafi spilað mikla rullu í sambandi við stuðning við forsetaframbjóðendur. Árið 1968 (kannski er ártalið vitlaust hjá mér) þegar Kristján Eldjárn var kosinn var þessu sjónamiði afdráttarlaust hafnað. 1996 þegar Ólafur Ragnar var kjörinn forseti fór pólitíkin aftur að skipta máli. Segja má að ÓRG hafi ekki dregið úr þeim þætti. Þegar þjóðin vill síðan fara aftur í gamla farið og gera þjóðhöfðingjann ópólitískan ryðst Davíð Oddsson fram á sjónarsviðið. Sem betur fer virðist honum ætla að verða eftirminnilega hafnað.

IMG 0949Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband