2483 - Þorvaldur Gylfason

Sko. Ég er víst búinn að lýsa því yfir að ég ætli að kjósa Guðna Th. í komandi forsetakosningum. Ekki ætla ég mér annað, en ég get ekki að því gert að Andri Snær og barátta hans er mér nokkuð hjartfólgin. Að Guðna frátöldum vegna yfirburðaþekkingar sinnar á forsetaembættinu og öllu sem því tilheyrir væri ég líklega til með að ljá Andra Snæ atkvæði mitt. Þar á eftir kæmi Halla Tómasdóttir þó ekki væri nema vegna þess að ég man eftir henni frá því að hún var starfsmannastjóri á Stöð 2. Þjónkun hennar við útrásarvíkingana dregur eflaust úr fylgi hennar því hún kemur áberandi vel fyrir sig orði. Einnig er hún eina konan sem í þessum kosningum á hugsanlega raunhæfan möguleika á kjöri. Sturla er dálítið sér á parti en greinilega mikill hugsjónamaður. Sem forseti væri hann þó alls ekki á réttri hillu.

Aðra tekur því varla að minnast á. Davíð hefur hingað til hagað sér líkt og hann áliti sig einan hafa möguleika á að fella Guðna úr forystunni. Líklegast er þó að hann verði í fjórða sæti eða svo og líti á það sem ósigur sinn.

Aðalgallinn við þessar forsetakosningar er hve fyrirsjáanlegar þær eru. Vel gæti það orðið til þess að kjörsókn verði áberandi lítil. Mörgum mun eflaust finnast að ekki taki því að vera að ómaka sig á því að fara á kjörstað.

Langathyglisverðasta frétt dagsins er sú að nú sé farið að handtaka menn vegna Guðmundar og Geirfinns málsins. Ekki er seinna vænna því þeir sem líklega eru þar sekir fara sennilega að drepast bráðum. Bíð með óþreyju eftir að frétta meira af þessu máli. Ég held að fáir hafi reiknað með því á sínum tíma að rétt væri að öllu staðið í sambandi við það mál. Þó hefur það verið látið dankast í öll þessi ár.

Einn algengasti veikleikinn hjá flestum dálkahöfundum og besservisserum er að vilja kommenta eða skipta sér af næstum öllu. Margir kannast við þetta en vilja ekki viðurkenna það. Sjálfur reyni ég eftir mætti að forðast þetta og þessvegna segi ég að ég sé fyrrverandi besservisser, en hafi orðið atvinnulaus þegar Gúgli náði sér á strik.

Þorvaldur Gylfason hefur hvað eftir annað haldið því fram að Íslendingar hafi samþykkt nýju stjórnarskrárdrögin með tveimur þriðju hlutum atkvæða í kosningum árið 2012. Þetta er alrangt hjá honum og ætti ekki að þurfa að brýna það fyrir prófessornum. Í nefndri þjóðaratkvæðagreiðslu var samþykkt að leggja nýsamþykkt stjórnarskrárdrög til grundvallar nýrri. Hvorki meira né minna. Hins vegar var spurt nokkurra ákveðinna spurninga jafnframt en ekkert gert með svörin við þeim. Þessvegna, meðal annars, eru landsmenn búnir að fá hrikalega leið á hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum og hefur það komið vel fram í þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið að undanförnu.

IMG 1181Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband