9.6.2016 | 20:58
2480 - Er Sanders ákveðinn í að koma Trump til valda?
Ýmislegt bendir til að Bernie Sanders hyggist ekki nota það tækifæri sem ósigurinn í Kaliforníu færði honum til að gefast upp við baráttu sína til þess að öðlast útnefningu Demókrataflokksins. Heldur ætli hann að reyna sitt til þess að eyðileggja Demókrataflokkinn og færa valdið til einangrunarsinnans Donalds Trump. Ekkert bendir til þess að Hillary Clinton verði neitað um útnefninguna og flest bendir til þess að póstkassamálið sé dautt og grafið. Haldi Sanders áfram að þrjóskast við er líklegast að hann færi Trump sigurinn í baráttunni um embætti forseta bandaríkjanna sem háð verður í haust.
Held að Höski fái ekki til lengdar að tala gegn foringjanum. Bíðið bara framsóknarmenn þar til framboðslistarnir verða kynntir. Nú þegar Davíð Oddsson er um það bil að falla af sínum stalli tekur framsóknarflokkurinn við í foringjadýrkuninni. Hvar endar þetta eiginlega? Þetta er næstum eins og í Kóreu. Man bara ekki í augnablikinu hvort það er Suður eða Norður.
Mér finnst alveg fáránlega asnalegt hve klósettin á landinu eru fá. Ég man svo langt að þau voru eitt sinn tolluð sem lúxusvarningur. Nú er ég ekki einu sinni viss um að þau séu í hærri tollflokki en hlandskálar eða annar munaðarvarningur svo sem spýtubrjóstsykur. Annars er fremur lítið að marka mig í þessu efni því ég er alltaf svo neikvæður enda fyrrverandi besserwisser. Þó ég hafi orðið að viðurkenna ósigur gagnvart Gúgla karlinum þá reyni ég af veikum mætti að bessarwissast eftir föngum. En það er sífellt að verða erfiðara og erfiðara.
Áhyggjulaust ævikvöld. Það er svosem ágætt að þurfa ekki að fara í vinnuna á morgnana. Hvað áhyggjurnar snertir er ekki víst að í staðinn fyrir áhyggjurnar í vinnunni komi eitthvað einfaldara. Áhyggjurnar af afkomendunum eru til dæmis ekki til að hrópa húrra fyrir. Er ekki heimurinn á hraðri leið til glötunar? Reyndar hefur hann oft verið það. Á mínu æviskeiði man ég vel eftir því að vegna mannfjölgunar væri allt að fara til fjandans. Sömuleiðis átti öll olía að vera uppurin löngu fyrir árið 2000. Nú um stundir er það heimshlýnunin sem er alla að drepa. Sennilega er það samt alveg rétt að við höfum ekki gefið umhverfismálum nægan gaum hingað til. Hugsanlega breytist það þó. Kannski að vísu fullseint en hvað um það. Heimurinn hefur hingað til kraflað sig útúr allskyns vandræðum og mun eflaust halda því áfram.
Vel er hægt að nota fésbókina til að fá hugmyndir. T.d. skýst ég oft sem snöggvast inn á fésbókina ef mig vantar hugmynd að einhverju til að skrifa á bloggið mitt. Fréttasíðurnar eru ekki það sem verður mér oftast að gagni samt sem áður. Sumir virðast varla geta skrifað nokkuð nema leggja útaf fréttum dagsins og setja það í persónulegt samhengi. Þetta hef ég prófað en hætti því fljótlega því ófrelsið er í rauninni algert. Miklu skárra er að leggja útaf einhverju sem enga athygli vekur, svona eitt og sér. Fæ oft svo fáránlegar hugmyndir þar að varla er hægt að skrifa um það. Geri það þó stundum.
Vel getur verið að þeir séu til sem hvorki hafa áhuga á yfirvofandi forsetakosningum eða Evrópumótinu í krassspynnu. Sé svo hafa þeir fremur lítið til fjölmiðlanna að sækja. Alveg er ég hissa á þeirri geðveiki sem virðist hafa gripið nær alla fjölmiðlunga nú um stundir. Ekki ætla ég að borga Símanum 6900 krónur fyrir að fá að sjá svolítið fleiri leiki frá þessu umtalaða EM í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Heldur ekki hef í hyggju að skoða torfurnar á Ingólfstorgi. Kannski horfi ég samt á einhverja leiki í mímum eða réttara sagt okkar fína flatskjá.
Athugasemdir
Sæll Sæmundur.
Þó ekki væri annað en vísun til dýraverndunarlaga
þá verður að bjarga Sanders fyrst og fremst frá
sjálfum sér en dugar sennilega skammt því ég efast
um að sá maður eigi eftir að sjá nóvembermánuð og
því yrðu fyrirsjáanlegir nokkrir hnökrar á að halda
þessum dygga frambjóðanda úti; hrollvekja sem fæstir
vildu sjá.
Hvorki yfirstéttarbeyglan né Sanders eiga séns
í sótrauðu helvíti gegn Trump!
Húsari. 10.6.2016 kl. 17:31
Ég er alveg sannfærður um að Trump á enga möguleika á sigri í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Og skiptir þá engu máli hvort mótstöðumaður hans heitir Sanders eða Clinton.
Sæmundur Bjarnason, 10.6.2016 kl. 22:21
Þó Sanders gangi illa að viðurkenna ósigur sinn gerir hann það áreiðanlega á endanum og Demókrataflokkurinn gengur sameinaðri til kosninganna en Repúblikanaflokkurinn.
Sæmundur Bjarnason, 10.6.2016 kl. 22:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.