2464 - Um forsetaembættið o.fl.

Helgi Hrafn Gunnarsson, en skammstöfun á nafni hans ruglaði ég í fyrstu saman við Hannes Hólmstein Gissurarson, en vissulega var það rangt. Einnig ruglaði ég einu sinni saman Jóni Ólafssyni Pírata og honum. Ruglaðist reyndar aldrei neitt á Birgittu. Man vel eftir mömmu hennar og ömmu.

Nú jæja, HHG heldur því fram í Fréttablaðinu s.l miðvikudag að minnihlutastjórnir séu á sinn hátt betri en meirihlutastjórnir og færir fyrir því nokkuð sannfærandi rök. Kannski erum við Íslendingar ekki tilbúnir fyrir slíkt því flokkshollustan er öllu æðri hjá flestum. Forystumenn meirihlutaflokka sem stjórna geta oft leyft sér hvað sem er. Ætlast er til að óbreyttir þingmenn hlýði flokksforustunni í einu og öllu. Auðvitað eiga forystumenn flokka ekki að geta gert hvað sem er. Goggunarröðin ræður mestu um það hverjir verða ráðherrar. Ef þingmenn hlýða flokksforustunni nógu lengi gætu þeir fengið ráðherraembætti að launum þegar þeirra tími kemur. Þessvegna er oft best að rugga bátnum ekki of mikið.

Vegna meirihlutastjórna og ofurvalds flokkakerfisins er hægt að segja að alþingi sé nánast óstarfhæft. Eins og HHG rekur ágætlega í þessari grein sinni er alþingi nánast valdalaus stofnun. Hangir þó eins og hundur á roði á sínu. Þingrofsvald og minnihlutastjórnir má helst ekki ræða um. Þar er samt um grundvallarmál að ræða. Efast mjög um að hægt hefði verið að taka nýju stórnarskrána óbreytta í gildi. Margt er þó í henni sem horfir stórlega til bóta. Alþingi Íslendinga er á margan hátt einskonar risaeðla og steingervingur í íslensku þjóðlífi. Engin furða þó framkvæmdavaldið hafi tekið yfir. Misjafn er árangurinn þó.

Forsetaembættið er á margan hátt barn síns tíma. ÓRG túlkaði það eftir sínu höfði og aðallega í eigin þágu. Hlaut hatur sumra og aðdáun annarra fyrir vikið. Í stjórnarskránni eru ákvæði um embættið afar óljós en ekki þarf þó að efast um að VALDIÐ (með stórum stöfum) er hjá þinginu. Forsetaembættið er með öllu óþarft ef þingið gæti komið sér sæmilega saman og hætt þessum kjánalega liðaleik og mælskukeppni.

Á valdið t.d. til stjórnarskrárbreytinga að vera hjá alþingi eða hjá almenningi. Um það virðist fólk ekki vera sammála. Þjóðaratkvæðagreiðslur rugga bátnum og eru stjórnendum til óþurftar ef þær eru of algengar. Þingkosningar á 4 ára fresti nægja samt ekki.

WP 20150423 12 02 01 ProEinhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill Sæmundur.

Haukur Kristinsson 12.5.2016 kl. 12:10

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Haukur. 

Sæmundur Bjarnason, 12.5.2016 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband