2458 - Forsetakosningarnar: Guðni og Ólafur

Guðni Th. hefur notið þeirrar óvenjulegu sæmdar að fá nokkurnveginn marktæka skoðanakönnun án þess að hafa ákveðið hvort hann býður sig fram eða ekki. Þó Guðni fengi allþokkalega niðurstöðu þar kom það mér svolítið á óvart að sú útkoma var að talsverðu leyti á kostnað Andra Snæs. ÓRG kom hinsvegar ágætlega út, en fylgi hans getur hrunið hvenær sem er.

Nú heyrist að Guðni (þó ekki kusuvinurinn Ágústsson) ætli að halda blaðamannafund á fimmtudaginn. Varla þarf að minna fólk á að það er einmitt Evrópudagurinn. Hvort sem það hefur einhverja sérstaka þýðingu eða ekki. Þar að auki er það víst uppstigningardagur og kannski ætlar Guðni að stíga þá uppúr djúpunum og ráðast á drekann ÓRG. Bardagi hans við drekann ógurlega getur orðið spennandi. Vonum bara að sá veikari vinni eins og venjulega gerist í ævintýrunum.

Ólafur Ragnar Grímsson er nokkurskonar stjórnmálaleg útgáfa af lifur og lauk. Þó ég hafi ekki mikið vit á matargerð veit ég að sumir fá aldrein nóg af lifur og lauk en aðrir geta jafnvel ekki hugsað sér að smakka á þeim eðla rétti. Sama sagan er með ÓRG. Sumir elska hann en aðrir elska að hata hann.

Ekki er hægt að neita því að Ólafur kann að verða erfiður andstæðingur. Ekki er víst að hann svífist neins og misnoti forsetaembættið í kosningaslagnum eftir því sem hann getur. Gangi hann of langt í því getur það samt haft öfug áhrif. Mest er samt að marka hvernig andstæðingarnir taka því. Að því hlýtur að koma að Ólafur tapi í forsetakosningum.

Hef alltaf haft heldur lítið álit á Eiríki Jónssyni síðan hann var með þáttinn sinn á Stöð 2. Einnig á Hreini Loftssyni síðan hann gaf í skyn að hann ætlaði að hjóla í Davíð Oddsson en gerði það svo ekki. Ef Hreinn rekur Eirík er beinlínis ekkert við því að gera og eiginlega bara ágætt.

Frambjóðendur í Ameríkunni geta nú farið að halla sér. Næstu stórkosningar, fyrir utan þær á þriðjudaginn kemur í Indiana, eru að ég held í Kaliforníu í byrjun júni. Á sínum tíma (1968) var það eftir þær að Sirhan Sirhan drap Robert Kennedy. Síðan eru það flokksþingin í seinni hluta júni sem útnefna frambjóðendur stóru flokkanna endanlega. Og frambjóðendurnir tilnefna síðan varaforsetaefni sín. Að vísu þjófstartaði Ted Cruz með því að tilnefna um daginn varaforsetaefni sitt. En kannski þarf ansi mikið að gerast svo Republikanaflokkurinn tilnefni Cruz sem forsetaefni sitt. Trump er þrátt fyrir allt líklegri.

Skelfing er þetta blogg mitt að verða pólitískt orienterað. Ég ræð bara ekkert við þetta. Það er svo margt sem gerist þessa dagana. Einhver vorgalsi virðist vera hlaupinn í menn. Svo er sauðburðurinn á næstu grösum skilst mér og þá hætta sumir að sofa.

WP 20151011 09 49 17 ProEinhver mynd. (Munið að klikka á hana til fá hana skýrari.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband