2454 - Það er þetta með forsetakosningarnar

Hvernig eru forsetar kosnir? Hefði ég kannski átt að segja Ólafar? Stundum eru það stjórnmálamenn. (Eins og ÓRG.) Stundum ekki. (T.d. Kristján Eldjárn) Skilst að Guðni Th. sé sagnfræðingur og prófessor. Ekki ætti það að verða honum til trafala. Ólafur var stjórnmálafræðingur og prófessor. En Vigdís þó ekki. Aftur á móti hafði hún persónutöfra og kunni þar að auki frönsku.

Í rauninni ræður Ólafur næstum engu. Man vel eftir Ásgeiri Ásgeirssyni sem kom stundum í heimsókn til bróður síns á Helgafelli í Hveragerði. Gott ef Harold í Snorrahúsi gerðist ekki bílstjóri hjá honum. Virðulegur var Ásgeir. Ekki vantaði það. Útlendingar halda sumir að forseti Íslands ráði heilmiklu. Það finnst Ólafi gott. Honum finnst líka gaman að heyra sjálfan sig tala. Og alveg sérstaklega ef hann hefur ástæðu til að halda að áheyrendur séu fleiri en hjá einhverjum öðrum. Vitanlega má margt gott um Ólaf Ragnar Grímsson segja. Þó er hann ekki ómissandi.

Enn er áframhald á skrítum tímum hér á Ísa köldu landi. Ekki er nóg með að túrhestar séu að færa allt á kaf, heldur þarf maður bæði að hugsa um forsetakosningar og þingkosningar í sama andartakinu. Venjulega er svolítið bil á milli. Á endanum verða kosningar kannski þjóðaríþrótt okkar á svipaðan hátt og skrúðgöngur eru víst hjá Norður-Írum.

Næstu þingkosningar verða athyglisverðar og framboðin jafnvel líka. Vorkenni Pírötum svolítið að þurfa að passa sig á allskyns lukkuriddurum sem líklegt er að sæki á þá eins og mý á mykjuskán ef þeir halda áfram að koma svona vel út í skoðanakönnunum. Gömlu flokkarnir og afsprengi þeirra eiga sennilega í enn meiri vandræðum með að finna frambærilegt fólk í stað gömlu andlitanna sem enginn treystir lengur.

Ef það er virkilega rétt að skattayfirvöld ætli í framhaldi af Panama-pappírunum að fara að vera vond við verktaka, undirverktaka, ráðherra, borgarfulltrúa og jafnvel alþingismenn og fyrirtækjastjórnendur gæti maður allt eins búist við að skammirnar á fésbók fari minnkandi. Samt á ég nú ekki von á því. Virkir í athugasemdum hljóta bara að finna sér eitthvað annað til að bölsótast yfir. Nóg er eftir.

Einhverjir vitleysingar boða til mótmæla við heimili Bjarna Benediktssonar. Ég var að vinna hjá Securitas þegar mestu lætin voru hérna um árið. Man að ég var á einhverjum næturvöktum hjá heimilum Rannveigar Rist og Ólafar Nordal. Fannst það framúrskarandi asnalegt. Þó voru einhverjir að andskotast með rauða málningu um miðjar nætur á þessum tíma. Við heimili manna á ekki að mótmæla. Punktur.

Mótmælin á Austurvelli eru líka að verða marklaus að mestu. Alltof margir boða til mótmæla þar. Ef mómælendum fjölgar ekki frá degi til dags eða viku til viku er lítið mark á þeim tekið. Grjótkast og þess háttar er sem betur fer aflagt að mestu. Fyrir mér var toppurinn á búsáhaldabyltingunni þegar mótmælendur vörðu lögregluna við stjórnarráðshúsið.

WP 20160412 11 21 38 ProBlokk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Fyrir mér var toppurinn á búsáhaldabyltingunni þegar mótmælendur vörðu lögregluna við stjórnarráðshúsið. 

Athyglisvert !  Mótmælendur vörðu lögregluna fyrir sjálfum sér.

 

Hrólfur Þ Hraundal, 24.4.2016 kl. 10:42

2 identicon

Thad var paradoxically hrætulegt og fyndin a saman stund. 

Elisabeth Ward 24.4.2016 kl. 13:42

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér fannst það ekki nein mótsögn. Kannski óttaðist meirihluti mótmæaenda að þau gætu farið úr böndunum.

Sæmundur Bjarnason, 24.4.2016 kl. 16:00

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hrætulegt á sennilega að vera hræðilegt. Já, kannski var þetta einmitt hræðilegt og fyndið í senn.

Sæmundur Bjarnason, 24.4.2016 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband