2431 - Um Snorra í Betel og ýmislegt fleira

Verðbólga er greinileg í starfsheitum. Ekki er auglýst eftir öðru en einhverskonar stjórnendum eða forstöðumönnum. Greinilegt er samt að oft stjórna þeir ekki öðrum en í hæsta lagi sjálfum sér. Minnir að einhverju sinni hafi verið talsvert að marka starfsauglýsingar en því er greinilega ekki að heilsa lengur.

Var að lesa „sjálfsmorðsbókina“ eftir Óttar Guðmundsson þann þjóðþekka geðlækni, eða hvað hann nú er. Þar segir hann m.a. frá því að hann hafi reynt að fremja sjálfsmorð en ekki tekist. Ruglar greinlega saman „Grandavita“ sem hann nefnir svo og Gróttuvita. Nema hann sé að tala um eitthvert innsiglingarljós, sem er sennilegt. Um það er ekkert fleira að segja nema að bókin virðist nokkuð góð að öðru leyti. Þetta hefði góður ritstjóri átt að sjá.

Það er engin ástæða til að núverandi stjórnarflokkar fái nema svona fimm til tíu prósent atkvæða hvor. Þeir hafa hvort eð er stjórnað svo illa að þeir eiga það margfaldlega skilið. Alltaf er samt einhver hópur sem styður þá auk frambjóðendanna og er það eðlilegt.

Flokkum sem styðja ríkisstjórnina hefur þó gengið sæmilega í sveitarstjórnarkosningum. Auðvitað eru áherslurnar ólíkar þar, samt er það svo að sé um greinileg flokksframboð að ræða er engin ástæða til að hlífa þeim þessvegna.

Guðmundur Andri skrifaði um mál Snorra í Betel fyrir skemmstu. Líklega veit hann ekkert meira um það mál en ég. Helsta röksemd hans fyrir því, að Akureyrarbær hafi mátt reka Snorra án þess að fara að formsatriðum þeim sem fyrirskipuð eru, er sú að vegna þess að hann hafi verið kennari hafi verið svo hættulegt að hann vitnaði í Biblíuna. Það er engin vandi að vera meðmæltur málfrelsi sé maður sammála þeim málflutningi sem um ræðir. Heldur harðnar á dalnum hjá sumum sé svo ekki. Hafi það ekki getað farið framhjá neinum að hann væri að vitna í Biblíuna þegar hann fordæmdi samkynhneigð sé ég ekki annað en hann hafi verið í fullum rétti til að ræða hvað sem er á bloggi sínu. Unglingar eru sér ekkert síður meðvitaðir en aðrir um að hægt er að slíta orð og setningar úr samhengi og snúa útúr öllu, ef vitnað er í afgamlan texta. Um þetta fimbulfambar Guðmundur lengi vel. Eða þangað til fyrirskipaðri lengd er náð.

Það eru fjölmiðlar sem hafa gert Donald Trump að mögulegum frambjóðanda republikana í Bandaríkjum Norður Ameríku. Auðvitað er til siðs að kenna fjölmiðlum um allan fjárann á sama hátt og við kennum skólunum um allt sem miður fer í uppeldi barnanna okkar. Enginn vafi er samt á því að fjölmiðlar hafa sýnt Donald Trump óeðlilegan áhuga allt frá upphafi kosningabaráttunnar. Hann er greinilega óforsetalegastur allra sem í framboði eru. Þar að auki kjaftaskur hinn mesti og kann svo sannarlega að láta taka eftir sér. Alvarlegri gagnrýni verður hann sjaldan fyrir. Mætir henni líka aðallega með útúrsnúningum, kjafthætti og fullyrðingum út í bláinn.

Þetta allt saman kunna kjósendur að meta. Þeir eru nefnilega þar eins og annarsstaðar orðnir hundleiðir á malinu í venjulegum stjórnmálamönnum og vilja helst þá sem þeir halda að standi dálítið uppi í hárinu á þeim. Allskyns öfgar eiga síðan uppá pallborðið hjá sumum þeirra og þó flest annað í stefnunni eða stefnuleysinu sé ósköp asnalegt þá er þeim alveg sama. Kjósendur verða ekki dregnir fyrir dóm, hve vitlaust sem þeir kjósa. Flokkurinn situr uppi með skömmina. Búast má við miklum átökum á flokksþingi Repúblikana í sumar.

WP 20160212 14 16 40 ProGóusólskin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, þetta var hið mesta fimbulfamb á Guðmundi Andra og málflutningnum hagað eins og honum sýndist, með útúrsnúningum og rangtúlkun á orðum Snorra og Bibóunnar sjálfra. Það var alveg rétt, sem Einar Gautur, lögfræðingur Snorra, ritaði um grein GAT: "Hér er verið að gera Snorra upp meiningar sem eru rangtúlkun á orðum hans. Síðan er fjallað um persónuna út frá þeim."

Jón Valur Jensson, 11.3.2016 kl. 12:55

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

... og Biblíunnar sjálfrar !

Jón Valur Jensson, 11.3.2016 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband