29.2.2016 | 10:22
2429 - Ófærð
Ég hef haldið því fram að söguþráðurinn í Ófærð hafi verið fremur ósennilegur og illa gerður. Auðvitað er engin goðgá að ætlast til að ég röstyðji það aðeins. Ef bara er minnst á síðasta þáttinn þá voru það einkum tvö atriði sem ekki gengu alveg upp að mínu áliti. Annað var það að mennirnir tveir sem lokaðir voru inni í frystigeymslunni töluðu eins og dauði þeirra sakir kulda væri yfirvofandi næstu mínúturnar, þó var enginn vafi á því að þeim yrði bjargað mjög fljótlega. Hitt atriðið var að til að komast út þurfti bara að teygja sig í reykskynjara og þá opnaðist allt. Heldur simpilt trikk. Auk þess sem reykskynjarinn hefði átt að vera mun ofar. Svo má minnast á atvikið með opnu þyrludyrnar. Svissunin á milli Seyðisfjarðar og Siglufjarðar truflaði mig ekkert, þó hef ég á báða staðina komið.
Öðrum atriðum, sem flest trufluðu bara staðkunnuga, man ég ekki eftir í svipinn. Þau voru samt óþægilega mörg. Útlendingum gæti þó þótt talsvert til seríunnar koma því aðstæður voru um margt óvenjulegar og flest atriði sem snertu kvikmyndatöku, leik og hljóð voru mjög góð. Miklu betri en venjulega er í íslenskum myndum. Meira hef ég eiginlega ekki að segja um þessa miniseríu sem vonandi selst vel á alþjóðlegum markaði. Tungumálið skiptir engu máli.
Tvö eru Skálafellin í landnámi Igólfs. Annað er við endann á Esjunni og þangað held ég að liggi vegur. Þar var líka í eina tíð og er kannski enn loftnetsbúnaður frá þeim tíma þegar Internetið og Örbyljusambandið var ekki til. Eða a.m.k. þekkt af mjög fáum Íslendingum. Já, og þar eru víst skíðabrekkur og jafnvel skíðalyfta þó þetta fjall komi ekkert við sögu hjá mér og ég hafi aldrei uppá það komið. Er nefnilega á móti fjöllum sem hafa veg uppá topp. Hitt Skálafellið er fjallið sem maður keyrir framhjá þegar maður fer yfir Hellisheiðina. Altsvo aðalhellisheiðina en ekki þessa litlu og fáförnu fyrir austan. Þar fórst einu sinni flugvél en það er allt önnur saga.
Já, ég var að tala um Ingólf Arnarson sem af sumum (jafnvel mörgum) er talinn fyrsti landnámsmaðurinn. Auðvitað er það tóm vitleysa því Náttfari sá sem fékk sér gistingu á Hótel Húsavík hefur vitanlega verið á undan. Kannski gisti hann ekki á Hótel Húsavík þegar betur er að gáð, því það hefur sennilega ekki verið til þá. Þó einhver Náttfari hafi bælt sig (skriðið í bælið) í Náttfaravík bendir nafnið að vísu til heldur vafasams uppruna. Því ætla ég sem Sunnlendingur að halda mig við Ingólf.
Oft hef ég uppá síðarnefnda Skálafellið komið og sagan sem ég var að hugsa um að segja hér er einmitt af einni slíkri ferð. Ekki var ég einsamall í þeirri ferð, sennilega hefur Bjössi bróðir verið með mér í för. Þetta var að vetri til og allt á kafi í snjó. Ekki fundum við flugvélarflakið þó við vissum næsta nákvæmlega hvar það átti að vera. Kenndum við snjónum að sjálfsögðu um það.
Þó þetta fjall láti ekki mikið yfir sér er það fremur illkleift í miklum snjó. Á toppinn vildum við samt fara því ekki eru hærri fjöll í næsta nágrenni. Þegar við nálguðumst toppinn verulega sáum við að vélsleði nokkur komst þangað upp hinum megin frá og þótti okkur lítið til þeirrar fjallgöngu koma. Vélsleðinn eða réttara sagt ökumaður hans fór samstundis til baka sömu leið og við vitum engin deili á honum. Við gengum samt á toppinn en auðvitað var þessi fjallganga hálfónýt á eftir.
Athugasemdir
Kostnaðurionn við gerð þáttanna var 5,1 milljarður og þar af greissi RÚV 800 milljónir. Gæti trúað að ýmsir kvikmyndagerðamenn hafi vaxið kostnaðurinn í augum og spyrt sig af hverju Baltasar eigi svona greiðan aðgang að aurnum á meðan þeir lepja dauðann úr skel.
Ekki voru gæði þáttanna þessleg að það réttlæti þennan fjáraustur. Handritið arfaslakt, stjórnunin viðvaningsleg, gerð þáttaraðarinnar dróst óheyrilega á langinn og leikararnir vissu ekki sitt rjúkandi ráð undir lokin!
Þá er nú hægt að gera kröfur um að eitthvað sé í lagi, svo sem hljóð og kvikmyndataka!
Torfi Stefánsson 29.2.2016 kl. 13:42
Já, já. Kannski hefur Balti fengið einhverja aura erlendis frá. En það er alveg rétt. Aðrir íslenskir kvikmyndaframleiðendur fá ekki aðgang að svona peningum.
Sæmundur Bjarnason, 29.2.2016 kl. 18:00
Mér þótti þetta spennandi efni og vel þess virði að horfa, en svo á að koma framhald, eða svo held eg miðað við endinn.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.2.2016 kl. 20:36
Já, þessa karaktera er vel hægt að þróa áfram. Mér þóttu þættirnir spennandi og í heild voru þeir vel gerðir, enda kostnaður mikill. Bláþræðirnir í söguþræðinum voru þó fulláberandi fyrir Íslendinga.
Sæmundur Bjarnason, 29.2.2016 kl. 22:37
Já þarna eru ýmis mál Óupplýst eins og frú fyrrverandi bæjartjórafrú er að fara, og svo auðviað sambandi lögreglustjórans við sína fyrrverandi :)
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.2.2016 kl. 23:06
Kostnaðurinn var um milljarður og mig grunar að erlendir aðilar hafi kostað þetta mest.
Tvent sem spilar inní að erlendir vilja styðja svona. Í fyrsta lagi Baltasar. Hann er stórþekktur erlendis og virtur. En jafnframt spilar líka inní velgengni ýmissa norrænna sjónvarpsþátta undanfarin ár, aðallega danskra. Menn sjá tækifæri í að koma með ákveðna útgáfu af þessum skandinavísku sjónvarpsþáttum.
Eftir fyrstu 2-3 þættina var maður soldið skeptískur á að þetta gengi almennilega upp en þetta lagaðist þegar leið á og í heildina voru þættirnir alveg þokkalega frambærilegir, að mínu mati.
Verður athyglisvert að fylgjast með Ófærð II ef af verður.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 29.2.2016 kl. 23:52
Já einmitt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.3.2016 kl. 08:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.