2420 - Er Trump hættulegur?

Já, ég held að Donald Trump sé beinlínis hættulegur. Það er allsekki óhugsandi að hann verði næsti forseti Bandaríkjanna og þar með einhver valdamesti maður heims og með fingurinn á atómgikknum. Hann er af mörgum vanmetinn en gæti samt náð langt. Vissulega ætti hann ekki að verða neinskonar einvaldur en gæti samt haft talsverð áhrif á gang heimsmála. T.d. er ekki óhugsandi að ný heimskreppa riði fljótlega yfir taki Bandaríkin upp þá einangrunarstefnu sem hann virðist boða. Einnig er ekki hægt að horfa framhjá því að fyrir hans tilstuðlan gæti þjóðremba og stríðsglamur farið vaxandi í heiminum. Kalda stríðið virðist vera að skella á aftur án þess að hægt sé þó að kenna honum um það.

Bandaríska forsetakjörið og undirbúningur þess er afar spennandi. Margt óvænt getur gerst og gerist í því sambandi. T.d. getur andlát hæstaréttardómarans þar nýlega haft talsverð áhrif.

Gangur heimsmála er mér hugleikinn þó ég viti allsekki meira en flestir aðrir um þau mál. Íslensk stjórnmál eru heldur lítilfjörleg í samanburðinum þó auðvitað hafi þau á ýmsan hátt mikil áhrif á hag þeirra sem þetta lesa.

Stundum dettur mér í hug að aðalstarfið hjá blaðamönnum DV sé að lesa misgáfulegar athugasemdir á fésbókinni. Það kemur svosem fyrir mig líka. Stundum svara menn fyrir sig þar og nýlega las ég langan svarhala um bílalagningar á bílastæðum. Yfirleitt var þetta fremur illa skrifað. Samt vottaði fyrir nýjungum í orðavali. Sumt var þar alveg ágætt og ég er ekki frá því að sumar orðmyndirnar eigi sér langa lífdaga fyrir höndum. T.d. er greinilega skárra að vera hurðaður en urðaður.

Einkennilegt er af íhaldsmönnum að halda því fram að þjóðfélagslegt ástand og réttlæti hafi ekkert með dómsúrskurði að gera. Ef ætíð væri hægt að finna lög um nákvæmlega þau atriði sem til úrskurðar eru, væru dómstólar alveg óþarfir. Allir lögfræðingar vita þó að því aðeins er réttlætanlegt að leita úrskurðar æðstu dómstóla að vafi leiki á um lagalegar forsendur. Að gera sér alls ekki grein fyrir slíku ber vott um lélega lögfræðikunnáttu.

Einhverntíma skrifaði ég heilmikið um „Sögu Akraness“. Í því máli hafði ég mest af mínu viti frá Hörpu Hreinsdóttur en hún skrifaði, eða bloggaði réttara sagt, heilmikið um þetta mál allt á sínum tíma. Nú stendur víst til að farga afganginum af þessum bókum og ef einhverjir skyldu vilja fræðast meira um þetta mál þá er þeim bent á að fara á http://ruv.is/frett/saga-akranesbaejar-i-og-ii-a-leid-a-haugana

WP 20160129 10 37 56 ProRafmagnstengingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eintóm steypa, sem byggist á gamalkunnri rússagrýlu, sem búið er að ala fólk svo á að það sér ekki skóginn fyrir trjánum.

Bjarne Örn Hansen 16.2.2016 kl. 19:24

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hvaða skóg? Og hvaða tré? Útskýrðu aðeins betur.

Sæmundur Bjarnason, 16.2.2016 kl. 20:54

3 identicon

Hér segir maður að "Du ser inte skogen för träden".  Sem þýðir að maður sér ekki heildina, fyrir smáatriðunum.  Tökum til dæmis, "Trump getur skapað heimskreppu". Heimskreppan á 30 áratugnum, skapaðist vegna þess að seðlar voru gulltryggðir, og menn á Wall Street höfðu spáð ranglega í tillgang og eftirspurn vöru.  Að segja að Trump geti endurtekið þetta, er bara hernaðaráróður, til að gera fólk óttaslegið.  Hugsaðu málið, þessi kauði er einn auðugasti maður Bandaríkjanna ... heldur þú að hann geri eitthvað til að leggja auð sinn í hættu? Og hafðu hugfast, að seðlar Bandaríkjanna eru ekki gulltryggðir ... þeir eru ankraðir við GDP. Mjög mikilvægt ... af hverju? Jú, því GDP mun hrynja og auður hans hverfa, ef það verður hrun.  Sannleikurinn er að öllum líkindum þver öfugur ... hann er líklega síðasti maðurinn til að valda kreppu, sem bæði Bush og Obama hafa skapað.

Það er náttúrulega ekkert útilokað að maðurinn sé algjör asni, og geri einhverja gloríu.  En hann væri tæplega svona auðugur, ef hann væri einfeldningur ... svo ég tel við getum sagt, að hann er allavega ekki "meira" illa gefinn en George W. Bush Jr.  Eða King George, the II eins og gárungarnir kalla hann.

Síðan eru kosninga kerfi Kanans ... þó svo að fólkið velji einhvern, þá er það ekki trygging fyrir því að hann verði forseti.  Elektor ráðið, getur neitað honum að verða forseti ... þó þeir hafi aldrei gengið á móti vilja fólksins, þá tel ég afar ólíklegt að þeir samþykki Trump.  Einu sinni er allt fyrst, ef fólkið kýs hann mun Elektor ráðið neita honum um embættið.

Bjarne Örn Hansen 16.2.2016 kl. 23:54

4 identicon

Það leikur ekki nokkur vafi á því að Trump er stórhættulegur maður.

DoctorE 17.2.2016 kl. 08:49

5 identicon

Hvaða áhrif telur þú að dauði hæstaréttardómarans kunni að hafa á forsetakosningarnar? 

Jón 17.2.2016 kl. 11:55

6 identicon

Ég er sammála Bjarne að mannadýrkun sem velldur því að telja einn mann geta bjargað eða rústað heilu landi eða heiminum er frekar einfeldningsleg, þó ég telji það misskilning að Sæmundur trúi því. Við getum aftur á móti spurt okkur afhverju við kjósum að setja hlutina svona fram. Það er enginn einn maður í framboði nokkurn tíman hættulegur. Það er almenningur/þjóðfélagið/samfélagið sem gefur honum vald, sem er hættulegt. Á tímum alþjóðavæðingarinnar þegar við berum öll gagnkvæma ábyrgð á vanda hvers annars er ekki heldur lengur hægt að skella skuldinni á eitt land eða eina þjóð. Hvers kyns tilraunir til slíks munu því ávallt hafa öfug áhrif, auk þess að vera forheimskandi og skaðlegar og koma í veg fyrir nauðsynlegar framfarir. Almenningur heimsins ber sameiginlega ábyrgð á öllu sem gerist alls staðar í heiminum og hluta af ábyrgðinni á ríkjandi ástandi í hverju landi. Það er sannleikurinn á okkar tímum, þegar heimurinn er orðin ein þéttofin heild. Það er einn frambjóðandi til kosninga í Bandaríkjunum sem hefur skilning á þessu, enda greindari en aðrir sem hafa verið í framboði þar áður. Hann heitir hvorki Trump né Clinton. 

Jón 17.2.2016 kl. 12:02

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ætla þeir á Akranesi í alvöru að farga þessum dýrkeyptu bókum, Sögu Akraness ?! Hvað er að þessu liði?

Jón Valur Jensson, 17.2.2016 kl. 12:31

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Átti eiginlega ekki von á svona mörgum athugasemdum. Afsaki hve seint er svarað. Nú veit ég Bjarne að þú varst að tala um Trump. Það vissi ég ekki áður.

Það er þetta með kreppuna. Ég býst alls ekki við því að hún verði alveg eins og þær sem áður hafa komið. Enda er fullyrðing mín um það bundin ýmsum skilyrðum.

Það eru kjörmenn úr ríkjunum sem kjósa forsetann. Mér finnst afar ólíklegt að þar verði gengið gegn lýðræðislegum reglum, sem að vísu byggjast sums staðar meira á venjum en beinum lagafyrirmælum.

Kannast alls ekki við að ég hafi sagt að Trump væri heimskur. 

Sæmundur Bjarnason, 17.2.2016 kl. 22:06

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jón ég held að dauði Scalia kunni að valda Repúblikönum nokkrum vandræðum ef Obama kýs að tilnefna arftaka hans fljótlega.

Og Jón ég tel að hingað til hafi einstaklingar oft haft áhrif á veraldarsöguna og að svo muni enn verða.

Sæmundur Bjarnason, 17.2.2016 kl. 22:11

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jón Valur. Mér skilst að það sé einhver skiptaráðandi sem ætli sér að farga þessum bókum. Útgáfufélagið hafi semsagt farið á hausinn.

Sæmundur Bjarnason, 17.2.2016 kl. 22:13

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Takk, Sæmundur.

Jón Valur Jensson, 17.2.2016 kl. 22:33

12 identicon

Áhrif einstaklinga á söguna eru stórlega ofmetin of eru frumstæðar leifar þess tíma þegar við tilbáðum konunga og töldum þá af guðakyni. Mannkynssaga hins upplýsta mannkyns framtíðarinnar mun skipta út nöfnum eins og Hitler fyrir orð eins og "Þjóðverjar þriðja og fjórða áratugs síðustu aldar". Einn maður áorkar einskis, og þegar hann getur eitthvað mikið illt er það einungis afþví að hann er að koma fram hann meirihlutavilja. Hugmyndir um að einstaklingur geti umturnað sögunni, munu þykja hlægilegri en hugmyndir Forn-Egypta um að Faraó hafi stjórnað veðrinu. 

Jón 18.2.2016 kl. 04:21

13 identicon

Með öðrum orðum, nái Trump kjöri og geri eitthvað slæmt af sér, þá er skuld hans minni en eitt sandkorn á strönd. Restin skrifast á almenning. 

Jón 18.2.2016 kl. 04:22

14 Smámynd: Mofi

Þótt ég sé sammála greinarhöfundi um að ég tel Trump hættulegan þá samt er hann sá eini af frambjóðendunum sem vill vingast við Pútin.

Mofi, 18.2.2016 kl. 09:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband