2407 - Björn Birgisson

Björn Birgisson heldur sig við Fésbókina og lætur eitthvað frá sér fara á hverjum degi held ég. Talar mikið um spýtukofann sinn. Og konuna sína. Ásamt harðfiski og annarri matvöru. Kannski hefur hann ekki um svo margt annað að ræða. Fitjar samt uppá ýmsu og er ófeiminn við að viðra pólitískar skoðanir sínar. Hef ekki athugað hvort þær breytast eftir því sem vindurinn blæs. Held ekki að þær geri það svo mikið. Hinsvegar er hann ófeiminn við að hætta fésbókarvinskap við það fólk sem vogar sér að mótmæla honum. Það ætla ég ekki að gera. En það er nokkuð gaman að reyna að sálgreina hann. Stjórnmálaskoðanir hans eru dálítið hægrisinnaðar, en mér finnst hann vera óralangt frá öfgahægrinu. Annars veit ég vel að í augum margra segja þessar pólitísku hugleiðingar meira um mig en hann.

Þetta blogg væri nú ansi klént ef ég gæti ekki fjallað um annað en Björn á bak við Kára. Eða Birgi Finnsson alþingismann sem ég held að hafi verið faðir hans. „Allt er gott sem Grindvískt er“ gætu verið einkunnarorð Bjössa. Spýtukofinn er nefnilega þar ásamt mörgu öðru.

Nú er Netflixið komið í sjónvarpið mitt eða réttara sagt sjónvarpið okkar. Verst að mér leiðast bara kvikmyndir, sjónvarpsþættir og tölvuleikir. Eins og margir hafa áhuga á þessu öllu saman. Sama er að segja um sjónvarpsþætti. Hef ekki séð svomikið sem einn einasta þátt af „Downtown Abbey“ eða „Game of Thrones“. Ófærð ákvað ég af einhverjum ástæðum að fylgjast með og fannst leikstjórinn komast allvel frá fyrsta þættinum. Annar þáttur var samt áberandi illa gerður að mínu áliti, en sá þriðji samt svolítið betri. Veit ekki hvort ég endist til að horfa á alla þættina sem mér skilst að séu tíu. Amerísku áhrifin eru greinileg.

Svo er mér eiginlega alvega sama þó David Bowie sé dauður. Man ekki eftir neinu lagi með honum. Þó hef ég sjálfsagt heyrt þau einhver. Nútíminn tilbiður poppstjörnur og kvikmyndafólk. Tölvunördar, skákmeistarar og rithöfundar eru mínir menn.

Ekki þykir mér ótrúlegt að einhverjir (jafnvel margir) verði til þess að skora á ÓRG að vera forseti áfram. Ef enginn frambærilegur frambjóðandi kemur fram á næstunni getur alveg hugsast að hann fallist á að bjóða sig fram einu sinni, einu sinni enn og hugsanlega verður hann ekki í neinum vandræðum með að sigra. Hann hlýtur að hafa lagalegan rétt til að bjóða sig fram jafnlengi og aðrir. Hann er samt ótvírætt búinn að gefa í skyn að hann ætli að hætta.

Enn er leitað að MH370. Flugvélinni sem hvarf þann 8. mars 2014 með 239 farþega innanborðs. Nýlega fannst þó skipsflak á 3700 metra dýpi, sem sennilega er af skipi sem fórst á nítjándu öld, en flugvélarflakið hefur ekki fundist ennþá. Vænghluti sem sagður er af þessari þotu fannst þó á eyjunni Reunion á Kyrrahafi í júlí á síðasta ári. Ótvírætt er þetta einn mesti leyndardómur flugsögunnar.

WP 20151006 09 32 47 ProSveppur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband