2387 - Er búið að semja frið?

Fésbókin og Mogginn virðast hafa samið frið. A.m.k. get ég deilt bloggunum mínum núna. Guð láti gott á vita. Annars trúi ég ekkert sérstaklega á hann. En orðtakið er svona. Þeir sem eru með meirapróf í samsæriskenningum mundu sennilega segja að þetta tengdist allt nauðgunaríbúðinni í Hlíðunum og það getur vel verið, mín vegna.

Þetta minnir mig að sjálfsögðu á vísuna góðkunnu:

Storminn hefur loksins lægt
ljúfur saminn friður.
Yfirsængin hægt og hægt
hreyfist upp og niður.

Annars er það víst fátt sem ekki minnir mig annaðhvort á gamlar vísur eða sérstakar orðræður úr íslendingasögunum eða jafnvel fornaldarsögum Norðurlanda.

Villi Vill í Köben (sem er allsekki sá sami og Villi Vill í Hlíðunum) gerir athugasemd við píramídafrétt mína í síðasta bloggi. Bæði vegna þess að athugasemdir við blogg mín eru sárasjaldgæfar núorðið á þessu síðustu og verstu fésbókartímum og svo mega aðrir gjarnan kynnast kímnigáfu Villa Vill, þá ætla ég að endursegja athugasemd hans hér. Hann spyr semsagt um það hvort píramídarnir séu með hita. Svo er ekki, að því er ég best veit, en hitamunur eftir dægrum er talsverður í Egyptalandi hefur mér skilist. Með sérsmiðuðum tækjum er hægt að komast að því hvort hitabreytingin er jöfn alstaðar í viðkomandi píramída. Svo er ekki og geta margar skýringar verið á því.

Er búinn að komast að því að á morgungöngu minni eru 400 metrar pr. hverjar 5 mínútur fullmikið fyrir mig í myrkri, kulda og rigningu og mér veitir varla af að minnka það niður í svona 370 metra eða jafnvel 350 (betri tölur). Þannig var það t.d. í morgun þó ekki hafi farið að rigna að ráði fyrr en undir lokin. Í hellirigningu má líka stytta leiðina sem farin er. Viðmiðunin í því efni er ennþá 5 kílómetrar eða klukkutími.

Kannski ég setji þetta bara upp áður en það verður með öllu úrelt. Það verður líka fróðlegt að sjá hvernig mér gengur að deila þessu.

IMG 2356Blóm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband