39. blogg

Málfarsfasismi er slæmur. Vesalings forstjórinn sem tók við af Bjarna Ármannssyni í Glitni beygði sögnina að hlakka vitlaust í viðtali og er að mér heyrist hart dæmdur fyrir það.

Það eru svo margir sem beygja þessa sögn vitlaust að það liggur við að það vitlausa sé orðið rétt.

Sjálfur reyni ég eftir megni að vara mig á að dæma aðra eftir því hvernig þeir tala eða skrifa. Ég hugsa að ég sé viðkvæmari fyrir slæmum texta en slæmum framburði. Víst er ljótt að sjá hve slæmur og illskiljanlegur texti veður uppi í fjölmiðlum. Og blogg eru að mínum dómi fjölmiðlar.

Mér finnst eðlilegt að gera strangar kröfur í málfarslegu tilliti til auglýsinga og fjölmiðla með mikla útbreiðslu. Hinsvegar er afleitt ef viðmælendur eru dæmdir af einstökum slysum.

Ég man að ég var eiginlega feginn þegar Magnús Torfi Ólafsson stóð að því að afnema setuna. Ástæðan var einfaldlega sú að sumar setureglurnar voru svolítið flóknar og ég hafði aldrei náð því að tileinka mér þær nógu vel. Hinsvegar vefjast ypsilon reglurnar lítið fyrir mér.

Eitt af því sem mér finnst mjög áberandi á vefmiðlum er að svo virðist sem oft sé verið að breyta um orð í textanum fram á síðustu stund og ekki gætt að því að breytingarnar geta hæglega haft áhrif annars staðar. Lokayfirlestri er þá greinilega sleppt.

 

Í framhaldi af þvi sem ég skrifaði um brunnklukkurnar um daginn, þá get ég nefnt að lirfur brunnklukkna eru nefndar vatnskettir. Það var að vísu ekki á sama stað og við fylgdumst með brunnklukkunum, en mér er minnisstætt að ég fylgdist með vatnsköttum einu sinni. Þeir voru furðustórir og það sem mér þótti eftirtektarverðast við þá var að húðin á þeim var glær og holdið gegnsætt þannig að innri líffæri sáust öll.

Svo ég haldi nú áfram þessu kvikindatali þá finn ég það á sjálfum mér að viðkvæmni gagnvart ýmsu þessháttar eykst með aldrinum. Nú mundi ég t.d. helst ekki taka kónguló upp nema með bréfi eða einhverju, en þegar ég var yngri hefði mér þótt slíkt fáránlegt.

Þegar ég vann á Garðyrkjuskólanum á Reykjum gerðum við það stundum strákarnir að gamni okkar að taka kónguló og setja hana í vef hjá annarri sem var heldur minni. Ef vel tókst til varð úr þessu gríðarlega spennandi bardagi (einkum ef sú sem átti vefinn var með eggpoka hjá sér) sem við gátum svo fylgst með og jafnvel reynt að hafa áhrif á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband