34. blogg

 

Alveg er ég hissa á hvað Stefán Pálsson nennir að andskotast útaf þessu Moggabloggi. Svei mér ef álit mitt á því eykst ekki pínulítið við það. Nú skrifar hann  pistil um Moggabloggið og reynir að vera málefnalegur en í mínum augum er hann bara fyrst og fremst hlægilegur.

Hann er mánuðum saman búinn að hnoða saman einhverjum bölbænum um Moggabloggið í lok hverjar einustu bloggfærslu hjá sér. Barnalegt. Kannski er hann búinn að komast að því að Moggabloggið hverfur ekki þó hann láti illa og er að leita sér að útgönguleið útúr vitleysunni.

Annars hef ég lesið bloggið hans Stebba árum saman og finnst það fínt. Líklega er hann samt skelfilegur besservisser. Leiðinlegast finnst mér þegar hann dembir spurningum í miklu magni yfir lesendur sína og má ekki vera að því blogga neitt af viti.

Ólína Þorvarðardóttir skrifar um að einhver hafi náð því að eignast 195 bloggvini hér á Moggablogginu án þess að blogga nokkuð. Mér finnst þetta fyndið og sýna vel hvernig þessi bloggvinasótt hefur farið úr böndunum og ég er svosem sammála Stebba Páls um að það er margt athugavert við Moggabloggið.

En nú koma lokin á brunafrásögninni:

 

Þegar ég kom út stóðu stelpurnar þar og horfðu inn um opnar útidyrnar og á dyragættina innaf bíslaginu. Ég tók mér stöðu við hlið þeirra og saman stóðum við þarna og biðum eftir því að foreldrar okkar og bræður kæmu út úr brennandi húsinu.

Það var fremur kalt í veðri enda komið fram í desember, örlítil snjóföl yfir öllu og jörð frosin. Þó við systkinin værum berfætt og aðeins klædd náttfötum varð okkur ekki kalt. Að minnsta kosti var ekki um það rætt. Reyndar var ekki rætt um neitt. Við stóðum bara þarna og biðum án þess að segja eitt einasta orð.

Ég man að ég stóð syðst og næst kálgarðinum, Ingibjörg í miðjunni og Sigrún næst veginum. Við stóðum dálítið á ská miðað við húsið og störðum í eldinn.

Eftir nokkra stund tóku eldtungur að standa út um opna dyragættina sem við horfðum eins og dáleidd á. Eldurinn magnaðist smátt og smátt og eldtungurnar breiddust fljótlega út um alla ofanverða dyragættina. Drengurinn níu ára gamall og systur hans tvær sem voru nokkrum árum eldri stóðu þarna í umkomuleysi sínu og horfðu á eldinn magnast og æsast og fylla að lokum alla dyragættina.

Hugur drengsins var sem lamaður. Þarna voru foreldrar hans og tveir bræður inni í eldinum og hann gat ekkert gert. Það væri óðs manns æði að ætla sér að fara aftur inn í húsið enda datt engu þeirra það í hug. Þau stóðu bara þarna sem lömuð og gátu hvorki hreyft legg né lið. Hann reyndi að gera sér í hugarlund hvernig lífið mundi verða uppfrá þessu. Hann og systur hans munaðarlaus og mundu hvergi eiga öruggt skjól. En hugur hans var fastur og hann gat ekki hugsað um neitt nema þetta sama fram og aftur.

"Nú verð ég munaðarlaus, mamma og pabbi dáin og bræður mínir ekki lengur til. Þetta er hræðilegt. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég get eiginlega ekki gert neitt. Bara staðið hérna og starað í eldinn." Aftur og aftur þyrluðust þessar hugsanir í huga hans. Engin niðurstaða fékkst, bara þetta sama aftur og aftur. Hann hafði enga hugmynd um hve lengi hann stóð þarna. Stelpurnar stóðu þarna við hliðina á honum og hugsuðu sennilega eitthvað svipað. Ekkert þeirra sagði þó eitt einasta orð. Það eina sem þau gátu gert var að stara í þögulli skelfingu í eldinn. Þau voru yfirkomin af ógn þess sem var að gerast. Gersamlega lömuð. Ófær um að hreyfa sig. Ógnin lagðist yfir þau og kom í veg fyrir að þau fyndu til hita frá eldinum eða kulda frá umhverfinu.

Skyndilega kom Vignir blaðskellandi fyrir hornið á húsinu og sagði: "Hvað er þetta? Ætlið þið ekki að koma?"

Álögin runnu af okkur systkinunum á augabragði og við eltum Vigni sem sneri strax við og fór aftur bak við hús. Þar voru foreldrar okkar og Björgvin og höfðu þau öllsömul komist út úr húsinu með því að brjóta rúðu í glugganum á svefnherberginu, því þegar búið var að finna Vigni sem hafði falið sig undir rúmi í öllum ósköpunum, var eldurinn á ganginum orðinn svo magnaður að ekki var fært þar út úr húsinu.

Við fórum nú öll sjö yfir til Steinu og Tedda í næsta húsi og vöktum upp. Þar var okkur að sjálfsögðu vel tekið. Pabbi hafði skorið sig á hendinni við að brjóta gluggann og mamma hafði ekki haft tíma til að taka fölsku tennurnar sínar með sér, en að öðru leyti amaði svosem ekkert að okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband