21.4.2007 | 00:10
32. blogg
32. blogg
Andskotinn í Helvítinu hóar / hinum megin við Esjuna snjóar / Mýramenn í koppa sína kúka / og klóra sína lúsugu búka. Þessi gamla vísa grasserar í huga mér akkúrat núna. Eflaust er hún öðruvísi í minningu sumra og í sjálfu sér er hún ekki merkileg. Ekki einu sinni rétt ort eins og ég man hana.
Nýbúinn að blogga og ekki frá miklu að segja. Var að enda við að lesa skáldsögu sem kölluð er Ár hérans" og er eftir finnskan höfund. Merkilegt hvað ég, sem nánast er hættur að lesa skáldsögur, hef mikinn smekk fyrir finnskum sögum. Í fljótu bragði man ég eftir þónokkrum. Mika Waltari las ég fyrir mjög löngu síðan og man t.d. vel sögu eftir hann sem heitir Egyptinn". Síðan man ég vel eftir sögu sem ég las fyrir mörgum árum og heitir Manillareipið". Fyrir fáeinum árum las ég svo sögu sem heitir Stórfenglegt fjöldasjálfsmorð" eða eitthvað í þá áttina. Allt eru þetta nokkuð eftirminnilegar bækur og á margan hátt ágætar. Finnar eru sérstakir, næstum eins sérstakir og við Íslendingar. Talandi um alla þessa Finna man ég líka eftir formúlu-eitt-brandara frá því fyrir nokkrum árum. Formúlufíklar sögðu gjarnan og þóttust gáfaðir: To win a race you have to finish." Þessu var svo breytt lítillega þegar Hakkinen var uppá sitt besta og sagt: To win a race you have to be finnish."
En auðvitað er aðalástæðan fyrir því að ég blogga svona fljótt aftur sú að ég þarf að koma næsta kafla af framhaldssögunni að:
Upp við Reykjafoss hitti ég Jósef Skafta sem þar var á gangi með Auði systur sinni. Við fórum öll þrjú í áttina að bakaríinu og við Jósef höfðum um margt að tala. Ekkert var þó minnst á atburði næturinnar. Fyrir framan bakaríið heyrði ég að Auður var að spyrja Jósef bróðir sinn um eitthvað en hann sagði henni að þegja og hætta þessu rövli. Ég var forvitinn og spurði hvað hún hefði verið að segja.
"Hún var eitthvað að tala um að húsið heima hjá þér hefði brunnið í nótt", sagði Jósef.
"Af hverju viltu ekki leyfa henni það?" spyr ég steinhissa.
"Ég hélt að það mundi kannski særa þig", svarar Jósef.
Ég er alveg gáttaður. Hvernig getur honum dottið slík fjarstæða í hug. Eins og mér sé ekki sama þó húsið hafi brunnið. Það er frekar að ég geti miklast af því að hafa lent í sögulegum atburðum. Þetta er alveg stórmerkilegt. Að aðrir skuli hafa áhyggjur af því hvernig mér líður. Þegar mér líður einmitt prýðilega. Ekki hef ég misst nokkurn hlut sem merkilegur getur talist. Ég þarf að vísu sennilega að sofa einhvers staðar annars staðar næstu nætur og eignast eflaust nýtt heimili von bráðar. En hvað með það? Kannski verður það einmitt bara betra en það gamla. Engin ástæða til vera að væla.
Við Jósef erum góðir félagar og ásamt með Jóhannesi bróður hans leikum við okkur oft saman. Jósef er einu ári yngri en ég og Jóhannes einu ári eldri. Stundum leikum við okkur í fótbolta á túninu hjá Grund og þá er venjulega einn í marki og hinir tveir þykjast vera einhver tiltekin landslið. Eitt sinn kemur Jóhannes okkur mikið á óvart. Hann segist vilja spila fyrir landslið Uruguay. Uruguay? Hver fjandinn er það nú?
"Vitið þið ekki að Uruguaymenn eru heimsmeistarar í fótbolta?" segir Jóhannes þá.
"Heimsmeistarar peimsmeistarar. Þú veist ekki hundaskít um Uruguaymenn", segjum við Jósef, annarhvor eða báðir eða hugsum a.m.k. eitthvað á þá leið.
Í garðyrkjustöð Skafta pabba þeirra Jósefs og Jóhannesar leikum við okkur líka oft. Þar eigum við fullt af merkilegum köllum sem flestir eru hvítir og með stafina Champion um sig miðja. Sumir heita reyndar einhverjum öðrum skrítnum nöfnum og fáeinir eru af öðrum lit en hvítum. Til dæmis eru mjög verðmætir og sjaldgæfir kallar í bleikum lit og við rífumst jafnvel um að eiga þá. Fullorðið fólk segir að þessir kallar séu bara bílkerti en við tökum lítið mark á því og látum þessa kalla okkar lenda í ýmsum merkilegum og hættulegum ævintýrum.
(framhald síðar)
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.