2333 - Óbirt ljóð

Þann 26. apríl síðastliðinn birti ég á bloggi mínu ljóð eftir Ísak Harðarson ásamt þaraðlútandi hugleiðingum. Í gær þann 18. maí skömmu eftir síðasta blogg mitt barst mér svo eftirfarandi fésbókarbréf:

Sæll vertu, Sæmundur. Verð að játa að ég er dálítið upp með mer yfir því að þú skyldir birta ljóð eftir mig á bloggsíðunni þinni. Engu að síður ætla ég að fara fram á að þú verðir svo vinsamlegur að eyða því. Ég setti þetta ljóð inn á fb-síðuna mína fyrir nokkru og lét það standa þar í nokkra klukkutíma, en þegar svo var komið áttaði ég mig á að ég var mjög óánægður með kveðskapinn af ýmsum ástæðum og ég tel mjög ólíklegt að ég muni nokkurn tíma birta þetta ljóð aftur með einum eða öðrum hætti. Viltu nú ekki fjarlægja þetta, kæri Sæmundur. Ljóðið þitt eða hugleiðingin stendur fyllilega ein fyrir sínu á bloggsíðunni þinni.

 

Því svaraði ég samstundis með þessu bréfi:

 

Jú, það er ekki nema sjálfsagt. Veit samt ekki hvernig ég á að fara að því. Vildi helst að þú segðir mér til í því efni eða bæðir Moggabloggsguðina um það. (Annað hvort að segja mér hvernig ég á að gera það eða gera það sjálfir.) Kannski er þetta ljóð samt öllum gleymt (nema okkur) Auðvitað skiptir samt máli hvort það er þarna eða ekki.

 

Svar kom um hæl:

 

Takk fyrir velviljann. Ég skal ekkert vera að stressa mig á þessu. Það er kannski bara allt í lagi að þetta ljóð sé til einhvers staðar. Þú ert ötull í blogginu, Sæmundur. Gangi þér vel og takk fyrir fb-vináttuna.

 

Ég svaraði því svo þannig í morgun:

 

Við nánari athugun hef ég komist að raun um að ég get auðveldlega eytt ljóði þínu úr bloggfærslu minni og þannig orðið við ósk þinni, sem er mjög eðlileg. Bið ég þig hérmeð afsökunar á fyrra bréfi mínu. Hef samt aldrei verið beðinn um svonalagað fyrr.

 

Þetta alltsaman ásamt ellihrumleika mínum varð mér svo tilefni til eftirfarandi hugleiðinga:

Hver er eigandi sendibréfs?
Móttakandi eða sendandi?
Er höfundarrétturinn flókinn og snúinn?
Eða er ég bara vitlaus og misheppnaður?

Geðveiki er undarlegur sjúkdómur.
Hvort er sá geðveiki veikur.
Eða samfélagið sjúkt?
Hve mörg eru samfélögin?
Eru þau jafnmörg þeim geðveiku?
Eða þeim heilbrigðu?
Eða samanlagt?

Hvað er heilbrigði?
Hvernig er það mælt?

Fara ekki hálfar setningar vel í því sem maður vill kalla ljóð?
Er nóg að setja punkt eða spurningarmerki og svo stóran staf til að setningunni sé lokið?

Er ég þá bara spurningarmerki?

Hvers vegna er lífið svona erfitt og andhælislegt?
Gæti það ekki verið auðvelt og létt?

Frá því ég rauk á fætur eldsnemma í morgun.
Hef ég verið í einskonar leiðslu.
Henni hef ég viðhaldið með kaffi.

Jafnvel gleraugun skipta máli líka.

Og ekki síður bíllinn og Hvalfjarðargöngin.

Hversdagsleikinn býr í venjulegum gleraugum.
Ljóminn í lesgleraugunum.

IMG 2253Túristi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband