2332 - Júróvisíón o.fl.

Mér finnst meiri hávaði í kringum evrópsku söngvakeppnina en venjulega. Get þó ekki komið auga á að meiri ástæða sé til þess en endranær. Útvarpið og margir aðrir fjölmiðlar virðast álíta það sitt æðsta markmið að hjálpa fólki við að gera ekki neitt. Dægrastytting er það víst kallað. Íþróttir eru af sama meiði. Þó er ekki hægt annað en hrífast stundum með þegar spennan nær hámarki. Annars er ég assgoti góður í því að gera ekki neitt. Auðvelt er að telja sjálfum sér trú um að ekkert skipti máli nema það sem maður sjálfur hefur áhuga á. Pólitíkusar og verkalýðsfrömuðir hugsa eflaust þannig.

Það vill bara svo til að þetta er alltsaman blekking. Lífið er einn allsherjar brandari. Guð er ekki til. Hann er dauður fyrir löngu. Samt höldum við, flest hver a.m.k., dauðahaldi í lífið. Er virkilega einhver ástæða til þess? Er föðurlandsást og meðlíðan með öðru fólki einhvers virði? Já, mér finnst sú meðlíðan meira virði en öll trúarbrögð heimsins og öll sú föðurlandsást sem fyrirfinnst í veröldinni og hún er hreint ekki lítil. Þó er hver sjálfum sér næstur og ekkert athugavert við það að eigin hagur sé tekinn fram yfir annarra.

Bjarni sonur minn er farinn að blogga aftur. Einu sinni var hann Moggabloggari, en ekki lengur: https://bjarnisa.wordpress.com/ Þetta er víst urlið. Ekki veit ég af hverju hann bloggar á ensku. Kannski er það til að konan hans og ættingjar hennar geti lesið bloggið hans ef vilji er fyrir hendi. VIÐ ÍSLENDINGAR ættum ekki að vera í vandræðum með það. Ekki er því að neita að rithöfundargenið er þarna. Ekki hef ég samt neina hugmynd um hvaðan það er komið.

Mér hundleiðist fésbókin, en get samt ekki án hennar verið. Enda er margt athyglisvert þar að finna, þó gubbið sé miklu algengara. Kannski er þetta líkt og með sjónvarpið. Einu sinni fannst mér ég ekki geta án þess verið. Nú horfi ég í mesta lagi á fréttir þar, nema ég neyðist til annars. Svipað er að segja um prentuð dagblöð. Netið er allt sem þarf.

Í pólitíkinni er það ekkert merkilegt þó ríkisstjórnin sé óvinsæl. Merkilegra er að hin hefðbundna stjórnarandstað virðist vera það líka. Líka er það merkilegt að sjálfstæðisflokkurinn sem eitt sinn var „Stóri flokkurinnn“ með gæsalöppum og öllu er það líklega ekki lengur. Hvað tekur þá við? Ekki hef ég neina trú á að píratar haldi áfram að vera stórir. Líklegri er algjör upplausn og smáflokkar útum allt.

Verkföll þau sem yfirvofandi eru gætu hæglega breytt stjórnarfari og hugsunarhætti fólks. Samt er það svo að líklega verður komið í veg fyrir þau. Ríkisstjórnin er ekki eins máttlaus og margir halda. Verst að hún (eða Simmi) hugsa ekki lengra en til næstu kosninga.

WP 20150509 17 12 30 ProFrá Akranesi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband