28.4.2015 | 13:32
2325 - Verkföll yfirvofandi
Bjarna Benediktssyni finnst það ómögulegt að bara annar aðilinn verði fyrir tjóni þegar farið er í verkfall. Auðvitað er það ekki tjón að áliti Bjarna þó sá sem í verkfalli er fái engin laun. Launin er hvort sem er svo lág, að ekkert munar um þau. Núna loksins hefur það runnið upp fyrir verfallsrekendum að allsherjarverkfall er hugsanlega ekki nauðsynlegt til að draga samingsaðila að samningaborðinu. Annars eru margar hliðar á þessum verkfallsmálum og hálfhlægilegar oft á tíðum tilraunir fjölmiðla til að koma umræðum af stað.
Af hverju flýr unga fólkið í stórum stíl til útlanda? (Norðurlandanna aðallega) Auðvitað vegna þess að þar eru kjörin betri fyrir sæmilega duglegt fólk. Ég álít aðalástæðuna fyrir því að kjörin eru betri á hinum Norðurlöndunum vera þá að þar hafa jafnaðarmenn (kratar) ráðið lögum og lofum eftir heimsstyrjöldina. Hér hafa aftur á móti (a.m.k. oftast nær) ráðið öfl sem hafa viljað herma sem mest eftir frelsinu svokallaða í Norður-Ameríku. Fyrir þá sem eru hörkuduglegir í því að færa sér heimsku annarra í nyt hentar það ágætlega. Jafnaðarmennska eða kratismi er það auðvitað ekki. Í augum markaðssinna jafnast kratisminn á við kommúnisma. Hann er reyndar búið að kveða í kútinn, en vel er hægt að nota hann sem grýlu ennþá.
Oft er fjargviðrast mikið útaf mannanafnanefnd og margt af því er áreiðanlega með réttu gert. Mér finnst þó í lagi að einhverskonar eftirlit sé haft með því að foreldrar gefi börnum sínum ekki ómöguleg nöfn sem síðarmeir geta orðið þeim til mikilla trafala. Reynslan sýnir að einhver hætta er á því. Að þvinga útlendinga sem hingað flytja til að skipta um nafn er hinsvegar alveg út í bláinn. Leyfa má það þó og alltaf getur verið þörf á að leyfa fólki að skipta um nafn eða nöfn. Vitanlega ættu opinberir aðilar sem minnst að skipta sér af þessum málum, þó það geti einstöku sinnum verið nauðsynlegt. Þetta með ættarnöfnin og Íslenskar nafnvenjur að öðru leyti er þó alveg þess virði að rífast um.
Hringbrautar-hringavitleysan með göngubrúm og þess háttar út í loftið, landspítala-langavitleysan með alltof stórum húsum og jarðgöngum um allar þorpagrundir og jafnvel Vaðlaheiðar-vitleysan og Landeyjahöfnin, nei nú stoppa ég. Hmm er þetta ekki alltsaman Daglegt plott (Eggertssonar) til þess að þrengja að flugvellinum? Nú hefur hann jafnvel fengið Valsmenn og aðra Guðsmenn í lið með sér til þess. Hvar endar þetta eiginlega? Verður ekki stórstyrjöld útaf þessu?
Ég tel útrásarvíkingana hafa trúað því sjálfa að þeir væru óhemju snjallir. Svolítið snjallir voru þeir áreiðanlega því það þarf góðan skammt af frekju og tillitsleysi til að komast á þann stað sem þeir voru á. Siðferði þeirra er samt vafasamt í meira lagi og yfirburðir þeirra yfir útlendinga í svipaðri aðstöðu, voru alls engir þó þeir héldu það. Verst er að nær allir sem hefðu getað stöðvað þá dásömuðu þá og espuðu í vitleysunni. Kannski voru fjölmiðlarnir verstir því hvað sem hver segir þá eiga þeir sinn þátt í sköpun almenningsálitsins.
Hanna Birna segir að sjálfstæðisflokkurinn sé fjöldahreyfing vandaðs fólks. Sú fullyrðing er dálítið vafasöm ef rétt er eftir haft. Ekki er samt hægt að draga þá ályktun af þessum orðum að allir sem ekki kjósi sjálfstæðisflokkinn séu óvandaðir að hennar áliti. Samt gera einhverjir það og ekki er nein ástæða til að ætla annað en hún álíti alla þá sem gagnrýna hana óvandaða. Ekki finnst mér neitt átakanlega slæmt að vera svo óvandaður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.