2322 - Fíkn

Líklega verð ég aldrei ofurbloggari. Samt er ágætt að stefna að einhverju. En ég held þó tryggð við Moggabloggið og blogga afskaplega oft. Aðrir eru samt duglegri við það en ég. Sennilega er ég meira og minna búinn að koma mér upp föstum lesendahópi. Líka er ég víst manna lengst búinn að vera hérna. Mér finnst af einhverjum ástæðum betra að vaða elginn hér en að vera sískrifandi í fésbókina.

Þegar mér dettur eitthvað í hug sem ástæða væri til að minnast á hér á blogginu set ég það gjarnan í bloggskjalið mitt. Hversdagurinn er samt venjulega ósköp hversdagslegur og lítið spennandi. Fésbókin er það hinsvegar oftast. Þ.e.a.s. ef maður vill bara lesa og skoða sér til hugarhægðar. Ég hef aldrei verið fyrir kaffibollaspjall gefinn sjálfur og finnst athugasemdirnar og séringarnar sem þar er oftast að finna heldur lítið gefandi. Les miklu frekar það sem þeir skrifa sem sjaldan tjá sig og svo eru greinarnar sem séraðar eru stundum mjög merkilegar, en það sem þeir skrifa sem eru sískrifandi á fésbókina er miklu síður merkilegt. Sjálfur er ég þó meira og minna sískrifandi en það bitnar mest á blogginu, að ég held.

IMG 0303Þessa mynd tók ég í febrúar árið tvö þúsund og átta en þá voru selfies ekki nærri því í eins mikilli tísku og nú. Þetta er svosem ekkert sérlega góð mynd en ekki er hægt að neita því að selfie er þetta. Ég er bara svona (eða var) og get ekkert að því gert. Sennilega hefur þetta átt að vera af speglunum. Mig minnir að myndin sé tekin í flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Eftir að ég tók mig til og fór að stunda líkamsrækt (gönguferðir) og náði svolitilli stjórn á átfíkninni hefur runnið upp fyrir mér hve menning okkar stjórnast af mat. Mataruppskriftir, matarbækur, matargagnrýni og matarauglýsingar tröllríða öllu. Vel mætti halda að matur væri það mikilvægasta í veröldinni. Svo er þó alls ekki. Sálin (hvar sem hún er nú staðsett) er það langmerkilegasta í mannslíkamanum. Maturinn er bara brennsluefni, ekkert annað. Gott eða vont eftir atvikum. Fíkn hverskonar er fólki eðlileg. Áfengisfíkn, tölvufíkn, sykurfíkn, eiturlyfjafíkn, matarfíkn, skemmtanafíkn, (jafnvel bloggfíkn) og í rauninni hvað sem er getur orðið að fíkn. Þetta skilur sálin og reynir að halda í hemilinn á fólki. Gengur þó misjafnlega. 

WP 20150414 08 53 10 ProUppstilling.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband