2309 - Páskar

Ætíð þegar meiriháttar slys verða (sem samkvæmt fréttum er ansi oft) er tekið fram að ekki sé um hryðjuverkaárás að ræða. Hvernig skyldi standa á því? Mín skoðun er sú að blaða- og fréttamenn haldi að almenningur búist við að hryðjuverkamenn séu, gráir fyrir járnum, á hverju götuhorni. Held að svo sé ekki. Fréttamenn móta verulega skoðanir fólks. Neikvæðar fréttir og skrýtnar eru mest áberandi í öllum fréttamiðlum hér á Íslandi og er það án efa í samræmi við skoðanir fréttamanna. Einnig tíðkast það mjög að láta líta svo út að atburðirnir hafi átt sér stað í næsta húsi. Er þetta í samræmi við skoðanir almennings? Ég efast um það. Vissulega er „almenningur“ (sem ég treysti mér engan vegin til að skilgreina nákvæmlega) fréttaþyrstur mjög að því er virðist. Þó held ég að þetta gæti sem hægast verið öðruvísi.

Hver eru mín helstu áhugamál? Eflaust eru það málefni sem ég fjölyrði sem mest um hér á þessu bloggi. Þó held ég að það sé ekki allskostar rétt. Margt af því sem ég hef áhuga fyrir er meðhöndlað ágætlega (eða allsekki) af fjölmiðlamönnum. Fyrir þeim og öðrum fréttamönnum hef ég talsverðan áhuga eftir að hafa unnið árum saman á fjölmiðli. (Stöð 2.)

Nú eru Páskar og allskyns páskaveislur í hámarki. Hér í Auðbrekkunni var ein slík í gærdag. (Föstudaginn langa.) Vissulega yljar það okkur gamla fólkinu að sjá barnabörnin hamingjusöm. Og fátt er eins skemmtilegt og að fylgjast með athöfnum þeirra og sjá þau hlaupa um. Einangrun sumra er samt slík að sú skemmtun er alls ekki í boði. Þó eru börnin mörg.

Veðrið leikur við okkur um þessa Páska. Þó eru þeir fremur snemma. Eða það hef ég heyrt. Snjórinn er að mestu horfinn hér á Stór-Kópavogssvæðinu. Það birtir snemma og þó ekki sjái til sólar nú í augnablikinu (laugardagsmorgunn) er hlýtt og vorlegt um að litast. Skammdegisdrunginn er óðum að hverfa og nú standa fyrir dyrum hjá okkur flutningar til Akraness og kattapössun þar.

Lestur allur er á miklu undanhaldi. Myndir, bæði hreyfi- og kyrr- , hafa að miklu leyti tekið við. Allar græjur til slíks eru orðnar almenningseign og ekki græt ég það. Þó skrifa ég eins og skrattinn sé á hælunum á mér. (Og stuðla sumt án þess að taka eftir því fyrr en eftirá.)  Aðallega er það vegna þess að ég kann fátt annað. Þó þykir mér gaman að ímynda mér að ég hafi bæði vit og skilning á myndum hverskonar. Svo er þó sennilega ekki. Samt lýk ég þessu bloggi með mynd, sem allir lesendur mínir neyðast til að sjá.

WP 20150310 09 19 53 ProJólakort?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sæmi og gleðilega Páska.

Þakka góð og skemmtileg blogg þín gegnum tíðina.

Þetta að skrifa úr einu í annað er tær snilld.

Mér sýnist þú vera nær Pírötum en Krötum. Kannski vitleysa.

 

Kveðja,

 

Guðmundur Bjarnason 4.4.2015 kl. 16:46

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Guðmundur.

Sæmundur Bjarnason, 5.4.2015 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband