2293 - Ofan gefur snjó á snjó

Margt bendir til að næstu alþingiskosningar hér á landi verði afdrifaríkar. Sú lýðræðisvakning sem hér hefur náð sér á strik eftir Hrunið er fyrst núna að skila sér til alls almennings. Gömlu spilltu stjórnmálaflokkarnir eru á hraðri útleið úr samfélaginu. Andi frjálslyndis fer nú um Vesturlönd. Stórfyrirtækjunum og spilltu stjórnmálamönnunum er nauðsynlegt að segja stríð á hendur. Það er ekki bara hér á Íslandi sem spillingin étur allar framfarir og stórfyrirtækin svífast einskis í nauðgunarviðleitni sinni á náttúrunni. Sama sagan er að gerast allsstaðar. Grikkir eru hugsanlega í forystu eins og er, en önnur ríki munu fljótlega koma á eftir.

Ef ég man rétt, þá minntist ég eitthvað á stóra Seðlabankalánið til Kaupþings í þessu bloggi um daginn. Þó Davíð Oddsson gefi nú í skyn í Morgunblaðinu að hann hafi verið mótfallinn þessu láni þá er það alls ekki rétt. Hann tók það einmitt fram í frægu Kastljósviðtali að hann hefði verið alveg samþykkur því. Það er því óþarfi að vera með læti útaf símtalinu umtalaða milli Davíðs og Geirs. Ábyrgðin er að öllu leyti og algjörlega á Davíðs herðum. Auðvitað er það ansi gott hjá mér að geta afgreitt mál af þessari stærðargráðu í stuttri klausu hér á blogginu. Ég er nefnilega með öllu áhrifalaus, en skilningur almennings á þessum málum fer vaxandi.

Á morgunrölti mínu tauta ég oft fyrir munni mér vísur sem kom upp í hugann. Stundum reyni ég líka að setja saman vísur sjálfur. Um daginn minntist ég vísunnar frægu sem er svona:

Ofan gefur snjó á snjó
snjóum vefur flóató.
Tófa grefur móa mjó
mjóan hefur skó á kló.

Þessi vísa er einstaklega vel gerð og ég þarf ekkert að fjölyrða um það. Í morgun (sunnudag) var austankaldi hér í Kópavoginum og þessvegna tautaði ég eftirfarandi vísu:

Austankaldinn á oss blés
upp skal faldinn draga.
Veltir aldan vargi hlés
við skulum halda á Siglunes.

Reyndar er stundum haft „Skaga“ í staðinn fyrir „Siglunes“, en ég held að Siglunesið sé upprunalegra. Auðvitað getur það samt verið tóm vitleysa hjá mér og ég hef svosem ekkert fyrir mér í því og hef enga hugmynd um hver gerði þessa vísu. Og heldur ekki snjóavísuna.

Í gærmorgun taldi ég eina tólf hrafna við Borgarspítalann. Hversvegna voru þeir þar? Á klukkutímagöngu um nágrennið sá ég enga aðra. Kannski var þetta bara hrafnaþing. En hversvegna voru þeir ekki í betra skjóli, en þarna á bersvæðinu og uppi á hæðinni? Um þessar mundir ber mest á hröfnunum af öllum fuglum. Kannski heyrist stundum í hinum, en þeir láta helst ekki sjá sig.

WP 20150128 13 55 02 ProBrú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir vísuna Sæmundur, afi minn kyrjaði hana oft og mörgum sinnum þegar ég var barn en ég náði henni ekki allri, núna hef ég hana frá þér. Og ég er Þakklát fyrir það.  'Eg tek líka undir með þér að vonandi eru gömlu spilltu flokkarnir og auðmennirnir á útleið og við taki sanngirni, lýðræði og jafnrétti. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.2.2015 kl. 21:13

2 identicon

Sæll Sæmundur Þakka fyrir pistlana. Í Árbók Barðastrandar sýslu 2005  bls 119 er þessi klausa : " Á unglingsárum mínum  var ég samtíða á skútu sérkennilega gáfuðum pilti frá Siglunesi (á Barðaströnd) Hann hét Ólafur Marteinsson Hann brauzt til mennta úr sárri fátækt. Lauk prófi frá Háskóla Íslands í norrænum eða íslenzkum fræðum, og mun hafa verið efni í rithöfund og skáld. -Þegar við vorum að velkjast í bugtinni og sáum til Sigluneshlíða, heyrði ég hann raula við færið sitt":

Austan kaldinn á oss blés, / upp skal faldinn draga trés. / Veltir aldan vargi Hlés, / við skulum halda á Siglunes.

Ekki er vísan beinlínis eignuð  Ólafi.  Fyrir því eru samt sterkar líkur.   Kveðja /HJ.

Haukur Júlíusson 24.2.2015 kl. 00:28

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Ásthildur en ég veit svosem ekki við hvora vísuna þú átt. Báðar eru þær ágætar.

Sæmundur Bjarnason, 24.2.2015 kl. 12:19

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Haukur, ég hef ekki áður heyrt þetta um trés, en einhvern veginn grunar mig að Siglunesið sé upprunalegra en Skaginn.

Sæmundur Bjarnason, 24.2.2015 kl. 12:21

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ofan gefur snjó á snjó.  Hina vísuna kannast ég auðvitað líka vel við og hún var mikið sungin í mínu ungdæmi. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.2.2015 kl. 20:30

6 identicon

Í greininni "Austan kaldinn" (Mbl 3. jan 2000, bls 107) eftir Helga Hálfdanarson  ræðir hann þessa gömlu sjóferðavísu, og birtir aðra mynd hennar sem hann telur vera upprunalega.  Höfundur hennar er ekki þekktur með vissu. Tilgáta mín um Ólaf Marteinsson er kolröng. Kveðja / HJ.

Haukur Júlíusson 28.2.2015 kl. 10:24

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er virkilega gaman að þessum gömlu vísum og Húsgöngum, það má alveg rýna í þetta og fá út mynd af samfélaginu frá þessum tímum.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.2.2015 kl. 10:36

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alveg rétt, Ásthildur. Það eru til fleiri húsgangar en "Afi minn fór á honum Rauð".

Sæmundur Bjarnason, 1.3.2015 kl. 12:11

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einmitt það má líka lesa ansi skemmtilegar útgáfur á þessum húsgöngum m.a. Afi minn fór á honum rauð í bókinni Árleysi Alda hans Bjarka Karlssonar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.3.2015 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband