Tuttugastaogfimmta blogg

"Fugl dagsins var hundur".  Með þessari setningu gerðu þeir Matthildingar (Davíð, Þórarinn og Hrafn) á sínum tíma nánast útaf við menntunarviðleitni útvarpsráðs (eða útvarpsstjóra, hvað veit ég) Á þessum tíma var það fastur liður á einu útvarpsrás landsmanna að rétt fyrir kvöldfréttir voru kynnt þau hljóð sem ýmsir fuglar gefa frá sér.

Því minnist ég á þetta að um þessar mundir er greinilega mikið um að vera hjá fuglum landsins. Ég þekki fáa fugla á hljóðum þeirra en um sexleytið á morgnana þegar ekki er byrjað að birta kveða við alls kyns fuglahljóð úr ýmsum áttum og enginn vafi er á því að vorið er að koma.

Daginn lengir með risaskrefum um þessar mundir. Nú er orðið bjart framyfir klukkan átta á kvöldin og er það mikil breyting frá því sem var þegar dagurinn var sem stystur.

Til viðbótar við setninguna um fugl dagsins er mér í fersku minni setning úr bókinni "Tómas Jónsson - metsölubók" eftir Guðberg Bergsson. Þar segir á einum stað: "Kartöflugrösin féllu um nóttina." Þessi setning lætur lítið yfir sér en lykillinn að áhrifamætti hennar er það samhengi sem hún var í. Í stuttu máli sagt man ég ekki betur en að þessi setning hafi komið í stað álnarlangra náttúrulýsinga sem tíðkaðist um þessar mundir að nota þegar þar kom frásögn að siðgæðislega séð var nauðsynlegt að hætta nákvæmum lýsingum. Mér er nær að halda að íslensk bókmenntasaga hafi ekki orðið söm á eftir.

Ég held að lesendum mínum sé eitthvað að fjölga svo líklega er best að vanda sig svolítið. Mér finnst líka nauðsynlegt að hafa hvert blogg ekki óhæfilega langt svo að sem flestir endist til að lesa þetta allt.

Ég er alltaf að bíða eftir því að einhver þeirra lesenda sem teljarinn heldur fram að flækist hingað inn láti svo lítið að kommenta á  þessi skrif mín. Hingað til hafa sárafáir gert það, en þeim mun eftirminnilegri eru mér skrif þeirra. Sjálfur á ég það til að kommenta stöku sinnum á þau blogg sem ég les.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband