31.1.2015 | 22:38
2281 - Handbolti o.fl.
Mestan part eru fjölmiðlar (og ekki síður blogg) marklaust þvaður. Sama er að segja um blessaða fésbókina, en þó þekki ég ekki nema afmarkaðan hluta hennar. Vel getur verið að einhvers staðar í afkimum fésbókarinnar fari fram markverð umræða. Hún er samt vel falin. Óinnvígðir fá ekki inngöngu þar.
Sviptingar í fjölmiðlun eru sennilega meiri nú en oftast áður. Í sjálfu sér eru allir (í gegnum fésbókina eða annað) fréttamenn. Alvöru fjölmiðlar, sem vilja og þurfa að selja sínar afurðir, eiga í harðri baráttu við óskapnaðinn sem viðgengst í netheimum.
Fjölmiðlar og handboltasérfræðingar hafa haft hátt í gagnrýni sinni á heimsmeistaramótið í Katar. Aðalgagnrýnisefnin sýnast mér vera peningar og dómarar. Þessi gagnrýni þykir mér heldur lítið marktæk. Peningar hafa alltaf ráðið öllu (eða a.m.k. mestu) í nær öllum íþróttum. Og þó Katarar vilji gera vel við sína íþróttamenn er það ekkert meira en aðrir gera og Íslendingar mundu gera ef þeir gætu. Handbolti er ekki spor merkilegri per se en hver önnur boltaíþrótt.
Gagnrýnin á dómarana snýst fyrst og fremst um matsatriði eins og brottvísanir og í öðru lagi á lengd sóknaraðgerða. Um þetta er tvennt að segja. Handbolti er fyrst og síðast hnoð og slagsmál á miðjunni og ætlast er til að dómarar fylgist með öllu og framfylgi reglum sem sífellt er verið að breyta. Um lengd sóknaraðgerða er það að segja að óskiljanlegt er að í handboltanum skuli ekki hafa verið tekin upp skotklukka eins og er í körfuboltanum. Í mínum augum á lengd sóknaraðgerða annaðhvort að vera ótakmörkuð eða háð skotklukku. Keppnisíþróttir eru hvort eð er að verða þrælar tækninnar.
Allsekki er fráleitt að birta eða birtuleysi hafi áhrif á skapgerð fólks. Fyrir skammdegið um háveturinn fáum við næstum ótakmarkaða birtu á vorin. Hitinn og sólskinið á sumrin er kannski ekki eins og við viljum helst, en ekki er hægt að mótmæla því að auðveldara er að klæða af sér kulda en hita. Engin tilviljum er að framfarir mannkynsins hafa mestar orðið á mörkum hita og kulda. Stöðugur hiti er kannski engu betri en stöðugur kuldi. Breytingar á veðri eru undirstaða alls. Sjálfur hata ég hverskyns úrkomu, en veit samt að hún er nauðsynleg öllu lífi.
Líklega dugir ekki öllu lengur að mótmæla hnatthlýnun. Óþarfi er samt að samsinna öllum þeim heimsendaspám sem yfir oss dynja. Ævinlega hefur mannkyninu tekist að leiðrétta kúrsinn, sem óneitanlega er orðinn ansi hlykkjóttur.
Mér finnst norðurljós hundómerkileg. Samt er það svo að útlendingum finnst þetta merkilegra en flest annað. Alveg er mér sama. Íslenskir ljósmyndarar virðast flestir hafa fengið norðurljósabakteríuna. Gangur himintugla finnst mér þó mjög athyglisverður. Man hve undrandi ég var þegar ég sem unglingur sá í fyrsta skipti tunglin í kringum Júpíter. Auðvitað er það svo að mikil ljósmengun gerir alla himinsýn erfiðari. Halastjörnur finnst mér mjög merkilegar. Einkum ef þær sjást vel með berum augum.
Húsaleiga er útúr öllu korti hér á landi. Jafnframt er ungu fólki nánast gert ómögulegt að eignast húsnæði. Stefnan hér hefur lengi verið sú að allir þurfi að eiga sitt húsnæði. Þessvegna er leigumarkaðurinn afskaplega óburðugur. Líklegt er að afleiðingin verði sú að ungt fólk flytji í stórum stíl til annarra landa, því þar eru tækifærin. Tungumálaerfiðleikar fara minnkandi vegna aukinnar menntunar og næstum öll samskipti eru sífellt að verða auðveldari og auðveldari. Veldur þar einkum stóraukin tæknikunnátta. Ef Ísland á ekki að drabbast niður og standa nágrannaþjóðunum langt að baki, er nauðsynlegt að breyta húsnæðisstefnu þeirri sem hér hefur verið fylgt. Litlar ódýrar íbúðir eru nauðsyn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.