2279 - Víglundarmálið og ýmislegt fleira

Ég á erfitt með að stilla mig um að vera með stjórnmálalegar vangaveltur. Auðvitað er ekki meira að marka þær hjá mér en öðrum. Ég reyni samt eins og ég get að vera hlutlaus í þeim málum sem augljóslega eru flokkspólitísk. Annars má segja að stjórnmálaflokkarnir reyni af fremsta megni að slá eign sinni á alla umræðu í þjóðfélaginu.

Augljóslega hefur Hrunið sem slíkt valdið mikilli gerjun í íslenskum stjórnmálum. Sú vinstri sveifla sem hér hefur orðið er samt greinilega alþjóðlegt fyrirbæri. Viðsjár milli hins vestræna heims og annarra hluta hans fara þó vaxandi.

Víglundarmálið er án efa stórt ef miðað er við þær fjárhæðir sem nefndar eru. Að ætla sér að koma öllum þeim ávirðingum sem Víglundur nefnir á einn mann er að líkindum óframkvæmanlegt. Um flest eða allt sem nefnt er í skýrslunni hefur verið fjallað ítarlega áður og á margan hátt er hægt að álíta að lekamálið svokallaða verði með tímanum afdrifaríkara fyrir stjórnmálastarfsemi í landinu. Kannski er Víglundarmálið bara smjörklípa í öðru veldi.

Afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og framkoma hennar getur haft talsverð áhrif á næstu kosningar. Þó er það alls ekki víst. Að hún telji sig alsaklausa ennþá hjálpar þó varla flokkum að komast yfir þetta áfall. Líklegast er að úrslit næstu kosninga verði lík þeim síðustu. Ólíklegt er þó að framsóknarflokkurinn nái jafn hagstæðum úrslitum og þá. Ekkert bendir til að sjálfstæðisflokkurinn sé að ná fyrri styrk né samfylkingin. Vinstri grænir hafa enn á sér kommastimpilinn og þessvegna er líklegast að nýir flokkar auki fremur fylgi sitt en minnki. Ekki er að sjá að tveggja flokka kerfi sé neitt að nálgast.

Assgoti hvað myrkrið er mikið á morgnana um þessar mundir. Ég (og við bæði) vöknum yfirleitt fremur snemma og þurfum að bíða eftir að birti í eilífðartíma. Held að það sé ekki orðið amennilega bjart fyrr en um ellefuleytið. Hugsanlega lengist dagurinn bara í annan endann núna. Morgnarnir verða kannski ekki bjartir fyrr en seinna. Dagarnir fara meira og minna í það að bíða fyrst eftir birtunni og svo eftir kvöldfréttunum í sjónvarpinu, en þá er orðið dimmt aftur. Helst að alþingi, fésbókin og afkomendurnir geti haft ofan af fyrir okkur þess á milli.

Ég hef svosem lent í því að bloggið mitt er misnotað í auglýsingaskyni. Ekkert er við því að gera og ef ég ætla á annað borð að hafa athugasemdakerfið mitt opið fyrir hvern sem er má alltaf búast við þessu. Kannski hefur fésbókin forðað mér frá fleiri uppákomum af þessu tagi. Mér finnst heimsóknum á bloggið mitt hafa fækkað eilítið aftur, en þær náðu svolitlu flugi um jólaleytið. Kannski eru umhleypingarnir í veðrinu og hinn skammi birtutími bara svona þreytandi.  

WP 20150102 11 44 56 ProTrjágrein.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband