2274 - Súðavík

Nú er mikið rætt um snjóflóðið í Súðavík og er það að vonum. Mig minnir að það hafi verið seinna sama árið (1995) sem snjóflóðið féll á Flateyri. Þá var Internetið ekki nærri eins útbreitt og nú er. Við lýði var einhverskonar póstlisti sem hét Ísland-list. Man að ég endursagði í stuttu máli jafnóðum helstu fréttir úr útvarpi og setti á þennan lista. Auðvitað var fjöldi Íslendinga við nám í útlöndum og þyrsti í fréttir af þessum ægilegu atburðum.

Já, ég er gamall blogghundur og hef fylgst með blogginu frá því fyrir eða um aldamót. Byrjaði samt ekki sjálfur að blogga fyrr en Moggabloggið kom til sögunnar. Hef haldið mig þar síðan. Ætli það hafi ekki verið svona um 2006. Tölurnar segja að ég hafi bloggað talsvert oft og ekki rengi ég það.

Finnst sumir fjölyrða of mikið um trúmál. Vel má efast um að kirkjan þurfi fremur á peningum að halda en margir aðrir. Trúað fólk er þó oftast gott fólk. Útlendingahatur og Múslimaótti sem mig minnir að ég hafi minnst á í síðasta bloggi er alls ekki meiri þess á meðal en annarra. Þeir sem eru andstæðrar skoðunar við mig í ýmsum efnum, bæði trúmálum og öðrum, eru ekkert verra fólk fyrir það. Skoðanir er hægt að undirbyggja með ýmsum hætti. Ég hef skoðanir á mörgum hlutum og finnst oft að mestu máli skipti hvernig þær eru látnar í ljós, fremur en hverjar þær eru. Þó eru sumar skoðanir verri en aðrar, jafnvel afleitar. Trúarskoðanir held ég að séu yfirleitt ekki þar á meðal. Öfgafólk ýmiss konar reynir samt oft að fela sig á bakvið trúarskoðanir og reynir að sá fræjum illinda milli trúarhópa.

Dótturdóttir Nóbelsskáldsins hélt því fram um daginn að tjáningarfrelsið væri heilagt, en dró svo í land í nýrri og óralangri færslu, sem mig minnir að hafi verið í Kjarnanum. Það er svo margt sem heilagt er. Mest fer það að sjálfsögðu eftir trúarskoðunum hvers og eins. Ekki finnst mér frelsið vera sérstaklega heilagt. Síst af öllu tjáningarfrelsið. Vel má misnota það eins og annað frelsi. Og er óspart gert. Kannski er fjórfrelsið best. Það er a.m.k. betra en fjórflokkurinn.

Fulltrúar Wikileaks hafa krafist gjaldþrotaskipta yfir „Valitor“ sem ég held að sé það fyrirtæki sem sér um „Visa“ hér á landi. Hugsanlegt er að hegðun Valitors hafi haft áhrif á starfsemi Wikileaks og stór alþjóðleg fyrirtæki á borð við Visa eru vön að hafa sitt fram. Ef til vill hefur Wikileaks ekki bolmagn til að ganga til orrustu við Visa. Dómstólar eru hræðilega hægfara fyrirbrigði. Kvarnir réttlætisins mala hægt en mala örugglega.

Mér finnst hægri skálmin á náttbuxunum mínum vera styttri en sú vinstri. Allt okkar líf byggist á tilfinningum um ýmsa hluti. Svo er kannski ekkert að marka þá tilfinningu. Samt finnst mér þetta. Mér finnst líka að Íslendingar eigi lítið erindi á heimsmeistaramótið í Katar. Samt kem ég til með að fylgjast með leikjunum þar eins og aðrir Íslendingar. Svona er þetta bara.

WP 20150101 14 26 34 ProTrjágöng.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband