2273 - Kjarninn og Herðubreið

Eiginlega gæti hvaða málsgrein hérna sem er verið sjálfstætt veggjakrot á fésbókinni. Ég er bara svo mikið á móti henni að ég rembist enn við að blogga. Auðvitað eru samt næstum allir hættir þessari vitleysu. Fúttið er mest í að deila öllum fjandanum en leggja lítið til málanna sjálfur. Mest gaman virðist vera að deila með öðrum myndum og myndböndum. Verst er að því hefur flestu verið margdeilt áður.

RUV hefur líklega reiknað með því að Svíaleikurinn í Katar mundi vinnast og þessvegna haft fremur rúman tíma fyrir hann. Annars var þetta alltaf leikur sem mikil hætta var á að tapaðist. Og nú er hið árlega handboltaæði semsé að grípa þjóðina. Verst er að hið almenna fréttaefni verður alveg útundan. En kannski er það bara ágætt. Snjórinn, kuldinn og myrkrið gleymist í eitt augnablik.

Nú er ég orðinn alveg sæmilega birgur af snjómyndum og get haldið áfram að blogga þessvegna. Mesta furða hvað þessi sími tekur góðar myndir þó ekki sé um neitt flass að ræða á svona ódýrri græju. Caledosinn er samt ennþá uppáhaldsappið mitt.

Merkilegt hve fésbókarskrif eins þingmannsræfils geta valdið miklu uppnámi. Já, ég á við múslimaskrif Ásmundar. Furðumargir taka þátt í þeirri auglýsingastarfsemi. Útlendingahatrið og múslimahræðslan er til staðar hér á landi eins og annarsstaðar. Um það þarf ekki að efast. Og svo má búast við að útlandaráðherrann leggi fram viðræðuslitafrumvarpið aftur. Þó Bjarni Ben. beri sig mannalega núna er ekki víst að hann verði eins borubrattur ef klofningur blasir enn og aftur við sjálfstæðismönnum. Það má semsagt búast við spennandi tímum í pólitíkinni núna á útmánuðum. (Þorri, Góa og Einmánuður = útmánuðir – ætli það sé ekki hugsað þannig að veturinn sé á útleið?)

Pósturinn auglýsir nú grimmt pakkaflutning og póstbox. Þess er vandlega gætt að minnast ekki á verð. Ef tekst að sannfæra mig um að þetta sé á sanngjörnu verði er hugsanlegt að ég prófi þetta. Annars varla. Já, það minnir mig á að ég á eftir að ganga frá leiðréttingunni svonefndu. Framsókn kýs ég þó ekki.

Já og Björgvin Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra er víst á leiðinni með að verða ritstjóri Herðubreiðar vil hliðina á Karli Th. Birgissyni. Sennilega heldur hann ennþá að hans bíði framtíð í pólitík. Ég er ekki viss um að það sé rétt, en hugsanlegt er það. Áskrift að netfjölmiðli gengur reyndar einfaldlega ekki. Sjálfur tek ég Kjarnann framyfir Herðubreið einmitt af þeim sökum.

Nú sýnist mér að þetta blogg sé orðið nógu langt til að setja upp.

WP 20141227 15 08 46 ProAkrafjall, er það ekki?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Trausti Jónsson

Hafnarfjall (Tungukollur til vinstri).

Trausti Jónsson, 18.1.2015 kl. 02:15

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Trausti. Það er ágætur siður (sem ég hef tileinkað mér) að taka bara myndir út í loftið og sjá svo til með nafngiftir. Myndir þurfa samt helst að heita eitthvað. Myndin átti nú upphaflega að vera af tuglinu, sem ef vel er að gáð er einmitt í fjallaskarðinu, en sést fremur illa.

Sæmundur Bjarnason, 18.1.2015 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband