2270 - Þykkildisfínt blogg

Einhverra hluta vegna virðist áhugi á blogginu mínu hafa aukist að undanförnu. Kannski er það vegna þess að bloggurum er sífellt að fækka. Það sýnist mér allavega. Vinsældir fésbókarinnar fara stöðugt vaxandi. Annars veit ég hvorki né skil hvernig á þessu stendur. Já, ég trúi aðsóknartölum Moggabloggsins eins og nýju neti. Hugsanlega er það ástæðulaust, en ég get ekki annað.

Mér finnst ég vera í bestu stuði til að blogga snemma á morgnana. Þegar ég segi snemma meina ég svona uppúr fimm eða jafnvel fyrr. Hugsanlega er þetta alveg rétt. Á margan hátt hugsar maður skýrast þegar maður er nývaknaður. Einhverjum kynni að finnast það fullsnemmt að byrja að skrifa um fimmleytið, en það finnst mér ekki. Ég hef tekið eftir því að Jónas Kristjánsson gerir það yfirleitt. Reyndar setur hann þau yfirleitt upp um fimmleytið, segir netskarnið, svo sennilega byrjar hann að skrifa svolítið fyrr. Trúlega er hann samt öskufljótur að því og hann hlýtur að vera í hörkuæfingu.

Hef farið í morgungöngu í ca. klukkutíma að undanförnu. Einhverra hluta vegna er veðrið og færið oft skárra á morgnana en seinni partinn. Umhleypingar hafa óneitanlega verið í veðrinu að undanförnu. Bíð eftir skaplegu og góðu veðri. Það hlýtur að koma hvort sem það verður frost þá eða ekki. Birtutíminn ætti að fara að aukast núna í hænufetum. Babysteps verður maður sjálfur að taka í hálkunni um þessar mundir og eðlilegt að sólin geri það líka.

Ceausescu, Gaddafi og Saddam Hússein voru bölvaðir harðstjórar og allir drepnir og áttu það svo sannarlega skilið. Ceausescu var samt sá eini sem þjóðin sjálf reis að lokum upp gegn og tók af lífi. Það var á jóladag fyrir 25 árum og vissulega er ástæða til að halda uppá það. Rúmeníu hefur samt gengið fremur illa að samsama sig vestrænu lýðræði og margt má enn að hlutum þar finna. Hinir voru drepnir með aðstoð erlendis frá. Bæði Írak og Líbýa er enn í sárum eftir þá atburði sem ollu falli þeirra. Styttra er síðan það gerðist og margt má um það segja.

Útlendingaandúð og innflytjendahatur fer vaxandi í íslensku samfélagi. Kannski er það ekki svo mikið að aukast, en fylgjendur þess eru farnir að láta meira í sér heyra og jafnvel getur það valdið áhyggjum. Því fer samt fjarri að innflytjendur, útlendingar, hælisleitendur og þessháttar fólk sé eitthvert vandamál hér og mesta vandamálið er eflaust hvernig stjórnvöld taka á málum sem þessu tengjast.

Engu erfiðara er að leika á sjónina en önnur skynfæri. Þó fréttir færist úr því að vera í orðum yfir í það að vera myndrænar er ekki þar með sagt að þær batni nokkuð. Þeim fækkar að vísu svolítið sem hafa tæknina sem til þarf á valdi sínu og ef hliðverðirnir hugsa eingöngu um peninga er voðinn vís. Auðvelt er að ljúga með myndum eins og allir vita núorðið.

Siðvæðingin verður að hefjast í sjávarútveginum. Hið nýja Ísland þarf að byrja þar. Meðan fólk horfir uppá það misrétti sem viðgengst í umgjörðinni um sjávarauðlindina er tilgangslaust að vera að velta fyrir sér smáatriðum. Meirihluti þjóðarinnar vill svo sannarlega laga til í þeim ranni, en meðan rifist er um leiðir að því marki að færa auðlegð þjóðarinnar í viðunandi horf græða stórútgerðarmennirnir sem aldrei fyrr. Sannarlega er verið að undirbúa nýtt hrun og kannski verða þeir ívið fleiri sem græða á því en þeir sem græddu á því síðasta. Ekkert bendir til að LÍÚ-auðvaldið hafi lært nokkurn skapaðan hlut.

Er þetta ekki orðið alveg þykkildisfínt blogg hjá mér? Sko, þarna tókst mér að búa til nýtt orð. Ætli orðum í íslensku hafi þá fjölgað úr tvöhundruðogfimmtíuþúsundum í tvöhundruðogfimmtíuþúsundogeitt við þetta?

WP 20141226 10 48 59 ProBeðið eftir storminum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill Sæmundur, mjög góður, bravo!, eins og Grikkir oft segja.

Þið Jónas Kristjánsson eru með bestu blöggurum landsins. Jónas getur að vísu verið nokkuð ruddalegur, en því veldur að hann forðast meðvirkni og kallar þá sem haga sér eins og fífl, fífl. "Why not?"

Þú sýnir meiri "Bescheidenheit", sem er gott orð úr þýsku yfir hógværð, sanngirni og skynsemi. Annars ekki til neitt samsvarandi orð í íslensku.

Haukur Kristinsson 9.1.2015 kl. 11:47

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Haukur.

Sæmundur Bjarnason, 11.1.2015 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband