2258 - Stjórnarskráin og klukkan

E.t.v. gerði fyrrverandi ríkisstjórn afdrifaríka vitleysu með því að leggja eins mikla áherslu á ESB og hún gerði. Hugsanlega hefði verið hægt að koma í gegn breytingum á fiskveiðistjórninni og jafnvel stjórnarskránni líka ef Vinstri Grænir hefðu ekki verið neyddir til að samþykkja umsóknina að ESB. Þeir vildu það greinilega ekki, enda gekk það í berhögg við stefnu þeirra fyrir kosningarnar. Þetta segi ég þó ég sé stuðningsmaður aðildar, en mér finnst ekki skipta máli um nokkur ár til eða frá. Þar endum við hvort sem okkur líkar betur eða verr. Jóhanna og Steingrímur færðust of mikið í fang. Nær hefði verið að einbeita sér að einhverju einu.

Ekki eru allir á sama máli varðandi stjórnarskrána. Enda eru engin líkindi til að svo verði. Ástæðulaust er samt að tala aðdragandann niður og segja nú að of miklum peningum hafi verðið eytt í undirbúninginn. Núverandi ríkisstjórn mun alls ekki stuðla á neinn hátt að því að umræður verði um stjórnarskrána. Það hentar henni prýðilega að umræðan snúist fyrst og fremst um heilbrigðismál.  

Ég er andvígur því að seinka klukkunni. Tvær röksemdir finnst mér einkum að fylgjendur slíks færi fram. Sú fyrri er að með því fáist bjartari morgnar. Hin er sú að á einhvern hátt sé það æskilegra lýðheilsufræðilega séð að vera í meira samræmi við hnattstöðuna með klukkuna. Hvað fyrra atriðið varðar eru bjartari morgnar dýru verði keyptir, því að sjálfsögðu myndi þá dimma fyrr síðdegis. Hitt atriðið er svo sérfræðilegs eðlis að ég treysti mér varla til að fullyrða mikið um það.

Andstæðingar breytinga á klukkunni færa einkum fram tvenns konar rök einnig. Annars vegar eru venjuleg íhaldsrök og hins vegar að eftir því hvort venjulegur vökutími sé álitinn frá 7 - 23 (seven eleven) eða 8 – 24, þá lengist myrkurtími í vöku yfir árið í heild um 131 til 190 klukkustundir við breytinguna. Þetta segir Gunnlaugur Björnsson stjarneðlisfræðingur og ég hef ekkert við þá útreikninga að athuga.

Á sínum tíma þegar þessi breyting í sumartíma átti sér stað (1968) var það einkum til að losna við hringlið með allskonar tímatöflur og sumartíminn, sem þá var, var valinn vegna aukins birtutíma síðdegis og fylgjendur slíks voru miklu fleiri en andstæðingar. E.t.v. yrði breytingin á tímatöflum auðveldari núna vegna tölvutækni, en samt held ég að þingsályktunartillagan fjalli ekki um upptöku sumartíma.

Þorsteinn Sæmundsson sem eflaust er hægt að kalla einn helsta tímatalsfræðing okkar Íslendinga og Gunnlaugur Björnsson stjarneðlisfræðingur eru báðir á móti þessari breytingu og ég held að hvorki flokkapólitík né aldur ráði þeirri afstöðu.

Detox er svindl segir máltækið. (Og RÚV) Mikið er ég sammála. Megrun og bætt heilsa næst einkum með því að éta minna. Sem er sparnaður en ekki eyðsla. Hvers vegna að borga stórfé fyrir hungur? Nær væri að gera vel við sig í mat. Það er endalaus stúdía hvað hentar manni í sambandi við fæðu. Í því efni eru alls ekki allir eins. Ekki á að einskorða sig við bragðgæði heldur skoða allar hliðar. Sennilega er matvara alltof ódýr og auðvelt að verða feitur. Þetta með verðlagið gætu sjálfstæðismenn líklega skrifað undir. Reyndar er ekkert sem mælir á móti því að matvæli væru hundódýr hér einsog annarsstaðar.

WP 20141121 21 24 00 ProKomið við á vinnustofu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldinn

Það er altaf gaman að lesa bloggið þitt Sæmundur.

Jóla kveðja

Baldinn, 12.12.2014 kl. 10:28

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Lausnin í sambandi við A fólkið og B fólkið er að hafa sveigjanleika í námi og vinnu. B fólkið fái bara að mæta seinna yfir svartasta skammdegið og það sé tekið tillit til þess að sumum veitist erfitt að aðlaga líkamsklukkuna GMT. Klukkan per se skiptir ekki máli.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 12.12.2014 kl. 15:29

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Baldinn. Til þess er ég að þessu. Vonin er alltaf að sem flestir lesi þetta.

Sæmundur Bjarnason, 13.12.2014 kl. 07:24

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes, þetta með klukkuna er athyglisvert. Sammála þér um sveigjanleikann. Erfitt getur hinsvegar verið að koma honum við í mörgum skólum. Sé enga nauðsyn til þess að skólar byrji almennt um áttaleytið. Mættu vel byrja seinna, einkum í svartasta skammdeginu.

Sæmundur Bjarnason, 13.12.2014 kl. 07:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband